Skálafell Skálafell, hjólreiðavangur á heimsmælikvarða var yfirskrift metnaðarfullrar greinargerðar sem Ormur Arnarson, Árni Guðmundur Guðmundsson og David Robertson tóku saman. Þar kynntu þeir tillögur að nýjum útivistar- og afþreyingarvangi fyrir fjallahjólreiðamenn í Skálafelli, í jaðri höfuðborgarsvæðisins, ásamt aðbúnaði í skíðabrekkum og stígum/slóðum sem liggja frá því. Þessar leiðir tengjast stígakerfi höfuðborgarsvæðisins, útivistarsvæðinu í Heiðmörk, niður í Kjós og til Hvalfjarðar, um Mosfellsheiði og síðast en ekki síst til Þingvalla.


Markmið höfundanna var að benda á nýjan spennandi og hagkvæman valkost í íþróttaiðkun landsmanna og hvetja til þess að þegar í stað yrði hafist handa við að koma þessu í framkvæmd. Þeir töldu þörf á nýju útivistarsvæði sem hannað væri og lagað að þörfum nýrra kynslóða sem gera nýjar kröfur, almennings sem þarfnast meira rýmis og nýjungaþyrstra erlendra ferðamanna sem í stórum stíl leita uppi sérbúnar alþjóðlegar aðstæður. Verkefnið er ódýrt í framkvæmd en engu að síður atvinnuskapandi og á eftir að vera mjög þörf viðbót í flóru ferðamennsku á Íslandi.
Tillagan fékk jákvæðan hljómgrunn og þann 8. ágúst var opnaður í Skálafelli fyrsti hjólreiðavangur á Íslandi. Um var að ræða 3 km langa fjallahjólabraut, Dirt-Jump braut og BMX stökkpall.
Lyftur í Skálafelli voru opnar um helgar til að ferja hjólreiðamenn upp á topp en öllum var frjálst að nýta sér lyfturnar til að komast upp á topp til að ganga eða njóta útsýnis.
CrossCountry, All Mountain, Freeride, Downhill og DirtJump eru nokkur dæmi um mismunandi stefnur og notkun fjallahjóla sem njóta vaxandi vinsælda um allan heim og Íslendingar hafa tekið þessum breyttu hjólum opnum örmum.

Nýir möguleikar:  Down-hill

Auðvelt er að gera Skálafell að Bike-Park að erlendri fyrirmynd þar sem höfuðáhersla er lögð á svokallaðar “down-hill” fjallahjólreiðar. Hér er hægt að nýta skíðalyfturnar á svæðinu til að flytja hjólafólk upp hlíðina. Brautir yrðu svo lagðar eftir mismunandi leiðum niður brekkurnar og væri hægt að hafa þær misbrattar til að koma til móts við mismundandi hæfni hjólreiðamanna á svipaðan hátt og tíðkast á skíðasvæðunum

Dirt-Jump

Eins og nafnið gefur til kynna snýst þessi tegund hjólreiða að mestu um stökk.

Cross-Country/All Mountain

Líkt og meðal skíðafólks sækjast ekki allir fjallahjólamenn eftir bruni eða stökkpöllum. Skálafellssvæðið hentar vel til skíðagöngu á veturna en einnig er svæðið kjörið til hjólreiða á sumrin.
Mikill fjöldi vega og jeppaslóða liggja um svæðið og tengja það þannig við Hvalfjörð og Kjós í norðri yfir Svínaskarð; Hólmsheiði, Rauðavatn og Heiðmörk í suðri eftir gamla Kóngsvegi; Þingvöllum í austri og Esju, Mosfellsbæ og Hafravatni í vestri. Allt er þetta einungis í u.þ.b. 12 km radíusi frá Skálafelli.

Viðbót við gönguleiðir

Margir áhugamenn um göngu eða aðra útivist myndu vafalaust vilja nýta sér stólalyftuna á topp Skálafells til að hefja þaðan göngu um svæðið eða bara til að njóta útsýnisins en fá fjöll í um 15 mín fjarlægð frá miðju höfuðborgarsvæðisins hafa annað eins útsýni og Skálafell. Lyfturnar gætu því nýst fleirum en bara fjallahjólafólki.

Framtíðin

Þetta svæði vakti mikla lukku meðan það var opið í sumar og óskandi að svæðið opni aftur á næsta ári og starfsemin útvíkkuð því það getur enginn nýtt sér það sem ekki er boðið uppá.
Hver hefði trúað því fyrir tíu árum að innan fárra ára yrði frumkvæði nokkurra eldhuga orðið að öflugum atvinnurekstri sem aflaði mikils gjaldeyris fyrir þjóðarbúið og skapaði fjölda manns atvinnu. Í þessu sambandi kemur upp í hugann hvalaskoðun á Húsavík, sjóstangaveiði á Vestfjörðum og hálendisferðir á sérbúnum jeppum í rysjóttu veðri að vetrarlagi. Vannýttir möguleikar eru glatað fé.

 

Skálafell
Mynd: Finnbjörn Már Þorsteinsson, fleiri myndir á hjolandi.is
Hjólari: Sindri Hauksson
Skýrsluna má lesa í heild sinni á vefnum hjolandi.is og sumarið 2010 opnaði Skálafell bike park facebook síðu með helstu fréttum.