Sverrir BollasonVæri ekki frábært ef allt höfuðborgarsvæðið væri samtengt með neti hjólastíga, hjólareina og blandaðra gatna? Væri ekki líka unaður að geta hjólað í fríið um landið vítt og breitt á öruggum vegum? Svona draumum þarf að koma á blað til að þeir geti ræst. Undanfarið hef ég verið að skoða hvernig svona hugmyndir er best fyrir komið á blaði.

Í Reykjavík er í gildi hjólreiðaáætlun  sem samþykkt var fyrir rúmu ári síðan. Önnur sveitarfélög hafa ekki tekið jafn meðvituð skref í átt að gerð betra umhverfis fyrir hjólreiðafólk.

En vandi hjólreiðafólks er sá að skref í rétta átt hafa verið tekin innan stjórnsýslunnar sem snertir Reykvíkinga eina en stefnumótun fyrir landið í heild skortir. Fyrir vikið þarf alltaf að slá varnagla um þau atriði sem snerta tengingar yfir sveitarfélagamörk, þróun lagasetningar og áherslur í framkvæmdum. Þá er ekki hægt að gera grein fyrir samþættri stefnumótun í samgöngupólitík svo sem ívilnandi aðgerðir í skattheimtu eða áherslum í framfylgd löggæslu svo einhver dæmi séu nefnd. Í stefnumótun og áætlanagerð er nauðsynlegt að greina megi sameiginlega þætti í ítarlegustu  sem og almennustu stefnuskjölum, það er að samræmis sé gætt milli áætlana.

Það má líka geta þess að allar áætlanir ættu að þróast, þroskast og taka breytingum. Svo er einnig með Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar sem hefur mikið tækifæri til að þróast.

 

Bjartara framundan?


Nokkuð hefur þó rofað til og hefur m.a. Vegagerðin stuðlaðþróun í málaflokknum síðan Vegalögum var breytt og opnað fyrir meira frumkvæði af hálfu stofnunarinnar í málefnum hjólreiða- og göngustíga.  Að störfum er rannsóknarhópur sem ætlað er að skerpa á aðkomu Vegagerðarinnar við gerð stofnstíga.  Þá gerði undirritaður nokkuð ítarlega grein fyrir aðferðafræði við mótun hjólreiðaáætlana með styrk frá Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar í desember 2008 í verkefninu Stofnbrautir hjólreiða – Rýni áætlana. (Sjá má skýrsluna á vef Vegagerðarinnar /Upplýsingar og útgáfa/ Rannsóknarskýrslur/ Umferð/Annað)

Meðal þess sem kom fram í niðurstöðum rannsóknarinnar var að systurstofnanir Vegagerðarinnar á Norðurlöndum hafa allar nokkuð ítarlega stefnu í málefnum hjólreiða og kemur kannski ekki á óvart að þar stóð danska vegagerðin fremst meðal jafningja. Jafnframt hafa samgönguráðuneytin sína eigin stefnumótun til þess að leggja línurnar á pólitísku stigi og þvert á málaflokka.  Það væri að mati undirritaðs til nokkurra bóta fyrir málaflokkinn ef ríkisvaldið legði fram einhverja stefnumörkun í málaflokknum hversu einföld eða almenn sú stefna væri. Það yrði leiðarljós fyrir frekari og ítarlegri áætlanagerð fyrir landssvæði eða sveitarfélög. Von er á að ný samgönguáætlun líti dagsins ljós á næstu misserum. Þar mætti fagna jafnvel hinum smæstu umbótum því þær geta magnast upp á sveitastjórnarstiginu.

Í þessum málum eins og öðrum þá eru það peningarnir stýra ferðinni. Magnið segir til um hvað hægt sé að gera, það afhjúpar líka með snjöllum hætti raunverulega forgangsröðun hlutanna. Grænn ráðherra samgöngumála ætti að auka hlutdeild grænna samgöngumáta í nýfjárfestingu ef heimurinn snýr rétt. Svo er það spurningin um það hver eigi að borga hvað. Ríki og sveitarfélög munu að líkindum deila um sinn um skiptingu kostnaðar.

 

Hvað eru hjólreiðaáætlanir?


Hjólreiðaáætlun getur staðið ein og sér líkt og sú Reykvíska en hún getur líka verið hluti af aðalskipulagi. Ef taka á heildstætt á höfuðborgarsvæðinu mætti gjarnan vera til hjólreiðaáætlun sem hluti af svæðisskipulaginu. Svo væri ekki verra ef ríkið eða einhverjar undirstofnanir ríkisins hefðu sínar áætlanir sem hinar gætu tekið mið af.

Markmiðasetningin þarf líka að taka tillit til þess hvort um samgöngu, frístunda eða ferðalagahjólamennsku er að ræða. Þarfirnar eru býsna ólíkar og vísast eru þeir enn til sem telja frístundahjólreiðar tróna á toppnum. Sjálfur hef ég einbeitt mér að samgönguhjólreiðum sem raunar má deila upp í fullorðins og barnaflokk ef út í það er farið. Samstarfsfólk mitt hefur sumt tekið á hjólreiðum og ferðamennsku í sinni vinnu.

Almennt eru markmið hjólreiðaáætlana nokkuð keimlík en framsetningin er mjög fjölbreytt og áherslurnar koma vandræðalega upp um þjóðareinkenni. Nýsjálensk sveitarfélög gera mörg hver frábærar hjólreiða- og jafnvel gönguáætlanir. Þar er áherslan á að gera hjólreiðar ánægjulegar og skapa vinalegt umhverfi. Norrænar áætlanir byrja og enda á öryggismálum.

Það kemur á óvart hve margar áætlanir leggja upp með að gera hjólreiðar að viðurkenndum samgöngumáta. En það ætti ekki að koma á óvart, félagslegir þættir stýra að líkindum mun meira umræðunni en tæknilegir nokkurn tímann. Sömuleiðis er gert nokkuð úr hjólreiðum sem tæki til að jafna félagslega aðstöðu. Þar er þó ekki allt sem sýnist því á vesturlöndum eru það sennilega sæmilega efnaðir, vel menntaðir borgarbúar sem eru móttækilegastir fyrir hjólreiðum sem samgöngumáta. Þannig leggja þeir áherslu á hvað þeir eru meðvitaðir.

Hjólreiðaáætlanir taka sem sagt ekki bara á uppbyggingu heldur líka miðlun upplýsinga út í samfélagið og inn í stofnanir sem þurfa að vera með. Þær setja líka markmið um fjölgun hjólreiðamanna í tilteknum markhópum og setja öryggisviðmið. Þá má ekki gleyma viðhaldi og umhirðu.

 

Hvað er góð hjólreiðaáætlun?


Til þess að hjólreiðaáætlanir virki er nauðsynlegt að þær hafi pólitískan stuðning, því ofar í lagtertu stjórnsýslunnar því betra. Þær verða að vera skýrt fram settar og það verður að vera hægt að fylgja markmiðunum eftir. Þær verða að hafa einhverja sýn sem fólk getur litið upp til en það verður líka að vera hægt að brjóta þær niður í framkvæmanlegar einingar. Það er ágætt að hafa skýran fókus og fara ekki of víða en það má heldur ekki njörva allt niður af ótta við mistök. Mistök eru forsenda lærdóms.

Hverri hjólreiðaáætlun ætti að fylgja verkáætlun sem tekur til bæði mjúkra og harðra mála. Sú verkáætlun verður jafnframt að vera byggð á kostnaðaráætlun sem von er til að fáist samþykkt. Án þess verður ekkert úr neinu.

sænska vegagerðin



Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2011