Sesselja TraustadóttirÍ haust fengu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sendar nokkrar spurningar um hjólatengdar framkvæmdir. Öll svöruðu erindinu nema Álftanesbær. Eiginleg svör bárust ekki frá Seltjarnarnesi en þar var hins vegar óskað eftir samstarfsfundi. Á honum var farið yfir mögulegar aðgerðir og hugmyndir um hjólavæðingu í sveitarfélaginu. Fyrir hönd sveitarfélaganna svöruðu erindinu Pálmi Freyr Randversson hjá Reykjavíkurborg, Tómas Guðbert Gíslason hjá Mosfellsbæ, Eysteinn hjá Garðabæ, Steingrímur Hauksson hjá Kópavogi og Helga Stefánsdóttir hjá Hafnarfirði. Steinunn Árnadóttir og Örn Þór Halldórsson sátu fundinn á Seltjarnarnesi með greinahöfundi og Árna Davíðssyni, formanni LHM. Hér eru öll svörin birt eins og þau bárust frá sveitarfélögunum.

Spurningarnar voru eftirfarandi:

1. Hvaða hjólatengdu framkvæmdir verða unnar í sveitarfélaginu árið 2010?
2. Hvaða hjólatengdu framkvæmdir eru áætlaðar árið 2011?
3. Hvaða fjármagn er eyrnamerkt hjólatengdum framkvæmdum árið 2010?
4. Hvaða fjármagn er eyrnamerkt hjólatengdum framkvæmdum árið 2011?
5. Hefur með markvissum hætti verið unnið að uppsetningu og gerð góðra hjólastæða við opinberar byggingar innan sveitarfélagsins?
6. Er til hjólreiðaáætlun í vinnuskjölum sveitarfélagsins?
7. Er sátt um tengingar hjólaleiða yfir í nærliggjandi sveitarfélög og eru þær í lagi?
8. Er gert ráð fyrir umferðarljósum fyrir reiðhjól í gatnakerfi sveitarfélagsins?
9. Hver eru heildarútgjöld við gerð gatnaframkvæmda á þessu ári?
10. Er yfirstjórn sveitarfélagsins sátt við aðstæður til hjólreiða í sveitarfélaginu?
11. Og til gamans; Er til útreikningur um kostnað sveitarfélagsins við bílastæði í þess eigu?


Mosfellsbær

1. Úttekt á reiðhjólastæðum við stofnanir og skóla bæjarins.
  • Lagfæringar og endurnýjun á reiðhjólastæðum við stofnanir og skóla bæjarins.
  • Viðhald hjólastíga.
  • Malbikun tengistígar milli miðbæjar Mosfellsbæjar og nýrrar byggðar í Leirvogstungu.
  • Uppsetning hjólastígaskilta sem sem sett voru upp í samgönguvikunni, í sitt hvorum enda bæjarins til að auka upplýsingar til hjólreiðamanna.
  • Útgáfa á nýju hjólastígakorti sem aðgengilegt er almenningi í þjónustumiðstöð, upplýsingasetri, íþróttamiðstöðvum og á heimasíðunni.
  • Verið er að skoða möguleika á samgönguhjólastígum í Mosfellsbæ og tengingu við nágrannasveitarfélög.
2. Ræðst á næstu vikum og mánuðum í tengslum við starfs- og fjárhagsáætlunarvinnu.
3. Fjármagn ekki sérstaklega merkt sérstökum verkefnum innan samgöngumála.
4. Ræðst á næstu vikum og mánuðum í tengslum við starfs- og fjárhagsáætlunarvinnu.
5. Já.
6. Ekki sem sérstakt vinnuskjal, en þetta er partur af Staðardagskrá 21 í Mosfellsbæ.
7. Bæta þarf tengingu milli Mosfellsbæjar og Grafarholts og nágrennis, og er það til skoðunar.
8. Nei.
9. Liggur ekki fyrir.
10. Ég tel svo vera, en vilji til að gera meira.
11. Ekki svo ég viti til.

Garðabær

1. 
  a. Unnið hefur verið að malbikun eldri stíga inni í bænum.
  b. Stofnstígur lagður frá Hnoðraholti um Vetrarmýri að Vífilsstöðum.
  c. Stofnstígur um Vífilsstaði að Vífilsstaðavatni lagfærður.
  d. Lokið við tengingu stofnstígs við undirgöng við Arnarnesveg yfir í Kópavog við Reykjanesbraut.
  e. Frágangur stíga við mislæg gatnamót Vífilsstaðavegar og Reykjanesbrautar.
  f. Bráðabirgðatenging Hraunhóla við Hafnarfjörð.
  g. Herjólfsgata máluð og merkt fyrir hjólreiðar.
  h. Stofnstígur milli Sjálands og Arnarness merktur og málaður.
2. Unnið er að fjárhagsáætlun og tillögur fyrir 2011 liggja ekki fyrir, en reikna má með svipaðri framvindu og verið hefur undanfarin ár í þessum málaflokki.
3. Á árinu 2010 eru um 30 Mkr. tengdar þessum málaflokki.
4. Unnið er að fjárhagsáætlun og tillögur fyrir 2011 liggja ekki fyrir, en reikna má með svipaðri upphæð og verið hefur undanfarin ár í þessum málaflokki.
5. Já
6. Nei, ég veit ekki um neina sérstaka hjólreiðaáætlun, en auðvitað koma hjólreiðar oft við sögu hjá bæjarfélaginu t.d. er þeirra getið í aðalskipulagi bæjarins.
7. Ég veit ekki betur en að Garðabær sé í góðri sátt við nágrannasveitarfélögin Kópavog og Hafnarfjörð í þessum efnum.
8. Nei
9. 110 Mkr.
10. Bæjarverkfræðingur telur að staðan í þessum málaflokki sé þokkaleg miðað við þær kröfur sem gerðar hafa verið, þó auðvitað megi alltaf gera betur og mæta nýjum og breyttum kröfum í þessum efnum. Álit bæjarstjórnar liggur ekki sérstaklega fyrir.
11. Nei.

Reykjavíkurborg

1. Hjólarein á Suðurgötu, tilraunastígur á Hverfisgötu, aðskilnaður hjólandi og gangandi við Nauthólsvík, útgáfa hjóla- og  göngustígakorts, útgáfa hjólreiðaáætlunar ásamt bæklings um hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólreiðar.
2. 3ja ára áætlun hjólreiða fyrir Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir 10 km af hjólaleiðum á ári næstu 3 árin. Þessar leiðir hafa verið teiknaðar upp og fara í hönnun um leið og fjármagn hefur verið tryggt.
3. Ótilgetin upphæð, liður í grænum skrefum í Reykjavík. Græn skref í Reykjavík eru um 250 milljónir á árinu sem fara í ýmis verkefni er snúa að aðgengismálum fyrir hjólandi og annað. Umferðaröryggismál (80 milljónir) snúa oft að úrbótum fyrir hjólandi líka, framkvæmdir í Nýbyggingahverfum (575 milljónir) og ýmislegt annað hefur með hjólreiðar og göngu að gera þó upphæðirnar hafi ekki alltaf verið eyrnamerktar hjólatengdum framkvæmdum.
4. Kemur væntanlega fyrst í ljós í byrjun desember með samþykkt framkvæmdaáætlunar borgarinnar fyrir árið 2011.
5. Hjólastæði hafa verið sett upp víða um borgina en hægt að spyrja sig hversu markviss nálgunin er. Meira eftir pöntunum og samráði.
6. Já!
7. Það vantar stundum upp á tengingar við nágrannasveitafélög en víða eru þær líka í lagi.
8. Reynt er að hafa skynjara nýrra umferðarljósa þannig að þeir skynji líka hjólreiðafólk (Flugvallarvegur/Nauthólsvegur) en þetta er ekki algilt.
9. Heildarútgjöldin á þessu ári nema um tveimur milljörðum króna.               
10. Að vissu leyti. Margt hefur gerst á undanförnum árum en við eigum enn langt í land að verða Hjólaborgin Reykjavík. Hjólaleiðir hafa verið bættar og umræða og menning vakin varðandi hjólreiðar. Við eigum ennþá eftir að aðskilja almennilega gangandi og hjólandi á göngu- og hjólastígakerfinu og bæta við hjólareinum og -brautum víða um borgina. Erum á réttri leið en kannski að stíga fyrstu skrefin í markvissum hjólafókus.
11. Fyrir áætluð 37.500 störf í atvinnukjarna höfuðborgarsvæðisins (sem er einmitt að finna í Reykjavík) eru 25 – 37 þúsund bílastæði. Ýmsar leiðir til að reikna út hvað bílastæði kostar og engin algild regla í því. Hvert bílastæði er ca. 25m2 og þá er spurningin hvert m2 verðið í þessum kjarna er. Kostnaður við að búa til bílastæðið bætist svo við og sömuleiðis viðhald stæðisins.

Kópavogur

1. Í fjárhagsáætlun 2010 eru framkvæmdir vegna hjólreiðastíga ekki tilgreindir sérstaklega heldur falla undir stíga og annan frágang opinna svæða.
2. Fjárhagsáætlun 2011 liggur ekki fyrir á þessari stundu.
3. Sjá lið 1.
4. Sjá lið 2.
5. Hjólastæði við skóla og aðrar stofnanir hafa verið sett upp samhliða öðrum frágangi, en ekki hefur verið farið út í sérstakt átak, heldur er þetta sjálfsagður hluti af lóðafrágangi.
6. Hjólreiðaáætlun liggur ekki fyrir enn áætlað er að hún  verði unnin í vetur.
7. Tengingar hjólaleiða á aðalleiðum hafa verið bættar verulega og má eflaust gera enn betur.
8. Umferðaljós taka ekki mið af reiðhjólum. Vegagerðin á flest umferðarljós í Kópavogi þ.e. á Hafnarfjarðarvegi, Nýbýlavegi, Reykjanesbraut og Arnarnesvegi, en Kópavogur er með Fífuhvammsveg og Smárahvammsveg.
9. Nýframkvæmdir við götur, stíg og opin svæði í Kópavogi árið 2010 er áætlað 417 mkr.
10. Yfirstjórn sveitarfélagsins er nú með þessi mál í endurskoðun.
11. Kostnaður við bílastæði í eigu Kópavogs og stofnana liggur ekki fyrir.

Hafnarfjörður

1. Unnið var í gangstéttum á nýbyggingarsvæðum, gönguljósum, viðhaldi stíga og stétt.
2. Háð fjárhagsáætlun sem er í vinnslu
3. Ekkert einvörðungu tengt hjólreiðum en fjármagn var sett í gangstettir og stíga sem notaðir eru fyrir hjól einnig.
4. Háð fjárhagsáætlun sem er í vinnslu.
5. Sett hefur verið upp aðstaða víða.
6. Nei en í vinnslu.
7. Við erum með ákveðnar skoðanir í samræmi við aðalskipulag og nei, vantar betri tengingar frá nágrannasveitafélögum við það sem fyrir er frá bænum.
8. Ekki enn.
9. Fjármagn í nýframkvæmdir í gatnaumhverfinu er um 180 mkr.
10. Hana vill hún bæta.
11. Nei.

Eingöngu í Reykjavík eru til samningar við starfsmenn sveitarfélagsins sem hvetja til vistvænna ferðamáta; Reiðhjólasamningurinn sem greiðir sem svarar 50 eknum km mánaðarlega.
Almennt merkjum við er að hjólamálum störfum að sveitarfélögin séu  jákvæð gagnvart því að efla og bæta aðstöðu hjólreiða. Skemmst er að minnast afsökunar borgarstjóra Reykjavíkur á því að hafa verið með í því að ímyndarvæða hjólreiðamanninn í hlutverki Georgs Bjarnfreðarsonar. Hann sagði við sama tækifæri að sér þættu hjólreiðar töff og vildi veg hjólreiða í samfélaginu sem mestan og bestan.

Sesselja Traustadóttir