Veist þú hvernig tilfinning það er að hjóla kasólétt þegar framendi hnakksins stingst í magann? Hefur þú hjólað með lærin 45 gráður út í loftið? Eða horft á púlsmælinn sýna afslöppuð 120 slög á mínútu þegar þú stendur á öndinni eins og áttræður astmasjúklingur að bera hjólið upp úr kjallaranum? Þetta eru bara nokkur atriði sem þú myndir venjast ef þú, eins og ég, heldur áfram að hjóla löngu eftir að aðrar óléttar konur eru hættar að fara í gönguferðir.

Ég glímdi við það í átta ár hvort ég gæti hætt að hjóla í þann tíma sem það tæki að eignast barn, að ekki sé minnst á áhrifin sem það gæti haft á árangur minn í keppnum næstu árin á eftir. Í hvert skipti sem ég knúsaði afkvæmi vina minna öskruðu allir mínir kvenhormónar á mig að eignast barn. Ég velktist um í vafa þar til ég var aftur kominn á hjólið og mundi hversu mikið ég elskaði að hjóla. Hvert keppnistímabil þessi átta ár keppti ég í „expert class“ í fjallahjólreiðum, náði aldrei að verða hraðari eða sterkari en dreymdi alltaf um að ná upp í raðir atvinnumanna. En klukkan sló og raunveruleikinn náði yfirhöndinni. Barn myndi fylgja mér alla ævi. Frami í keppnisíþróttum ekki.

Hverju stigi meðgöngunnar fylgdu sín vandamál. Fyrstu þrjá mánuðina hrjáði mig svo mikil þreyta að hjólreiðar komu ekki til greina. Ég rétt hafði það að labba þriggja kílómetra hring á göngubrautinni í hverfinu. Ég hafði alltaf litið á göngu sem bara eina aðferð til að komast milli tveggja staða en nú var ég farin að skrá þær í æfingakladdann minn. Næstu þrjá mánuði neyddist ég til að nota hlaupabrettið mitt heima vegna vetrarríkis úti. Enn ekkert hjólað. Ég hét mér því að auka gönguhraðann upp í skokk. Og það tókst. Ég náði alveg stormandi 6km hraða. Síðasti þriðjungur meðgöngunnar og vorið komið. Þó mér hefði verið bent á að slaka á fram að fæðingu dreymdi mig um að jafna hetjuskap fyrrum landsliðs keppandans Miji Reoch sem hjólaði á fæðingardeildina í fæðingarhríðunum.

Í fyrstu hjólaferðinni hjólaði ég 10 km. Eiginmaðurinn ýtti mér ekki bara upp brekkumar heldur á jafnsléttu líka þegar ég varð að sleppa stýrinu og rétta úr mér til að ná andanum. Það hjálpaði nú ekki keppnisandanum en ég þraukaði. Með hærri stýrisstamma til jafnvægist við mittismálið hjólaði ég inn í áttunda mánuðinn. Mér leið eins og annari Miji. Ég ætlaði að hjóla, fæða barnið og hendast strax á hjólið aftur. Mig dreymdi jafnvel um að hjóla nokkra hringi í 24 tíma Canaan keppninni snemma í júní, tæpum mánuði eftir að barnið var væntanlegt.

Síðan fórum við í læknisskoðun á 34. viku meðgöngunnar. Eftir að hafa mælt mig horfði hún í augu mér. „Hvað hefur þú verið að gera?“ spurði hún, „legið hefur minnkað um tvo sentimetra, það hefði átt að stækka um að minnsta kosti tvo.“ Ég átti ekki orð, skammaðist mín of mikið til að viðurkenna að ég hefði verið að hjóla. Eiginmaðurinn varð að útskýra málið, frekari æfingar voru bannaðar og ég skikkuð til að drekka tvo auka prótín drykki á dag þar til barnið færi að stækka aftur.

Ég fylltist sektarkennd yfir að hafa hugsanlega skaðað barnið og þunglyndi yfir æfingabanninu. Sem betur fer var móðurtilfinningin sterkari. Í næstu læknisskoðun voru málin í lagi og ég hafði lært mína lexíu. Ég var hætt að blekkja mig með því að ég væri eitthvað meira en ég er. Ég er enginn heimsklassa keppnismaður eða súperkona, ég er einfaldlega manneskja í ágætu formi. Vegna þess að ég er í góðu formi hélt ég að almennar reglur um þjálfun með meðgöngu ættu ekki við mig og jók æfingar á þeim tíma sem flestar konur draga verulega úr eða hætta æfingum. Ég hafði látið egóið ráða ferðinni en ekki ráð reyndra ljósmæðra. Í gegnum átta ára keppnisferil hafði ég horft fram hjá mínum takmörkunum en ég rakst all harkalega á þau þarna í meðgöngunni.

Núna skil ég hvers vegna sumir eru í búningum landsliðsins en ég er í búningi íþróttafélags. Og það sem er mikilvægara er, ég er sátt við það. Þó ég sé loks búin að átta mig á að ég jafnast ekki á við atvinnumennina í hjólreiðum get ég huggað mig við það, eftir að dóttir mín Emily fæddist heilbrigð, að það er eitt sem ég og atvinnumennirnir erum jafn góð í. Við höfum það sem þarf til að verða mæður.

Carlotta Cuerdon er aftur komin á hjólið sitt og hefur auga á að komast í "Sports class" á næsta tímabili. Hún var í vinningsliðinu 1993 og 1994 í keppninni "24 hours of Canaan" sem er 24 tíma hjóla keppni í vestur Virginíu fylki Bandaríkjanna.

Þýtt úr Bicycling, janúar hefti 1996. Páll Guðjónsson.