Þann 23. nóvember síðastliðinn markaði hjólahreyfíngin sér tímamót. Haldinn var stofnfundur að heildarsamtökum fyrir hjólreiðamenn á Íslandi sem 80 manns sóttu. Samtökin eru stofnuð til þess að styðja við bakið á þeim hjólafélögum sem fyrir eru og hvetja til stofnunar nýrra félaga sem öll hafa það sameiginlega markmið: að efla hjólreiðar á Íslandi.

Í því tilefni fékk undirbúningsnefnd fyrirlesara til að fjalla nokkra þætti hjólreiða á Íslandi og svo hjólreiðar í nágrannalöndum okkar. Mikla athygli vakt nærvera og svo framlag Thomasar Krag á fundinum. Hann kom til landsins í boði samtakanna, annars vegar sem framkvæmdastjóri Den Dansk Cyclist Forbund, DCF, og hins vegar sem formaður European Cyclists Federation, ECF.

Meðan hann var hér þá átti hann fund ásamt Óskari Dýrmundi Ólafssyni frá undirbúningsnefnd með ýmsum aðilum sem hafa unnið að málefnum hjólreiðamanna. Voru fundir haldnir með Borgarskipulagi, Umferðaráði, Sigurði Magnússyni framkvæmdastjóra Íþróttasambands Íslands, ÍSÍ, og Svavari Gestssyni alþingismanni en hann hefur lagt fram frumvarp um grundvallarbreytingar á vegalögum þar sem gert yrði ráð fyrir hjólandi umferð.

Jafnframt þessari viðkynningu hjólaði Thomas um alla Reykjavík og upp í Bláfjöll með Magnúsi Bergssyni ofl. þannig að hann fékk góða kynningu á aðstöðu hér fyrir hjólreiðamenn. Jafnframt þessari kynningu benti hann á ýmislegt sem betur mætti fara og þá með tilvísun til Danmerkur. Kvaddi Thomas okkur með þeirri ósk að með þessum nýju samtökum komist Ísland á kortið í hinni öflugu evrópsku hjólahreyfingu, ECF.

Á stofnfundi samtakanna var stungið upp á grind að stjórn sem fengi það hlutverk að móta lög og svo ramma þeirra. Þeir einstaklingar sem stungið var upp á voru: Björn Finnsson,  Guðbjörg Halldórsdóttir, Gunnlaugur Grettisson, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Pálmar Kristmundsson. Skammstöfunin LÍHM þýðir Landssamtök íslenskra hjólreiðamanna og er einungis vinnuheiti þar til tillaga að betra nafni birtist.

 

0405-lihm-500.png

 

Hvað varðar skipulag og hlutverk samtaka sem þessara þá hafa ýmsar hugmyndir verið ræddar. Með þær  staðreyndir í huga að undanfarin 6 ár þá hafa selst 90.000 reiðhjól á Íslandi með tilheyrandi skatttekjum hins Opinbera, að áberandi er hve áhugi á notkun reiðhjólsins hefur aukist og að umbætur á aðstöðu fyrir hjólreiðar ýta undir enn frekari notkun þá er þörf á öflugra skipulagi fyrir hjólreiðar á Íslandi.

Mikill áhugi hefur verið fyrir því að koma upp skipulagi fyrir hjólreiðar sem keppnisíþrótt og þá innan ÍSÍ. Enn fremur er hlutverk reiðhjólsins sem almenningsíþrótt stöðugt að styrkjast. Vegna þessa áhuga verða LÍHM aðildarfélagar að Íþróttir Fyrir Alla sem veitir hjólaíþróttinni beina aðild að ÍSÍ. Önnur sjónarmið eru einnig mjög ríkjandi og er þá helst að nefna baráttuna fyrir því að reiðhjólið verði viðurkennt sem alvöruvalkostur í umferðarskipulagi okkar samfélags. Þörf er á virkri fræðslu þar sem fólki er leiðbeint um hvernig best er að bera sig að við hjólreiðarnar, hvort sem um tækniatriði, öryggismál eða þjálfunarfræði er að ræða. Er þá verið að ræða

um útgáfu fréttablaðs og sjálfstæðra rita. En ofangreindar hugmyndir eru ekki mótaðar og verða þær ásamt öllum öðrum bornar undir félagsmenn á næsta fundi sem væntanlega verður boðaður snemma á komandi ári.

Á stofnfundinum kom fram að öflugur stuðningur er við þessi nýju samtök og ekki er verra að heyra þær fréttir að allar hjólaverslanir Reykjavíkur utan ein hafa gefið vilyrði fyrir öflugum stuðningi. Meðal hugmynda sem þar hafa verið reifaðar er hvernig skráning nýrra fría aðild að LÍHM þar sem verslunin borgi félagsgjaldið fyrir viðkomandi. Miðað við að á Íslandi seljast að meðaltali 15.000 hjól á ári þá gæti þetta þýtt að hjólreiðar á Íslandi eigi eftir að styrkja stöðu sína verulega innan skipulagðra heildarsamtaka.

Næsti fundur samtakanna verður auglýstur síðar en þangað til þá vil ég viðhafa fleyg orð í nýjum búningi sem ég heyrði Skúla G. Johnsen héraðslækni fara með í fyrirlestri og á ágætlega við hjólreiðarnar „Hver er sinnar heilsu smiður“.

Fyrir hönd bráðabirgðastjórnar,
Óskar Dýrmundur Ólafsson.