Morten Lange„Hvað ætlar þú að gera í sumar ?“
„Heyrðu, ég fer á hjólaráðstefnu. það verður gaman. “
„Heh, þið hjólið þá í hringi í nokkra daga og reynið að tala saman?“
„Það líka, en annars er þetta nokkuð hefðbundin fagráðstefna, og hæfilega stór í sniðum.“

 

Velo-City ráðstefnuröðin

Þetta samtal hef ég átt í nokkrum sinnum eftir að ég ákvað  að fara á Velo-City ráðstefnu í fyrsta skipti í Dyflini vorið 2005.  Síðan fór ég á Velo City 2007 í München og Velo City Global 2010 í Kaupmannahöfn. Næsta ráðstefna er í Sevilla á suður-Spáni í mars. Missti úr Velo-City 2009 í Brüssel og reyndar Velo Mondial 2006 í Höfðaborg, Suður-Afriku, sem er úr annari ráðstefnuröð.
Ráðstefnuröðin Velo-City hóf göngu sína 1980 í Bremen, og varð hvati til þess að European Cyclists' Federation, ECF, voru stofnuð nokkrum árum seinna. Síðustu árin  hefur ECF haldið utan um árlegar Velo-City ráðstefnur í samstarfi við borgina þar sem ráðstefnan er haldin.  Árið 2012 verður hún haldin  utan Evrópu í fyrsta skipti, nánar tiltekið i Vancouver og ber nafnbótina Global. 

Á Velo-City ráðstefnur koma borgarstjórar, vísindamenn á ýmsum sviðum, embættismenn,  fólk úr hjólafélögum og öðrum frjálsum félagasamtökum, ráðherrar frá ýmsum ríkjum, stundum ESB ráðherrar. Loks eru nokkrir söluaðilar sem selja hjólagrindur, hjólaleigukerfi ofl. með bása. Það hafa verið í kringum 1000 manns á Velo-City ráðstefnunum síðustu skiptin og gestir hafa komið frá um 50 löndum, og frá öllum heimsálfum. Lang flestir koma  samt frá Evrópu. Sem dæmi 2010, þá voru um 20 manns frá norsku Vegagerðinni. Þar var ráðherra frá ESB, og blaðamaður á vegum Le Monde.

Fyrir áhugamenn um hjólreiðar er margt spennandi á þessum ráðstefnum, en oft eru það einhver  megin-skilaboð sem standa upp úr, stundum hlutir sem stjörnu-framsögumenn hafa miðlað eftirminnilega, stundum þema á ráðstefnunni, sem ráðstefnustjórar lögðu áherlsu á. Stundum eru það einstaklingar og hópar sem maður hittir , atburður sem maður tekur þátt í, svo sem hóphjólreiðar með þúsundum annarra um götur borgarinnar, eða eitthvað sem maður lærir á hringborði eða á veggspjaldi um verkefni eða rannsókn.

Kaupmannahöfn

Eitt af því sem stendur upp úr frá Kaupmannahöfn er að sjálfsögðu hjólamenningin í borginni.  Jafnvel þótt maður hafi komið þangað oft, og prófað hjólreiðabrautir, hjólareinar, hjólað í þvögu, og lagt hjólinu í þvögu við lestarstöð. Borgin vill sífellt gera betur, setur sér ný markmið um stærri hlutdeild hjólreiðamanna, þróar nýjar lausnir sem styrkja samkeppnisforskot hjólreiða, og þannig sparast margs konar útgjöld, ekki síst í heilbrigðiskerfinu.  Hjólareinar og hjólreiðabrautir eru breikkaðar. Lokað er fyrir umferð bíla (nema þeirra sem eiga erindi í götunni) og grænar bylgjur búnar til fyrir hjólreiðamenn.  Borgin kannar  árlega hvað hjólreiðamönnum líkar og mislíkar, og einkunnir  hjólandi borgarbúa eru  birtar er varða  þjónustu borgarinnar. Endurgjöf notenda er tekin alvarlega og könnunin endurbætt. Nú er til dæmis spurt um yfirborð hjólareina og hjólreiðabrauta og um snjómokstur. Nátengd þessum könnunum eru markmið borgarinnar um aukin þægindi, hraða og öryggi fyrir þá sem nota þennan ferðamáta sem er einn sá heilbrigðasti og grænasti sem völ er á.

Það kemur væntanlega fáum á óvart að heyra að í Kaupmannahöfn sé mikil hjólamenning, en sennilega vita færri, að aðal skýringin er ekki veðrið, sem er  lítið mildara á veturna en hér og nokkuð vindasamt, eða að lítið sé um langar brekkur. Heldur var tekin afgerandi ákvörðun um að úthýsa ekki né þrengja um of að hjólreiðamönnum þegar bílavæðingin hófst fyrir alvöru fyrir mörgum áratugum síðan. Sömu sögu er að segja af Amsterdam og öðrum borgum Niðurlanda. Hin síðari ár hefur svo komið enn skýrar í ljós að þegar um þriðjungur vinnuferða nýtir sér hjólreiðar sem samgöngumáta leiðir það af sér mun skilvirkari samgöngur í borgarsamfélagi en ef þeir sem núna hjóla væru á bílum.  Svo ekki sé nú minnst á mengun, heilsuþáttinn og  umferðaröryggi.

Sevilla

Annað sem stóð upp úr á Velo-City Global 2010, voru skilaboðin frá Sevilla, um hvernig þar hefði tekist á um fjórum árum að gera stórátak í eflingu hjólreiða og hjólamenningu. Lagðar voru um 120 km af sérmerktum hjólaleiðum og sett var á fót hjólaleigukerfi.  Svipuð kerfi eru  starfrækt  í um hundrað  borgum á heimsvísu.  Áður en átakið í Sevilla hófst héldu margir að þetta væri dauðadæmt, því það tíðkaðist ekki að hjóla í Sevilla. Metið var að færri en 6000 ferðir á dag væru farnir á reiðhjóli.  Hitinn var m.a. sagður vera Þrándur í götu, því Sevilla er heitasti borg Spánar, og svo var bent á  menninguna. Nú um fjórum árum seinna eru farnar 60.000 ferðir á reiðhjóli daglega, sem er 6,6%  af öllum ferðum. Aðspurður segist um þriðjungur þeirra hafa notað fólksbíl í daglegum samgöngum áður.  Borgaryfirvöld segist hafa fengið vítamínsprautu og vilja halda í og bæta sína stöðu sem hjólahöfuðborg Spánar, í samkeppni við m.a. Barcelona.  Eitt sem hvetur til dáða er að mun ódýrara og ekki síst árangursríkara er að stuðla að auknum hjólreiðum en öflugri almenningssamgöngum, sem alvöru valkost við bíla. Á fyrirlestrinum um Sevilla  var spurt hvernig þeir náðu að byggja svona mikið á stuttum tíma, og hvort óánægðir NIMBY-aktívistar (Not In My Back Yard) hafi ekki verið til vandræða? Komu upp vandamál vegna þarfar á eignarnámi og þess háttar? Svarið var á þá leið að undirbúningurinn hefði verið mjög vandaður, að öflugur pólitískur stuðningur væri við verkefnið, og að framkvæmdir hefðu farið fram með svo skilvirkum hætti að áður en NIMBY-ar náðu að átta sig var búið að breyta og framkvæmdir á öðrum stað hafnar. Þetta vakti kátinu í salnum. Manni skilst að hjólavæðingin hafi lagst afar vel í  borgarbúa Sevilla líkt og með göngugötuna á Stríkinu í Kaupmannahöfn á sjöunda áratugnum. Framkvæmdin við Strikið mætti mótstöðu áður en götunni var breytt en það breyttist fljótt eftir að hún var opnuð aftur sem göngugata. Tíföldun ferða á reiðhjólum yfir fjögurra ára tímabili segir sína sögu. Það er því vel við hæfi að næsta Velo-city ráðstefna verður haldin í Sevilla 23. - 25. mars á þessu ári. Nú þegar er ákveðið að skrifa þar undir formlegt plagg sem mun fara inn í stefnumóturnarvinnu International Transport Forum í Leipzig í maí .

Hjólreiðar á heimsvísu

Velo-city ráðstefnunni í Kaupmannahöfn í fyrra var ætlað að víkka út sjóndeildarhringinn og horfa víðar en bara til Evrópu. Þarna voru aðal-fyrirlestrar  frá Kína, Síle, Kólumbíu, og Indlandi. Reyndar heyrðu menn þegar í Dyflini2005 um Bógóta i Kolumbíu, en sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Í Bógóta var bílaumferð ríka fólksins og  millistéttarinnar nær allsráðandi. Nokkrir framsýnir og kjarkmiklir borgarstjórar með aðstoð góðra skipulagsmanna gjörbreyttu þessu á fáum árum. Mannvænu borgarskipulagi var komið á með því að setja skorður við bílaumferð, bæta almenningssamgöngur með því að setja á fót Bus Rapid Transit  , byggja almenningsgarða og ekki síst hjóla- og gönguleiðir.  Einn borgarstjóranna,  Enrique Peñalosa (og að hluta bróðir hans Guillermo) ferðast nú um heiminn, veitir innblástur og segir frá árangrinum.

Kína

Það var líka eftirminnilegt að heyra í manni nátengdum borgarkerfinu í Sjanghæ. Hann rakti í stuttu máli sögu hnignunar og endurkomu hjólamenningar í Kína. Kínverjar eru með réttu stoltir af sinni ævafornu menningu, en líta líka oft til vesturlanda, og það má segja að það sé okkar sök að hjólreiðar virtust ekki eiga heima með í hraðri þróun í átt að “nútíma” samfélagi. Sem betur fer, virðist sem hjólabylgjan á vesturlöndum, og þá ekki síst hið vel heppnaða fordæmi Velib' hjólaleigukerfis Parísarborgar hafi fengið þá til að endurskoða afstöðu sína. Fyrir fáum árum voru hjólareinar fjarlægðar af helstu götum eða þrengt verulega að þeim. Nú hefur þessi þróun snúist við. Í öðrum fregnum heyrist að Peking borg  muni  taka upp skömmtunakerfi á leyfum til að kaupa nýja bíla, þannig að bara lítið brot þeirra sem vilja, geta keypt sér nýja bíla og fengið þá skráða. Sjanghæborg hefur notast við svipað kerfi í mörg ár. 

Indland

Sterkustu tilfinningarnar vakti kannski erindi Vandana Shiva, frá Indlandi. Vandana Shiva er doktor í eðlisfræði, en þekktust sem talskona bændaþorpa. Með hennar aðstoð tókst meðal annars að afstýra því að bandarískt fyrirtæki fengi einkaleyfi á tré sem Indverskir þorpsbúar hafa hagnýtt í árþúsundir.

Eins og í Kína þá virðist sem einhverjir fordómar gagnvart reiðhjólum standi framförum fyrir þrifum og þá sérstaklega gagnvart fótstignum flutningahjólum hvort sem það eru rickshaw hjól sem gegna hlutverki leigubíla í fólksflutningum eða vöruflutningahjól sem notuð eru til flutninga á grænmeti á markaði o.fl.  Hún sagði frá því hvernig yfirvöld í borgunum þrengja þannig að fátæku fólki sem byggir lífsafkomu sína  á þríhjólum af ýmsum toga.  Í hennar huga væru þetta  mikill mistök. Vandana Shiva telur sig hafa ríka sönnun þess að lífræn ræktun sé mun hagstæðari og raunhæfari leið til þess að framleiða mat til langframa en verksmiðjubúskapur, þannig að þegar hún segir: „the rickshaw is to the transport system what  organic is to agriculture“, þá er ljóst að hún hefur trú á reiðhjóli sem lausn. Vandana  talaði á þessum nótum um mannréttindabrot þegar fleiri Indverjum en öllum íbúum Íslands er neitað um lifibrauð sitt á grundvelli þess að vinnutækið þyki ekki nógu framsækið. Þegar ég spurði hana nánar út í þetta, og hvort hún vildi meina að brotið væri á mannréttindum hjólreiðamanna annars staðar, benti hún á að gangandi og hjólandi væru varla að ógna neinum í umferðinni, en eru drepnir svo hundruðum þúsunda skipti árlega, á heimsvísu.

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2011.