Hafa ekki allir upplifað þá makalausu tilfinningu sem hríslast um skrokkinn við að anda að sér hreinu lofti úti í náttúrunni. Ilmur skóga, lyktin í fjörunni eða bara ilmurinn af mold og gróðri. Það er ákveðið "kikk" að rápa um sveitir, labbandi eða hjólandi og anda að sér ilmi náttúrunnar. Það hressir, styrkir og bætir geð. En hversvegna? Er það lyktin? Er meira súrefni úti í náttúrunni? Er það rakinn? Eða er það bara ímyndun að sveitaloftið sé eitthvað betra en þurrt og fúlt inniloft eða mengað borgarloft? Varla. Loftið utanhúss er hreinna en inniloftið, þá sérstaklega utan bæjar eða í úthverfum. En það er annað sem er öðruvísi. Fyrirbæri sem hefur undanfarin ár vakið æ meiri athygli fræðinga og áhugamanna.

Eftir margra ára kerfisbundnar rannsóknir lá niðurstaðan fyrir. Orsökin var breyting á loftslagi, ekki raka eða ryki eins og margir höfðu haldið heldur rafhlöðnum ögnum í loftinu. Loftið í kring um okkur er blanda af lofttegundum, vatni og ryki. Sum loftmólekúl hafa rafhleðslu, þ.e. eina eða fleiri auka rafeindir eða það vantar rafeind og kallast því "jón". Frekari rannsóknir leiddu í ljós að venjulegt loftslag sveita inniheldur áhveðið hlutfall rafhlaðinna plús- og mínus-einda, eða jóna. Fjöldi og hlutfall hlaðinna agna skiptir máli. Jafnvægið virtist þurfa að vera ca. 3000 mínus jónir á móti 4000 plús jónum í rúmsentimeter.

Þegar hinn illræmdi "Sharav" vindur blés riðlaðist jafnvægi plús- og mínus-jóna verulega. Mínus-jónir féllu niður í örfáar en plús-jónum fjölgaði upp úr öllu valdi. Niðurstöður þessara rannsókna vöktu töluverða athygli víða um heim og kom í ljós að þetta fyrirbæri þektist víðar. "Mistral" vindurinn í Frakklandi, "Foehn" vindurinn í Sviss og "Santa Ana" vindurinn í Californiu báru með sér nákvæmlega sömu áhrif. Svissneska veðurfræðistofnunin fann sig meira að segja knúna til að aðvara almenning um hugsanleg neikvæð áhrif Mistral vindsins sem gátu verið hausverkur, þunglyndi, pirringur í öndunarfærum, kröftugar geðsveiflur og fleira. Framhaldsrannsóknir framkvæmdar víða um heim leiddu í ljós að þetta jafnvægi plús og mínus-jóna er mjög tæpt inni í borgum þar sem umferð er mikil og inni á skrifstofum var það afleitt. Þetta réðist af þeirri staðreynd að mengun frá útblæstri bifreiða eyðir mínus-jónum úr andrúmsloftinu. Sömu áhrif hefur ryk, tóbaksreykur, verksmiðjureykur og hverskonar mengun sem maðurinn hefur komið í kring, sjálfum sér til "þæginda".

Nákvæmar rannsóknir sýndu fram á það að mínus-jónir voru mikilvægar heilsu manna en ekki plús-jónir. Magn plús-jóna virðist ekki skipta máli nema sem hlutfall af mínusjónum. Rannsóknir hafa sýnt að í skógum, við fossa og við ströndina er hlutfallið á þann veg að mínus-jónir eru í miklum meirihluta. Við heilsulindir í Frakklandi mældust 100.000 mínus-jónir í rúmsentimeter en gott þykir að hafa 3- 4000 jónir á rúmsentimeter í hlutfallinu 3:4. Það er því ekki della þegar fólk finnur fyrir betri líðan úti í náttúrunni. Það er ekki bara lyktin heldur jafnvægi plús- og mínus-jóna sem ræður. Rannsóknir rússneskra vísindamanna hafa sýnt að íþróttamenn bæta árangur sinn ef þeir æfa þar sem loftið er ríkt af mínus-jónum. Sama gerist með námsmenn, árangur í námi er meiri, athyglin er skarpari. Í Bandaríkjunum hafa nokkrir læknar mælt með notkun mínus-jóna í stað gleðilyfja eins og prosac. Mínus-jónir hafa jákvæð áhrif á magn hormónsins serotoin í líkamanum en röskun á því getur m.a. leitt til þunglyndis. Kenningar hafa verið settar fram um að mikil öndun í vistarverum þar sem hlutfall plús-jóna er hátt geti framkallað sinduráhrif í líkamanum.

Inni í bifreiðum getur hlutfall jóna raskast verulega. Það getur farið eftir einföldum hlutum eins og hvaða bón er notað hvort hlutfallið er óhagstætt eða mjög óhagstætt . Það stafar af því að bíll á ferð myndar núningsmótstöðu við loft sem aftur veldur upphleðslu stöðurafmagns utan á bílnum. Stöðurafmagn hrindir frá sér, eða dregur að sér andstætt hlaðnar agnir og því getur hlutfall hlaðinna agna inni í bílnum raskast. Flestir reiðhjólagarpar kannast við önuga bílstjóra sem af minnsta tilefni þeyta hornin á hjólreiðamenn. Það virðist oft tilefnislaus pirringur en ofmettað loft af plús-jónum er kannski ástæðan.

Í húsnæði þar sem loftræstikerfi eru og ekki er hægt að loftræsta með opnum gluggum, er hlutfall mínus- og plús-jóna yfirleitt með óhagstæðasta móti. Það er þekkt að loftræsti-stokkar og blásaraviftur hreinlega gleypa í sig mínus-jónir. Lofti sem kemur um loftræstistokka er því heldur dauft og það litla sem er eftir er af mínus-jónum hverfur fljótt. Þetta á sinn þátt í svokallaðri húsasótt. Jónir í andrúmsloftinu eru mjög óstöðugar og því eyðast þær hratt ef ekki er stöðug endurnýjun. Jónir í náttúrunni myndast fyrir tilstuðlan sólar, náttúrulegrar geislavirkni og þar sem vatn sundrast, t.d. í fjöruborði eða við fossa eins og áður var getið.

Það virðist því liggja beint við að einstaklingar sem vinna innivið þurfi að verja tíma úti og anda að sér fersku lofti. Flestir fara bara út í sinn bíl og keyra heim. Það eru fjölmargir sem sárasjaldan anda að sér útilofti í lengri tíma en tíu mínútur samanlagt yfir daginn. Þegar vinnustaður er yfirgefinn er farið beint út í bíl, úr bílnum og inn í búð og þaðan út í bíl og inn á heimili. Ekki langur tími sem varið er úti. Miðað við rannsóknir á áhrifum "Sharav" vindsins má draga þá ályktun að þetta ýti undir hverskyns vanlíðan og kvilla. Það má nefna t.d. höfuðverki, rannsóknir í Bretlandi hafa bent til þess að mínus-jónir hafi góð áhrif á migreni. Svo má nefna geðið. Þunglyndi, áhyggjur, pirringur og andleg vanlíðan almennt mæti rekja til skorts á útilofti. Þið munið; pirraðir bílstjórar. Og hvað segir þetta okkur? Jú það er hollt og gott að vera útivið, stunda sína líkamsrækt utandyra frekar en innandyra ef það er hægt. Það kannast sennilega allir hjólreiðamenn við tilfinninguna að vera "ómögulegur" af því að hafa ekki farið út að hjóla. Má ekki draga þá ályktun að menn þurfi skammtinn sinn af mínus-jónum.

Það er ekki spurning í huga undirritaðs að hjólreiðar sameina líkamsrækt og útiveru. Að gera það að lífsstíl að hjóla í vinnu eða ganga er nokkuð sem launar sig ríkulega þegar til lengri tíma er litið. Svo má ekki gleyma menguninni. Það er nauðsynlegt fyrir nútímanninn að taka tillit til náttúrunnar því jarðarbúar eru á góðri leið með að drukkna í eigin skít sökum tómlætis. Hjólreiðar hafa líka fleiri hliðar. Svokallað "spinnining" er nú nýjasta æðið. Að "spinna" úti í náttúrunni ætti að vera mun hollara en inni í sal með tug af svitnandi skrokkum í kring um sig. Nær væri að skreppa á fáfarinn göngustíg í Heiðmörk með vasadiskóið. Hvaða leið sem er valin er það víst að öll hreyfing er betri en engin og að hreyfa sig úti undir berum himni er betri en innivið.

Valdemar Gisli Valdemarsson.

© Hjólhesturinn 2. tlb. 6.árg. Maí 1997.