0101-forsida2w.jpg Svona leit fyrsta forsíða Hjólhestsins út 1992. Undanfarið höfum við verið að skanna inn elstu blöðin og gera aðgengileg á vef klúbbsins . Það vekur athygli að þó margt hafi breyst þá er líka svo margt sem ekkert hefur breyst. Greinin Varnarbarátta hjólreiðamanna – skýrum kröfum allt frá 1993 ekki sinnt sýnir að baráttumálin eru enn þau sömu og má lesa marga kjarnyrta pistla í elstu árgöngum Hjólhestsins eftir t.d. Magnús Bergs sem enn berst fyrir úrbótum eins og lesa má í greininni Arðbærar mannfrekar framkvæmdir . Eins var í þessu fyrsta blaði ferðasaga frá Landmannalaugum rétt eins og í þessu blaði.

Í leiðara frá 1994 er fjallað um nýjar áætlanir Reykjavíkurborgar: “En það er ekki nóg til að tillögurnar verði að veruleika. Innan borgarinnar er ótrúlegur fjöldi manna sem engan áhuga hefur á því að auka veg reiðhjólsins og vinna jafnvel gegn því. Á sama tíma er allur kraftur settur í að auka velferð einkabílsins.” Samkvæmt þeim tillögum sem Umhverfis og samgöngusvið sendi frá sér í september 2009 virðast enn vera innanborðs þar menn sem vinna gegn auknum veg reiðhjólsins. Vonandi er það vegna vel meintrar ofverndunarstefnu sem fær að víkja núna með tilkomu nýju hjólreiðaáætlunarinnar.

Nafn blaðsins var síðast neðan­máls og yfirskrift blaðsins Fjalla­hjólaklúbburinn. Þetta kemur til að því að blaðinu er dreift langt út fyrir raðir félagsmanna og því ágætt að nota tækifærið og auka sýnileika klúbbsins frekar en að leggja áherslu á nafn fréttablaðsins. Hjólhesturinn er enn fullur af krafti eins og sést á þessu blaði og nú aðgengilegur frá upphafi á vef klúbbsins.