Nýtt hjólreiðafélag stofnað fimmtudaginn 11. nóvember 2004. Þetta nýja félag hefur fengið nafnið Hjólamenn og voru stofnfélagar þess 33 talsins. Félagið er starfrækt undir UMSK með aðsetur í Kópavogi.

   Töldu menn nauðsynlegt að auka fjölbreytnina í íslensku hjólalífi þannig að fleiri aðilar ynnu að framgangi þessarar skemmtilegu íþróttagreinar. Þannig vaka fleiri aðilar yfir íþróttinni og þegar eðlilegar niðursveiflur verða í starfsemi félags, ber hitt félagið fánann. Annars er hætt við að íþróttin staðni eða jafnvel sofni við og við. Þetta hefur einmitt gerst með ca. 10 ára millibili og er etv. ástæðan fyrir smæð þessarar greinar, þrátt fyrir að fyrsta félagið í hjólreiðum hafi verið stofnað 1897. Var það annað íþóttafélagið sem var stofnað í landinu næst á eftir Skotfélagi Reykjavíkur.
   Þetta félag hét Hjólamannafélag Reykjavíkur og var stofnað af sendisveinum í bænum sem einskonar verkalýðsfélag. Það var reyndar lagt niður skömmu eftir aldamótin [1900-1901] en Hjólreiðafélag Reykjavíkur sem við þekkjum [var] stofnað nokkru seinna. Hjólreiðafélagið lá svo í dvala við og við á 20 öldinni og hjólreiðaíþróttin með því. Nú síðast var það endurreist veturinn 1997-1998 af nokkrum eldhugum.
Stjórn Hjólamanna, talið frá vinstri.

 

hjolamenn_stjorn.JPG

 

Gunnlaugur Jónasson, varamaður, Guðni Dagur Kristjánsson, gjaldkeri, Elvar Örn Reynisson formaður,
Friðrik Ottesen ritari, Haukur Eggertsson, varamaður.    


   Hjólreiðaíþróttin er skemmtileg blanda af liðakeppni og einstaklingskeppni, eins og allir sem fylgjast með erlendum keppnum í sjónvarpinu vita. Lance Armstrong færi ekki langt í Túrnum nema með hjálp sinna góðu liðsfélaga. Þetta hefur alveg skort hér hjá okkur og er eins og okkur vanti ákveðna vídd í keppnirnar af þessum sökum. Fleiri félög munu með tímanum leiðrétta þetta og samkeppni milli þeirra vafalaust hækka "standardinn" í íslenskum hjólreiðum.
   Erfitt er að byggja upp eðlilegan "strúktúr" í íþróttinni, svipaðan því sem tíðkast í öðrum greinum, með aðeins eitt félag. Íþróttasambandið leyfir okkur ekki að stofna Hjólreiðasamband fyrr en þrjú héraðssambönd sem hafa félög innan sinna vébanda krefjast þess. Í framtíðinni gætu það orðið Íþróttabandalag Akureyrar, Íþróttabandalag Reykjavíkur og Ungmennasamband Kjalarnesþings. Markmið hins nýja félags er fyrst og fremst að efla íþróttina sem er ein sú vinsælasta í Evrópu og hefur notið sívaxandi þátttöku hérlendis síðustu árin.
   Hjólreiðanefnd ÍSÍ sem stjórnar íþróttinni í dag var pínulítið "skringileg" þar sem hún var yfir einu félagi og settu menn spurningamerki við nauðsyn hennar og vald. Nú þegar annað félag er orðið að veruleika er hún alveg eðlileg og auðvitað var hún alltaf bráðnauðsynleg, þó ekki nema bara til að Íslendingar væru gjaldgengir í hvaða keppni sem er erlendis og vegna samskipta við erlend og innlend íþróttayfirvöld.
   Þá ætlar félagið að halda sýnilegar keppnir og æfingar, auk þess sem stefnt er að því að gera íþróttina sýnilegri í fjölmiðlum.
   Ætlunin er að bjóða upp á ýmsar nýjungar í keppnishaldi, eins og að gera meira úr verðlaunaafhendingum, bjóða upp á nýjar keppnisleiðir og auka alla umgjörð í kringum keppnir. Eins mun félagið bjóða upp á reglulegar æfingar og inniæfingar á hjólum yfir vetrartímann auk tveggja útiæfinga í viku hverri. Daninn Mads Claussen hefur verið ráðinn aðalþjálfari félagsins.
   Unnið er að því að koma á legg heimasíðu félagsins: www.hjolamenn.is.  Þar verður að finna ýmsa fróðleiksmola um hjólreiðaíþróttina auk upplýsinga um starf félagsins.
   Hjólamenn vilja nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim aðilum sem hafa stutt þá fyrir veitta aðstoð og bjóða jafnframt nýja styrktaraðila velkomna til samstarfs.
   Hjólamenn.

hjolamenn_gunnlaugur.JPG

Gunnlaugur Jónasson Hjólamaður í bláu leiðtogatreyjunni í Túr De Færeyjar 2004.

Mynd úr myndasafn HFR

© Hjólhesturinn 1.tlb. 14.árg. 2005

© ÍFHK 2005