Nú er sumarið liðið og vetur konungur að ganga í garð. Sumarið sem leið hefur verið nokkuð gott veðurfarslega séð og vonandi hefur hjólreiðafólk nýtt sér það í ferðalögum á reiðskjótum sínum. Fólk hefur að minnsta kosti notað hjólið í vinnuna því eins og í fyrra sumar þá hafa sjaldan sést svo margir hjólandi og nú. Til vitnis um það, þá í hvert skipti sem maður fór niður Laugaveginn, sem er bannaður allri hjólaumferð, þá sást til að minnsta kosti eins, ef ekki fleiri hjólreiðamanna. Það fer víst enginn eftir þessum „Bannað að hjóla“ skiltum á Laugavegi og hef ég tekið eftir því að lögreglan hefur látið hjólreiðafólk afskiptalaust hjóla á Laugavegi. Að vísu var ég stöðvaður á hjóli ásamt vini mínum á Laugavegi af lögreglunni. Lögreglubíllinn ók kurteisislega fyrir okkur og út sté lögreglumaður sem benti okkur á að við ættum hjóla með umferðinni niður Laugaveginn en ekki á móti umferð. Við vissum upp á okkur sökina, báðumst afsökunar og fórum aðra leið.

Síðasta vetur fengum við eins og allir vita göngu- og hjólreiðabrú yfir Kringlumýrarbraut í jólagjöf. Áttum við að fá aðra brú í jólagjöf þetta árið en hún kemur víst ekki fyrr en næsta vor. Byrjað var á framkvæmdum við göngu- og hjólreiðabrú yfir Miklubraut við Rauðgerði en fjárveitingar vantar til að ljúka verkinu. Við vonum bara að við fáum eina brú á hverju ári.

Hjólhesturinn hefur breyst mikið á undanförnu ári eins og lesendur hafa orðið vitni að. Ein breyting þætti ritnefndinni æskilegri en önnur, og væri það ef hin almenni félagsmaður ÍFHK skrifaði fleiri greinar eða ferðasögur í blaðið. Okkur hefur dottið í hug að efna til ferðasögusamkeppni með veglegum verðlaunum til að glæða áhugan að skrifa í blaðið. Ef það er áhugi fyrir slíku þá munum við halda slíka keppni í næsta blaði. Við í ritnefndinni vonumst nú með þessu að þið lesendur farið að skrifa meira í blaðið og gerið starf okkar léttara. Svo farið nú og byrjið að skrifa.

Því miður fór ég ekki í margar hjólreiðaferðir i sumar en mér tókst þó komast til „hjólreiðaparadísinnar“ Danmerkur. Ég fór til að heimsækja vin minn norðarlega á Jótlandi og ætlaði að hjóla til hans frá Köben. Ég var búinn að fá senda bæklinga og kort frá vini mínum sem útlistuðu hversu yndislegt væri nú að hjóla þarna og kortin sýndu fullt af hjólreiðastígum og meira segja hjólreiðaþjóðvegum (Nationale cykelrute).  Ég fann á kortunum hjólreiðaþjóðveg nr. 4 sem lá í þá átt sem ég ætlaði að fara. Síðan loksins þegar ég kemst til hjóladraumlandsins þá blasti aðeins raunveruleikin við, draumarnir hrundu. Jú, þarna var að vísu fullt af hjólreiðastígum meðfram helstu umferðagötunum og út um allar trissur. EN hjólreiðaþjóðvegur nr. 4 var í einhverjum feluleik. Ég var heillengi að leita að honum og spurðist mikið til vegar bæði á dönsku og ensku en fólk vissi bara ekkert hvar nr. 4 væri. Síðan eftir nokkra klukkutíma hjólreiðar í nokkuð rétta átt fann ég hinn blessaða hjólreiðaþjóðveg nr. 4. Draumarnir byrjuðu strax að rísa upp í huga mér en eftir hálftíma þá kom ég að gatnamótum þar sem hjóladraumalandið hvarf fyrir fullt og allt úr huga mínum. Á gatnamótunum gat ég valið um þrjár leiðir, til hægri, til vinstri og loks til baka, sem ég ætlaði ekki að fara. Það var ekki það að það vantaði skilti. Þarna var blátt skilti sem var merkt með rauðu merki að stígurinn væri nr. 4 og loks var hvít ör sem benti á að nr. 4 lægi til baka þaðan sem ég kom og svo var ekkert meira á skiltinu. Hvort lá hann áfram, til vinstri eða hægri? Svona var fyrsti dagurinn minn, ég leitaði lengi að stígnum, fann hann, tíndi honum, leitaði, fann hann, tíndi honum aftur, leitaði meira, og svo framvegis. Ég komst aðeins helminginn af leiðinni sem ég ætlaði mér fyrsta daginn.
 
Ég gafst síðan upp á hjólreiðaþjóðvegunum og gerði bara eins og ég geri upp á Fróni, og hjólaði meðfram bílaþjóðvegunum. Danirnir mega eiga það að þeir eiga mikið af góðum hjólreiðastígum en þeir eru bara svo illa merktir að þeir komu mér ekki miklum notum.

Munið að grasið er ekkert mikið grænna hinu megin, þegar við hjólum inn í veturinn, á nagladekkjunum og með ljósin á fullu í svörtu skammdeginu.

Gísli Jónsson
Birtist fyrst í Hjólhestinum 3. tlb. 5. árgang  okt. 1996