Fyrir nokkru tók verkfræðistofan Mannvit(1) og Fjölbraut í Ármúla(2) upp svo kallaða samgöngustyrki. Tilefnið var að það vantaði bílastæði fyrir þessa vinnustaði og stóðu þeir frammi fyrir því að útvega þau með ærnum tilkostnaði eða að ná tökum á eftirspurninni eftir bílastæðum. Þau völdu seinni leiðina, gerðu samgöngusamning við þá starfsmenn sem það vildu og fengu þeir þá samgöngustyrk sem nam u.þ.b. einu árskorti í strætó (40.000 kr.) ef þeir komu ekki á bíl í vinnuna. Þessar greiðslur voru metin sem hlunnindi og skattlögð(3) samkvæmt því eins og venjulegar launatekjur þótt tilefni greiðslanna væri að fyrirtækin voru með þeim að spara sér kostnað við að útvega bílastæði fyrir starfsmenn sína. Bílastæði eru hins vegar ekki metin sem hlunnindi og eru því ekki skattlögð þótt andvirði þeirra sé hærra en þessir samgöngustyrkir. Til dæmis fær starfsmaður á ónefndum vinnustað greitt um 68.000 kr. á ári fyrir bílastæði í grennd við vinnustað sinn en er ekki skattlagður fyrir það (4). Bílastæði eru eðli sínu hlunnindi því ekki hafa allir starfsmenn aðgang að bílastæði og þau eru líka misjöfn að gæðum og verði.


LHM hefur á fundum og í umsögnum undanfarið bent á þetta misræmi í mati á hvað eru hlunnindi.

Skattmatinu var síðan breytt (5) fyrir tekjuárið 2010 með reglum nr. 1088/2009. Nú getur launþegi fengið um 3.000 kr. á mánuði fyrir strætó eða reiðhjól „enda sé til þess ætlast af launagreiðanda að þessi ferðamáti sé nýttur vegna ferða í hans þágu“. Þ.e. launþegi getur fengið um 36.000 kr. á ári fyrir strætó eða reiðhjól sem nýtt eru vegna ferða í þágu launagreiðanda. Samgöngustyrkur hefur því sömu stöðu og ökustyrkur fyrir bíl.

Glöggir lesendur átta sig á því að það var ekki þetta sem þurfti. Samgöngustyrkir voru til að bregðast við skorti á bílastæðum og komu því í stað bílastæða. Ökustyrki á að nota til að greiða fyrir akstur í þágu launagreiðanda. Að miklu leyti hafa ökustyrkir þó verið misnotaðir til að greiða launþega „ódýr“ laun sem ekki eru skattlögð og ekki er greitt af í lífeyrissjóð eða launatengd gjöld. Þessi misnotkun virðist hafa verið með vitund og vilja ríkisvaldsins því ríkið og opinberir aðilar hafa verið stórtækir við að greiða sínu starfsfólki ökustyrki fyrir akstur sem ekki hefur verið inntur af hendi.

Betur má ef duga skal. Ef hægt er að gefa sumum starfsmönnum bílastæði, sem kosta frá 30.000-200.000 kr á ári, og greiða þeim ökustyrk upp á 2.500 km á ári fyrir óekinn akstur sem jafngildir um 250.000 kr á ári, skattlaust, hlýtur að vera hægt að greiða mönnum andvirði eins strætókorts á ári, um 40.000 kr., án þess að heimta að því sé skrökvað að það sé í þágu launagreiðanda.

Bílastæði eru hluti af kostnaði við þann lífstíl að koma á vinnustað á bíl. Hvergi er sagt að það sé skylda að útvega starfsmönnum ókeypis bílastæði. Ákvörðun um hvað sé hlunnindi er tekinn af framkvæmdavaldinu með reglum um skattmat (3,5) þótt sú sú ákvörðun snerti milljarða króna. Ef vilji löggjafans stendur til þess, er eðlilegt að Alþingi taki þá ákvörðun með lögum að ekki eigi að skattleggja þau hlunnindi í formi bílastæða sem vinnuveitendur veita þeim launþegum sem velja sér þann lífsstíl að koma til vinnu á bíl.

Krafa LHM stendur óhögguð að samgöngustyrkir sem eru til að bregðast við of fáum bilastæðum á vinnustað séu skattlögð á sama hátt og bílastæðin, sem styrkirnir leysa af hólmi.


(1) www.mannvit.is
(2) www.fa.is
(3) http://stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=e5764e5b-ba38-4ae8-82d4-8647ad23c3b3
(4) munnleg heimild
(5) http://stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=44e1e003-41f3-4a30-8cd3-5854fb4649e6