Nýlega fengum við ábendingu um að það sé ekki rétt að segja "nýtt á nafinu" eins og gert hefur verið í fréttabréfi klúbbsins í mörg ár og hér á heimasíðunni frá upphafi, eða að tala um naf yfir höfuð.  Ekki vildi ég nú trúa því í fyrstu en við nánari eftirgrenslan var þetta staðfest af faðir Magnúsar Bergssonar sem ku vera með fróðari mönnum í íslensku málfari. Hann skrifaði:

Þetta er alveg rétt, sem Ingi Þór Einarsson segir, og hann á hrós skilið.   Ég er búinn að lesa röngu fyrirsögnina í mörg ár og hef aldrei hnotið um hana, kannski vegna þess, að orðið naf er svo líkt Norðurlandamálunum. 

Rétta heitið á stykkinu í miðju hjóls, sem öxull gengur í gegnum, er nöf, er í eignarfalli nafar og í nefnifalli fleirtölu nafir.  Það beygist sem sé eins og orðin döf, gröf, töf, nös, dvöl o.fl.  Það er ekkert á móti því, að tala um nýtt á nöfinni, sem er rétt mál og ætti ekki að þurfa að láta ímyndaða "málfarslögreglu" fyrirskipa, heldur aðeins máltilfinningu manna og málþekkingu.  Ég er því algjörlega ósammála Páli Guðjónssyni í skrifum hans um málið, og því, sem hann kallar "gamalt grín".  Þetta voru mistök, sem Ingi Þór á heiðurinn af að hafa bent á. 

Mér finnst sjálfsagt að þið bætið fyrirsögnina í blaðinu og kallið fréttagreinina Nýtt á nöfinni um leið og þið leiðréttið leiðan misskilning, sem búinn er að vera í blaðinu svo lengi.  Útskýrið málið og hjólreiðamenn og aðrir lesendur blaðsins taka eftir leiðréttingunni og fara hugsanlega að temja sér rétta notkun heitisins nöf.  Þá fara menn að tala um nöfina, leita að nöfinni í verslunum og hætta að vera hræddir við "nýja" heiti nafarinnar.  Nafir verða að eðlilegu heiti fyrirbærisins, og menn líta smám saman á nafir í réttu ljósi í viðgerðum sínum á nöfunum, einkum ef seljendur nafanna fást til að nota rétt heiti þeirra.  

Þarna er ég búinn að búa til setningar með orðinu nöf í öllum föllum eintölu og fleirtölu, ýmist með eða án greinis.  Það vefst ekki fyrir neinum, að beygja orðið töf, og orðið nöf beygist eins.

Þið, aðstandendur Hjólhestsins, yrðuð menn að meiri, ef þið leiðréttið þenna gamla og langlífa misskilning og reynið allt til að koma rétta orðinu inn í mál manna.

Gangi ykkur vel

 

Hann Ingi sem benti fyrst á þetta á að sjálfsögðu hrós skilið ábendinguna.  En Bergur hefur eitthvað misskilið þetta með gamla grínið en þær fyrirsagnir sem notaðar hafa verið í Hjólhestinum undanfarin ár voru einmitt upphaflega grín: Pistill ritnefndar hét Ristillinn og svo framvegis.

Ekki leist mér á að breyta öllum fyrirsögnum í  "nýtt á nöfinni" þar sem ég held að það skyljist illa, heldur ákvað ég að nota gagnsærra mál og tala um það sem er "á döfinni" og vona að það særi ekki máltilfinningu ykkar.  Nöf er hinsvegar orð sem ég þarf eitthvað að venjast - eða ekki.  Kannski samþykkja íslensku menn orðið naf sem er í almennri notkun allra hjólreiðamanna, hvað sem Orðabókin segir.  Nýlega heyrði ég að þeir væru farnir að sætta sig við orð eins og talva stað tölva, enda borin von að íslendingar þóknist sérfræðingunum.

Ég fór yfir vefinn og verð að segja að þegar kom að því að tala um "nöfrafal" var máltilfinningu  og málþekkingu minni misboðið og ég lét eiga sig að breyta þessu.  Viðkomandi greinarhöfundur getur þó breitt þessu ef hann vill. Ég held að ég kysi eitthvað allt annað og betra nafn á fyrirbærið.

Þetta eru nú bara mínar persónulegu hugleiðingar og þessum ábendingum hefur verið komið á framfæri hér og við prófaralesara ritnefndarinnar.  Hvað gerist með yfirskriftir pistla í fréttabréfi klúbbsins, Hjólhestinum, veit ég ekki því það ætlar nýtt fólk að taka við uppsetningunni á honum og stokka henni upp og stefna á að bæta útlitið og prentgæðin.

Páll Guðjónsson. 
21 des. 1999.

© ÍFHK