Rétt eftir Verslunnarmannahelgina nánar tiltekið fimmtudaginn 5. ágúst var haldinn stofnfundur norðurlandsdeildar ÍFHK í Kompaníinu og mætti þar fólk af báðum kynum og á öllum aldri. Var þetta ekki heðbundinn fundur heldur frekar umræðufundur og reyndi ég að miðla af reynslu okkar sunnanfólks og segja aðeins frá starfseminni í Reykjavík og einnig frá félaginu sem er 10 ára á þessu ári. Norðanfólk hafði frá ýmsu skemmtilegu að segja og komu upp margar hugmyndir bæði varðandi félagsstarfið og ferðir sem hægt væri að fara.


Var mikill hugur í fólki að hafa reglulega fundi og jafnvel að leita fyrir sér með að komast í skúr eða aðra aðstöðu til viðgerða og lofaði ég því að þau félagsgjöld sem berast af svæðinu fari alfarið í að byggja upp þessa aðstöðu og kaupa blöð og verkfæri sem reyndar eru mjög dýr.

Ég sá auglýsinguna frá Gústa þar sem að hann var að huga að stofnun deildar á Akureyri og tók eftir því að hann hvatti fólk til að ganga í ÍFHK eða bara í norðurlandsdeildina og það væri ókeypis í hana en það er svo með alla starfsemi sérstaklega hjá litlum félögum að félögin þurfa peninga og hvet ég því alla til að skrá sig í klúbbinn því að þið njótið góðs af þeim peningum í formi blaðakaupa og verkfæra. Við höfum haft viðgerðaraðstöðuna eingöngu fyrir klúbbmeðlimi en það eru allir velkomnir í ferðir með okkur.

Það var líka vilji fyrir því að fá einhvern til að halda viðgerðarnámskeið fyrir norðanfólk og er það ekkert mál en spurning hvort að það bíður aðeins eftir að starfseminn komist af stað og einhver viðgerðaraðstaða finnist á Akureyri.

Aðal driffjöðrin á Akureyri er Ágúst Örn Pálsson í Petro ljósmyndum sem hefur látið verða af því sem margir hafa verið að hugsa um, sameining hjólafólks á Akureyri og er það frábært framtak hjá Gústa eins og hann er kallaður. Gústi hefur hugsað sér að finna einhver til að halda utan um starfsemina fyrir norðan og er bara vonandi að einhver drífandi persóna fáist í það verk og að allir hjálpist að við að gera norðurlandsdeildina eins og þið viljið hafa hana.

Ég sagði frá skemmtilegum þætti í starfseminni hér fyrir sunnan sem eru kvöldferðir Bjössa Finns og félaga og er þá mætt við SVR í mjódd kl 20 á þriðjudagskvöldum og hjólaður einhver hringur sem hann hefur ákveðið. Getur fólk bæði komið inn í hringinn og farið úr honum að vild þar sem að því hentar. Þetta leist norðanfólki mjög vel á og vantar bara einhvern til að sjá um slíkar ferðir og auglýsa einhvern tíma og stað til að fara frá. Eitthvað heyrðist að Mullertsmenn gerðu þetta og væri þá reynandi að fá að fjölga í hópnum hjá þeim?

Ég reyndi að fá Guðmund frá Akureyrarbæ til að mæta en því miður var hann að fara annað en ég hafði mikinn áhuga á að heyra hvað bæjaryfirvöld vildu gera fyrir hjólreiðafólk og einnig að hann heyrði óskir ykkar Akureyringa en þið verðið að koma þeim á framfæri við bæjaryfirvöld og um að gera að hafa góð samskipti á milli yfirvalda og hjólreiðafólks.  Það er ekki vitlaus hugmynd að byggja upp það gott hjólasamgöngukerfi að fólk geti skilið bílinn eftir heima og hjólað sinna erinda ef það vill og margir geta bætt heilsuna og sparað peninga í leiðinni. Á Akureyri eru vegalengdirnar stuttar en slatti af brekkum og þar sem að margir vilja ekki mæta með svitalykt í vinnuna eða skólann er um að gera fyrir þá sem að búa í efri hluta bæjarins að láta fríhjóla í vinnuna og taka svo á því á heimleiðinni og svitna svolítið og finna hvernig þið eflist með hverjum deginum og verðið farin að taka æfingatúr svona í heimleiðinni áður en þið vitið af.

Akureyringar og nærsveitamenn athugið

Við ætlum að hvetja Akureyringa til að hafa augu og eyru opin fyrir húsnæði sem gæti hentað starfseminni á Akureyri og þá er ég að tala um smá viðgerðaraðstöðu því að fundaraðstöðu er hægt að hafa í Kompaníinu. Þessi viðgerðaraðstaða þarf ekki að vera plássfrek svo að endilega ef þið fréttið af einhverju sem að hægt er að lagfæra eða koma í stand eða þá ef einhver hefur smá skot fyrir þessa starfsemi þá endilega látið Gústa í Petro vita, svo að næsta vor verði klúbburinn kominn með þá aðstöðu sem flestum fannst nauðsynlega vanta og hægt verði að snúa sér að skemmtilegum ferðum og öðru sem að uppá kann að koma.

Einnig vantar hugmyndir að fjölskylduferð sem hægt væri að fara í vor

Tillaga:

            a) fólk fer frá Akureyri

            b) hjólar 40 – 60 km að gististað, grillar, gistir og hjólar til baka daginn eftir

            c) hringur eða fram og til baka

            d) trússbíll með í för fyrir dót og þá sem ekki treysta sér alla leið

Þetta er sama hugmynd og er að fjölskylduferðinni á Nesjavelli sem hefur notið vaxandi vinsælda en ef þið hafið aðrar hugmyndir eða hugmyndir varðandi ferðatilhögun þá látið okkur vita og þá er hægt að auglýsa í vorblaði Hjólhestsins endanlega niðurstöðu.

Hjólið heil

Alda Jóns - This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

(Gústi - This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  S. 461 4534)

 

© Hjólhesturinn 3.tlb. 8.árg. 1999