Hjóladagurinn

Íþróttir fyrir alla, Íslenski fjallahjólaklúbburinn og Landsamtök hjólreiðamanna stóðu að hjólreiðadegi sem haldin var með pomp og prakt 22. september s.l. Almenningur var hvattur til að hjóla u.þ.b. 20 km hring í Reykjavík og að loknu afreki fengu allir viðurkenningarskjal. Var þessi dagur talin hafa heppnast með ágætum þar sem sjá mátti fjölda fólks hjólandi sem tæplega nota reiðhjólið að staðaldri. Það er því alveg víst að svona hjólreiðadagar verða haldnir um ókomna framtíð.    Magnús Bergs

 

Engin ný brú í ár

„Í sumar verður gerð göngubrú yfir Miklubraut á móts við Rauðagerði sem eykur til muna öryggi gangandi vegfarenda. Þá er fyrirhugað að gera göngubrú yfir í Kringluna og á næsta ári yfir Kringlumýrarbraut til móts við Laugarneskirkju“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri Reykjavíkur í kjallaragrein í DV 25 júní 1996. Nú er hinsvegar ljóst að brúin yfir Miklubraut verður ekki komin upp fyrr en í fyrsta lagi í júní á næsta ári. Ekki er það þó borgarstjóranum að kenna. Það er Vegagerð Ríkisins sem sér um brúargerðina og átti ekki eftir pening í þetta smáræði eftir að hafa eytt þeim öllum í Höfðabakkabrúna, breikkun Ártúnsbrekkur og breikkun Miklubrautar. Og ekki er það mikil sárabót að fá brú yfir Kringluna í staðinn. Nei, sú brú á ekki að liggja yfir verslanamiðstöðina heldur frá bílastæði Kringlunnar yfir á bílastæði Sjóvá-Almennra svo samnýta megi bílastæðin. Hún greiðir ekki fyrir umferð hjólreiðamanna og dregur ekki úr bifreiðaumferð.
Páll Guðjónsson

 

Nagladekk

Nokia nagladekk eru til í flestum betri hjólreiðaverslunum. Þetta eru bestu fáanlegu dekkin á markaðnum. Fyrir utan klúbbafslátt er verðið svo til það sama í öllum verslunum, eða um 3.500 kr. stk. fyrir mjórri dekkin (1,95) og 4.500 kr. fyrir þau breiðu (2,20). Flestum þykja þessi dekk nokkuð dýr, sem að hluta til stafar af því að bílaumboð er milliliður í innflutningnum. Á móti kemur að þau endast vel þar sem gúmmíið er ekki eins froðukennt og í venjulegu reiðhjóladekki. Reynslan hefur sýnt að mjórri dekkin henta mun betur í slabbið og skítinn á götum Reykjavíkur þar sem þau fljóta síður heldur skera sig í gegnum krapið niður á fast þar sem naglarnir sjá síðan um að halda hjólinu á réttum kili. Breiðu dekkin virka hinsvegar mun betur í vetrarferðalögin, þar sem hjólað er með fulllestað hjólið á ósöltuðum vegum í glerhálku út á landi. Hvorug dekkin geta talist góð í miklum snjó þar sem munstrið er ekki sérlega gott. Til þess þyrftu þau að vera mun grófari. Látið ekki vetur konung stöðva ykkar hjólreiðar. Það er vart verra en að stunda gönguskíði. Auk þess sem það er alltaf heimskulegt að drattast með tonn og rúmlega það af járni með sér í ófærðinni, stuðlar þú að hreinni borg, hreinna lofti og betra mannlífi. Þú getur svo fræðst enn frekar um vetrahjólreiðar á fundinum 5. desember.   

Magnús Bergs

 

Nýjir stígar

Til hamingju Grafarvogsbúar! Þið eruð loks komnir í stigasamband við vesturhluta Reykjavíkur. Það tók Reykjavíkurborg rúmlega 15 ár að framkvæma þessa flóknu aðgerð. Stígurinn liggur frá og undir Gullinbrú meðfram útjöðrum vinnusvæðis Björgunar að gámastöð Sorpu. Þar tekur hann skyndilega beygju til hægri, meðfram ósum Elliðaár þar sem hann endar við gömlu brýrnar við Elliðaá.

Seinastliðið vor birtist í fjölmiðlum gagnrýni á því að hundar og önnur kvikindi eins og hjólreiðamenn ættu leið    um kirkjugarðinn í Fossvogi. Það stóð heldur ekki á endurbótum. Í sumar var drifið í því að leggja nýjan stíg fyrir sunnan kirkjugarðinn, meðfram sjónum alla leið að Nauthólsvík. Satt best að segja var þessi stígalagning löngu tímabær því maður er orðinn hundleiður á því að deila kirkjugarðinum með ökumönnum. Stígurinn liggur á mun skemmtilegri stað og því er vel þess virði að nota hann þó að hann sé þröngur, óupplýstur, hlykkjóttur og ómalbikaður. Munið bara að víkja fyrir jafningjum okkar, hundunum.

Margir hafa undrað sig á þeim ósið gatnamáladeildar að setja alskyns slysagildrur á miðja stíga svo sem skilti, stórgrýti, ljósastaura, ruslastampa og slár sem vart gera annað „gagn“ en að slasa hjólreiðafólk. Það er því fagnaðarefni að á stígnum í Elliðaárdal hafa skiltin sem hafa fengið viðurnefnið „hausasneiðarar“' verið fjarlægð og sett niður við hlið stígsins.

Í sumar hefur mikið verið unnið við lagfæringar á flágum gangstétta við gatnamót. Er það mikið framfaraskref og mun það nýtast fólki í hjólastólum, blindum, gamalmennum svo og byrjendum í hjólreiðum. Munið bara, þetta eru ekki hjólreiðastígar og því á hjólreiðafólk að víkja fyrir allri annari umferð eins og vanalega.

Í næsta tölublaði Hjólhestsins verður væntanlega ítarlegri umfjöllun um hjólreiða- og göngustíga og stöðu okkar hjólreiðafólks í íslensku samfélagi. 

Magnús Bergs

 

Fjallahjólamót

Í júlí var haldið hið árvissa fjallahjólamót í Skorradal. Heppnaðist þetta þriðja mót með ágætum þar sem veður var með eindæmum gott. Vert er að minnast barna allt niður í átta ára aldur sem hjóluðu 50 km leið frá Akranesi í Skorradal án þess að blása úr nös. Mætti margur illa haldinn kyrrsetumaðurinn taka sér þessi börn til fyrirmyndar og leika þetta eftir, þar sem við vitum að margir á besta aldri hafa átt í basli með þessa leið. Annars er það af mótinu að segja að þar var fámennt en góðmennt. Fengu sumir hjólreiðamenn bót meina hjóla sinna, skeggrætt var um heima og geima er varða hjólaferðir og búnað. Aðrir sigldu á gúmmíbát á vatninu en aðrir sóttust afslappaðir eftir brúnku og húðkrabba undir steikjandi sólargeislum. Við heimför fengu allir mótsgestir mótspening með inngröfnu mótsmerki. Skátabúðin styrkti mótið og sendum við þeirri frábæru verslun þúsund þakkir fyrir þann stuðning.   

Magnús Bergs

 

Gary Fisher

Um miðjan ágúst kom hingað guð almáttugur, sjálfur skapari fjallahjólanna og betra lífs. Þarna var um að ræða sjálfan Gary Fisher, en verslunin Örninn stóð fyrir því að hann staldraði hér við í fáeina daga er hann var að vísitera evrópumarkaðinn. Eftir að hafa hjólað hér um stund sagðist hann hafa jafnvel hug á því að koma hingað aftur. Er það því von allra hjólafíkla að af því verði sem allra allra fyrst. Þess má geta að hann lofaði að hefja aftur framleiðslu á breiðum dekkjum. 26"x2.6 sem eru ófáanleg í dag. Meira af því síðar.   

Jón Örn Bergs

 

Mótmælaaðgerðir

Snúum okkur að frétt sem birtist í Morgunblaðinu 8. ágúst 1996 og hljóðaði svo:
Óvininum sagt til syndanna. Hundruð andstæðinga blikkbeljunnar efndu til uppákomu í London í gær og ollu víða umferðaöngþveiti (sem er að staðaldri í London) með því að leggja undir sig lífæðar óvinarins. Þótti þó mörgum ekki á vandræðin bætandi því  starfsmenn neðanjarðarlestanna eru í verkfalli um þessar mundir. Hjólreiðafólkið krafðist þess að almenningssamgöngur í borginni yrðu bættar og fjárframlög til hjólreiðabrauta auknar. Þá vildi það fjölga hraðahindrunum og öðru, sem hægt gæti á umferðinni. Með þessari grein birtist mynd af hrífandi hjólreiðafólki sem hefur skoðanir á sínu málefni og áræðni til að láta þær í ljós. Það er nokkuð sem oft hefur vantað í lágdeyðu skoðanamyndana hér á landi, svo ekki sé minnst á BARÁTTUVILJANN. 

Magnús Bergs

 

Séð og heyrt - satt og logið

Í lok september var sagt frá því í fréttum, sem þykir nú ekki mikil frétt, að hjólreiðamaður hefði verið barinn í buff á Laugaveginum. En í sama fréttatíma var sagt af annari stórfrétt, að hollenskur ferðamaður hefði orðið fyrir árás fjögurra ofbeldisseggja með þeim afleiðingum að eftir grimmileg slagsmál var hann allt í senn, blóðugur, rifinn, slitinn, brotinn, vankaður og marinn… eða því sem næst, svoleiðis hljóðuðu fréttirnar. Eins og allir vita eru Hollendingar vanir sléttu landslagi og ekki síst sléttum göngu- og hjólastígum. Það fór því svo að þegar vesalings Hollendingurinn ætlaði að fá sér göngutúr niður að höfn frá miðbænum, að hann átti leið um Geirsgötu. Eins og allir vita eru séríslenskar gangstéttabrúnir á þessum slóðum, frá þeim tíma þegar borgin átti heilan helling af umframsteypu. Þar sem Hollendingurinn var á annarskonar menningarsvæði en hann hafði alist upp við, og ekki áttað sig á íslenskum staðháttum, skipti engum togum að hann hrapaði niður af gangstéttinni, alveg og alla leið niður á götu þar sem líklega var ekið yfir hann nokkrum sinnum. Við illan leik sagðist hami hafi klifið umferðaeyjuna á miðri leið en vegna svima hrapað niður hinumegin. Snemma um morguninn virðist hann hafa klifið gangstéttabrúnina við Miðbakkann og komist með bókstaflega yfirnáttúrulegum hætti í geymsluport við Faxaskála, þar sem hann sleikti sótið og sárin, frávita af hræðslu. Honum var svo bjargað með lögreglufylgd í sjúkrabíl til baka yfir Geirsgötuna, þegar líða tók á morguninn. Ástæðan fyrir röngum fréttaflutningi af gönguferð Hollendingsins kom síðar í ljós. Hún var sú að fréttaritarinn sem skildi aðeins fornsænsku og gat skrifað lítið eitt á íslensku, hélt að flæmskumælandi Hollendingurinn hefði spjallað við sig á þýsku, sem var svo í raun enska.

Magnús Bergs