Nú þegar vorið er á næsta leyti og ferðahugur kominn í marga er mál að hlúa að þarfasta þjóninum. Reiðhjólið hefur eflaust fengið að liggja inni við í vetur hjá mörgum og er það ver, en þó skiljanlegt að mörgu leyti. Hin margbrotna íslenska veðrátta hrekur margan góðborgarann frá hjólreiðum yfir erfiðustu vetrarmánuðina. Oft er mokstri áfátt á "hjólastígum" og göturnar eru eins og íslensk útgáfa af rússneskri rúllettu með bílum í stað kúlunnar. Sá vetur sem er að líða hefur að vísu verið afspyrnu snjóléttur og hjólreiðafólki því einkar hagstæður.

Vegna þessarar einmunatíðar sem ríkt hefur að undanförnu hefur margur brugðið undir sig betra hjólinu og skotist í vinnu eða skóla. Skilið bílinn eftir heima -og bara lifað það af. Að vísu hefur það verið ein af stóru spurningunum í lífinu, hvers vegna fleiri hjól sjáist ekki á götum úti því salan hefur aukist gríðarlega milli ára. Framboð á reiðhjólategundum og fatnaði ýmis konar hefur einnig stóraukist og verð er orðið nokkuð gott á reiðhjólum. svona almennt séð.

Hvað sem öðru líður er alltaf til það fólk sem lítur á hjólreiðar sem lífsstíl og sjálfsagt samgöngutæki. Sumir hjóla allan ársins hring og fer þeim fjölgandi sem er hið besta mál. Eitt er það þó sem kemur alltaf upp aftur og aftur og það eru samskipti hjólreiðamanna og ökumanna. Alltof oft les maður í blöðunum kvartanir og kveinstafi í garð hjólreiðafólks. Sumt er réttlætanlegt, en annað er hreint bull og ekki svaravert. Sem minnihlutahópur eigum við á brattann að sækja. Við verðum að sýna gott fordæmi og tillitssemi í umferðinni án þess þó að láta traðka á rétti okkar. En réttur ljósabúnaður, hjálmur og tillitssemi er eitthvað sem allir ættu að brúka í umferðinni allt árið.

Margt bendir nú til þess að almenningur sé að vakna upp úr dásvefni koltvísýringseitrunar og sé að dusta af sér mengunarskýið.

Nú er að koma sterklega fram sá skilningur manna að hjólreiðar séu ekki bara holl hreyfing, heldur og líka nauðsynlegur þáttur til betra umhverfis og minnkandi mengunar. Því beri að hlúa að þessum ferðamáta með auknum framkvæmdum og eftirliti mannvirkja. Annars játa ég það fúslega að ég hjóla nær eingöngu á götunum, einkum vegna þess að hjólreiðastígar eru hvergi nálægir og göngustígar eru jú ætlaðir gangandi fólki. Svo er þetta nú líka spurningin um vanann. Ég held að ég sé orðinn svolítið háður því að láta svína á mig, ausa yfir mig fúlu vatni og slabbi og láta öskra á mig og flauta. Þetta verður svona heimilislegt með tímanum. Heldur hefur þetta þó skánað með tímanum, heimiliserjunum fer fækkandi. Mun færri geðillir bílstjórar hrella okkur í dag en fyrir fáum árum síðan þó enn megi finna þá. Ekki megum við þó fría okkur ábyrgð á tillitsleysinu í umferðinni. Við eigum okkar svörtu sauði eins og allir aðrir hópar og það þarf að laga.

Í síðasta Hjólhesti var sú nýbreytni tekin upp að láta offsetprenta blaðið sem þýðir margfalt betri prentgæði en áður gerðist hjá oss. Nú getum við farið að nota ljósmyndir og eykur þetta fjölbreytni blaðsins til muna auk þess sem uppsetningin hefur að ég tel, batnað um allan helming. Ég hef verið í ritnefnd Hjólhestsins frá upphafi og orðið vitni að mörgum breytingum þótt árin séu aðeins fimm. Sú nýbreytni að prenta Hjólhestinn og hafa ljósmyndir er örugglega merkasta framfaraskrefið sem ritnefnd hefur stigið. Efnistök blaðsins hafa ætíð verið svolítill hausverkur hjá ritnefnd Hjólhestsins: Hvar eiga áherslurnar að vera? Á að hafa fasta dálka?

Á ritnefnd virkilega að þurfa að skrifa allt sjálf? O.s.frv. Um efnistök og uppsetningu blaðsins má nú alltaf deila (og það er gert annað slagið). Það verður seint hægt að fullnægja þörfum allra, síst í einu blaði. Allt efni, hugmyndir að efni og gagnrýni er vel þegið sem endranær, skemmtilegar ljósmyndir eru einnig vel þegnar og þeir sem vilja skrifa í blaðið væru öðlingar ef efnið væri á disklingi eða sent í gegnum internetið (e-mail: gislij@,rhi.hi.is). Eitt er það samt sem er frekar hvimleitt og kemur fyrir aftur og aftur og það eru stafsetningar- og prentvillur í tugatali. Við höfum heyrt því fleygt að Hjólhesturinn sé notaður sem kennslugagn hjá íslenskunemum við H.í. undir yfirskriftinni: „Sjaldan hafa jafnmargar villur fundist í jafnlitlu blaði á jafnskömmum tíma og þessu“. Er ekki einhver þarna úti sem kann íslensku og vill prófarkalesa ósköpin? Það er nauðsynlegt að vanda sem mest til verka þegar allt annað í blaðinu er orðið þetta gott sem ég tel það vera og þúsund eintökum er dreift í allar áttir.

Í blaðinu verða að venju fróðleiksmolar, skemmtiefni og sögur við allra hæfi sem nýtast má til næsta blaðs. Ómögulegt er að segja til um hvenær næsti Hjólhestur kemur út en það verður vonandi í ágúst.

Smyrjum nú keðjurnar og látum hjólin snúast. Drífum okkur út á göturnar og sýnum í verki að hjólreiðar eru sjálfsagðar samgöngur og íþrótt sem hentar öllum - alls staðar.

Gleðilegt sumar og gleymið svo ekki ferðunum.

Jón Örn Bergs.