Mikilvægi þess að við getum séð fyrir okkur hvernig við viljum lifa okkar lífi í framtíðinni er mikið í ljósi þeirra öru breytinga sem við búum við nú á þröskuldi 21. aldarinnar. Þegar hugsað er um framtíðina þá er hentugt að notast við það sem hugsuðir hafa skýrt "Utopiu" eða fyrirmyndarsamfélagið. Ganga sumir svo langt að segja að án "Utopiu" þá verði hið mannlega og lífvænlega undir í baráttunni við innantóma tæknidýrkun í nafni framfara [Paul Goodman, anarkisti og rithöfundur].

Í heimi þar sem stríð, mengun og mannleg þjáning stefnir framtíð þess lífvænlega í voða er engin vanþörf á vangaveltum um það hvernig fyrirmyndarsamfélagið geti litið út. Ekki er ætlunin að fara vítt og breitt út í framtíðarsýn til bjargar framtíðinni heldur að fjalla um einn tiltekinn þátt í framtíðarsýn sem umhverfisverndarmenn ásamt yfirvöldum víðs vegar um heiminn hafa sett fram og er öðru fremur viðfangsefni Hjólhestsins, þ.e. notkun reiðhjólsins.

Staða reiðhjólsins í Utopiu 21. aldarinnar er skýr. Reiðhjólið er einfaldur og sígildur samgöngukostur sem mætir tveimur risavöxnum vandamálum sem hrjá mannkynið. Hið fyrra eru umhverfismálin. Notkun reiðhjólsins mengar ekki, tekur t.d. 10 sinnum minna landrými en einkabifreiðin og gerir notendur þess mun meðvitaðri fyrir sínu umhverfi á meðan firring bílnotendans er nánast algjör á bak við málm og gler. Hið síðara snertir heilbrigði og velferð mannskepnunnar. Með hjólreiðum vinnur notandinn gegn ýmis konar sjúkdómum jafnt banvænum sem minniháttar. Í raun eru þessi mál samofin rétt eins og allt annað sem snertir okkar dýrmæta vistkerfi. Kostir reiðhjólsins eru ótvíræðir og því kemur ekki á óvart að reiðhjólið er óðum að fá lykilhlutverk í Evrópu sem borgarsamgöngutæki framtíðar. Þetta á einnig við í Reykjavík eins og sjá má af þeirri vinnu sem Borgarskipulag hefur innt af hendi nú þegar. Í tillögu að Stofnbrautarkerfi hjólreiða sýnir Borgarskipulagið okkur hvernig hluti af framtíðarsýn þeirra sem hjóla í Reykjavík lítur út. Kerfið myndar net stíga sem tengja alla borgarhluta saman þar sem gert er ráð fyrir öruggum tengingum yfir og undir hin breiðu stórfljót vélknúinnar umferðar. Í tillögunni kemur fram að ýmislegt þarf að bæta við og breyta svo sem hönnun á stígum, gatnamótum og svo hjólastæðum. Einnig kemur fram að þörf er á sérstökum hjólreiðareinum í Gamla miðbænum. En hvaða skoðun höfum við á þessarri framtíðarsýn sem lögð er fram fyrir okkur sem höfum valið að fara okkar ferða á reiðhjóli? Fellur þessi framtíðarsýn að því fyrirmyndarsamfélagi sem við getum hugsað okkur í víðara samhengi?

Í grundvallaratriðum gerir hún það en er þó ekki nema einungis grundvöllurinn. Hjólandi umferð þarf ekki einungis sérstakar hjólreiðarreinar í Gamla miðbænum heldur allsstaðar. Forgangur hjólandi umferðar fram yfir umferð einkabílsins er eina rökrétta framtíðin í umferðarmálum þéttbýlla samfélaga. Styðjum einstaklinga sem velja hjólið framyfir einkabílinn en ekki öfugt, eins og málum er háttað í dag. Krefjumst hjólastyrkja í stað bílastyrkja. Krefjumst hjólahúsa í stað bílahúsa. Öryggisverðir vakta hina hjartfólgnu einkabíla á meðan að glæpamenn láta greipar sópa hjá eigendum reiðhjóla sem undantekningalítið hafa engan aðgang að öruggum hjólageymslum og hjólagrindum. Hjólandi þurfa að stíga hjólin upp og niður miklar brýr þegar farið er yfir stórar umferðaæðar á meðan að notendur vélknúinna farartækja bruna stystu og auðveldustu leiðina og mislæg gatnamót sem skrifuð er á botnlausa skuldahít samfélagsins, gegna einungis því hlutverki að auka hraðann og þann skaða sem notkun einkabílsins hefur í för með sér. Mótsögnin, sem birtist okkur sem hjólum, hrópar á réttlæti til handar fyrirmyndarsamfélaginu þar sem heilbrigði og alvöru velferð ríkir. Við hljótum að hafna mannsfórnum, eyðileggingu vegna stjórnlausrar mengunar og siðlausri tæknihyggju. Í staðinn skulum við með ákveðnum og skipulögðum hætti halda fram hjólreiðum sem hluta af því fyrirmyndarsamfélagi sem við viljum búa í á 21. öldinni.

Stígum á sveif með lífinu!

Óskar Dýrmundur Ólafsson

© Hjólhesturinn 3. tlb. 5. árg. Október 1996