Gleðilegt ár gott fólk!
Það má með sanni segja að það sem af er þessu ári hafi verið okkur hjólafólki í vil. Færðin öll með liprasta móti þó að örlitla snjóföl hafi fest á götum fyrir nokkru, stóð það stutt yfir. Á tíðum hefur verið hálfgerð hitamolla, þá er bara að fækka fötum. skella sér í sumarskónna og hækka í útvarpinu svo maður heyri ekki eins hvininn í nagladekkjunum þegar þau snúast um auðar götur borgarinnar. Bitnar þetta ástand á beim sem vilja snjóinn til að geta stundað vetrarsportin. en það er nú yfirleitt ekki á allt kosið í þessum efnum frekar en öðrum og sjaldan hef ég nú vitað alla ánægða með sitt hlutskipti. Þó er nú svo að í fjöllunum hefur fest þó nokkurn snjó þannig að hægt er að stunda skíða og snjóbrettaiðkun sem er feyki gott sport með hjólaíþróttinni.

Góðar viðtökur

Nú er að líta dagsins ljós fyrsta tölublað Hjólhestsins þetta árið, og það annað sem ritnefnd þessi stýrir. Erum við nokkuð ánægð með þær viðtökur sem síðasta blað hlaut, var það mál manna að það hafi verið þétt og gott og vonumst við til, og ætlum að gera okkar besta til að þetta verði ekki síðra. Það er ætlun okkar að reyna að hafa efni blaðsins sem fjölbreyttast svo sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi, verður um að ræða þýtt og endursagt efni með ferðasögum og ýmsum ævintýrum, gríni og glensi í bland.

Með blaðinu fylgir svo að þessu sinni atburðaalmanak klúbbsins, þó ekki nema fram á vorið því ekki eru allir atburðir fastsettir enn. Hvað um það fólk getur farið að leggjast yfir almanakið og vonandi finna flestir eitthvað við sitt hæfi. Mæli ég eindregið með því að þeir sem ganga með ferðabakteríuna í maganum en hafa ekki stigið skrefið til fulls að vera ekki feimin við að hafa samband og láta drauma sína rætast. Þar fyrir utan hvet ég fólk líka til að láta í ljós álit sitt á efni blaðsis og koma með ábendingar um efni og munum við reyna eftir fremsta megni að verða við óskum, svo ekki sé nú talað um ef fólk vill koma á framfæri efni frá sjálfu sér.

Nýja göngubrúin

Eins og flestum er kunnugt var nýja göngu- og hjólreiðabrúin yfir Kringlumýrarbraut vígð sömu helgi og síðasta blað kom út. Var þetta frábær jólagjöf, ekki bara fyrir okkur hjólreiðafólk heldur alla þá er njóta útivistar í hvaða formi sem það nú er. Var vel mætt úr okkar röðum á vígsluathöfnina sem virtist nú frekar illa skipulögð og laus í reipunum, en það kom ekki að sök, brúin er jafn góð fyrir það. Er mér sagt af þeim sem þurfa að nota brúnna mikið að það sé alveg ótrúleg umferð hjólandi. gangandi og skokkandi fólks á nánast öllum tímum sólarhrings og sýnir það best þörfina fyrir slík mannvirki innan borgarinnar á tímum heilbrigðari lífshátta. Ég get nú ekki látið hjá líða að deila raunum mínum með ykkur kæru lesendur.

Þannig er í pottinn búið hjá mér þessa dagana að reiðskjóti minn er læstur inní geymslu og verður að dúsa þar um óákveðinn tíma. Forsaga þessarar ógæfu minnar er sú að ég varð fyrir áverka við skíðaiðkun í minni annari skíðaferð þessa vetrar og þar af leiðandi þeirri síðustu.

Mér er því sárt að tjá þeim fjölmörgu lesendum Hjólhestins sem hugðu á skíðanám hjá mér í vetur, að þeir verða að bíta í það súra epli með mér að bíða til næsla vetrar en þá hef ég vonandi fengið viðgerð og mæti tvíefld til leiks. Staða samgöngumála hjá mér þessa dagana er því skelfileg! Ég er háð því að hafa 120 kr. í smámynt til reiðu á fyrirfram ákveðnum líma á fyrirfram ákveðnum stað hvern einasta morgun og deila 20-25 mín. með gráguggnum nágrönnum mínum í gulu risastóru blikkskrímsli af gerðinni Volvo.

Löng bið

Ekki get ég nú í eymd minni séð marga kosti við þennan farkost. Þetta einfaldlega hentar mér ekki sérlega vel, ýmist er ég alltof snemma, stend stappandi og bíð eins og hinir alltof lengi, eða er of sein og hökti hálf farlama bölvandi af stað og vonast til að ná helv. vagninum eða hef ekki handbærar 120 kr. í smámynt. Ég reyni að nurla saman eins miklu og hægt er og blanda það með útlendri mynt sem virðist vera óendanlega mikið til af á mínu heimili þó ekki sé ég nú neitt sérlega sigld manneskja. Hljóta gjaldeyristekjur SVR að hafa margfaldast á sl. dögum. spurning hvort árshátíðin þar á bæ verði haldin erlendis. Þið hljótið að vera mér sammála að þetta er mjög þungt böl sem á mig hefur verið lagt. Svo þegar ég loks hef náð mér niður andlega eftir að hafa bölsótast yfir þessum hönnungum þá er ég orðin svo löt og andlaus begar vagninn loks rennir að þeirri stoppistöð sem ég fer út á að ég nenni varla út og er góðan hálftíma að tjúna mig upp aftur.

Einn kost hefur þetta ástand þó, það er að þarna hef ég þó þennan tíma þar sem ég er innilokuð í þessu gula ferlíki til að spjalla við dóttur mína. Hún rembdist eins og rjúpan við staurinn fyrstu dagana að sannfæra þrjóskubelginn hana móður sína um að þetta væri þarfasti þjónninn eftir að menn hættu að nota hesta, en hefur nú séð að sér og reynir að halda uppi léttum samræðum til að halda okkur mæðgum a.m.k. vakandi svo við komumst út á réttum stað. Getur verið að þetta venjist? Það vona ég ekki. Ég vona bara að ég nái aftur fullri heilsu sem fyrst og fái að njóta þeirra forréttinda að fara frjáls minna ferða á mínu "fjallahjóli" fram í rauðan dauðann og geti byrjað daginn með lungun full af íslensku súrefni.

Þakka ég nú ykkur lesendur fyrir að fá að deila þessum raunum mínum með ykkur og vona að þið njótið efni blaðsins og vil ég svo að lokum minna ykkur á að það eru alllaf fundir fyrsta og þriðja þriðjudagskvöld hvers mánaðar í Þróttheimum kl. 20:00. Lifið heil, (svo þið þurfið ekki í strætó).

Guðbjörg Halldórsdóttir
Birtist fyrst í Hjólhestinum 1. tlb. 5. árg. 1996