Félagslíkaminn er nú á hröðu vaxtaskeiði unglingssins og má segja að þar springi margt út. Félögum fjölgar, ferðir blómstra, viðgerðaraðstaðan með öllum góðu verkfærunum laðar að sér félagsmenn til umhirðu hjólanna. Nýstækkuð setustofan býður sífellt fleiri velkomna í hlýlegan faðm sinn með umræðum, kaffisopa, myndum, myndböndum, frásögnum, leiðbeiningum, blöðum og skipulagi lífs og ferða.

   Klæðnaður félagslíkamans er að taka miklum breytingum um þessar mundir með nýju þaki og múrviðgerðum. Síðan mun málning sem HARPA styrkti okkur með setja fagran svip á þetta aldna hús.
   Margir félagar hafa lagt fram ómælda vinnu til að félagslíkaminn geti þroskast og vaxið enn frekar. Þeir eru að byggja upp framtíð hraustrar hjólaþjóðar. Hvort heldur menn hafi lagt til hug eða hendur við félagsheimilið eða félagssálina hafa þeir styrkt félag okkar, lífs-máta og framtíðarsýn. Margt gott hefur verið gert, en betur má ef duga skal.
   Samgöngumöguleikar á höfuðborgarsvæðinu er víða í þokkalegu lagi og batna er skilningur eykst. Aðstaða til geymslu nútíma reiðhjóls með léttum stellum og álgjörðum á hins vegar langt í land. Þegar fyrirtæki og stofnanir vilja koma upp traustum, öruggum og fallegum hjólastæðum starfsmanna og viðskiptavina, munu þau sjá hraustara fólk og lífsglaðara. Hönnuðir bygginga mættu gjarnan horfa til þessa samgöngumáta þegar byggingar eru hannaðar. Auðvitað eigum við mörg ár til bóta fyrir aðstöðu hjólreiða fyrir samfélagið. Við munum halda ótrauð áfram við framgang málefna hjólreiða á Íslandi bæði til gagns og gamans. Ég vil þakka þeim sem lagt hafa lið verkefnum og ferðum með þátttöku sinni.
   Kvöldferðirnar á hjólum sem ég og Jakob höfum haft umsjón með hafa verið mjög ánægjulegar og margir nýir þátttakendur mætt þar til leiks. En nú vetrar og vil ég hvetja ykkur til að búa hjólin ljósum og nagladekkjum jafnframt því að taka fram vetrarklæðnaðinn svo framundan verði ánægjulegur hjólavetur.

   Velkomin á vetrarslóð,
   vegferð hjólamanna.
   Rík af sælu, andlitsrjóð
   eftir hjólreið sanna.

   Björn Finnsson.

 

© ÍFHK Okt.2000