Páll Guðjónsson Íslenski fjallahjólaklúbburinn hefur áratugum saman barist fyrir bættum aðstæðum til hjólreiða og undanfarin ár hefur sú barátta færst undir hatt Landssamtaka hjólreiðamannanna í samvinnu við hin stóru hjólafélögin.
Á þessum vettfang er unnið mikið og gott starf og árangurinn víða sýnilegur, þó oft hafi þetta því miður verið varnarbarátta við að halda í okkar réttindi og að berjast gegn óskynsamlegum aðgerðum yfirvalda.

Stærsta baráttumáli okkar frá upphafi hefur þó litt verið sinnt af yfirvöldum en það er krafan um aðgreindar hjólabrautir meðfram mestu umferðargötum og milli sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu. Árið 1993 safnaði ÍFHK þúsundum undirskrifta með þessari kröfu og kom til borgaryfirvalda. Á ársþingi LHM 2010 var ályktað enn og aftur að þetta mál þyrfti að setja í forgang ásamt nýjum hindrunum sem hafa bæst við frá 1993. Þar má nefna úrbætur á gatnamótum því með tilkomu nýrra króka og grinda milli akgreina er leiðin orðin svo ógreiðfær að t.d. snjóruðningstæki komast þar ekki í gegn. Hvað þá með okkur hin? Einnig eru víða um borgina umferðarstýrð umferðarljós sem ekki skynja hjólandi umferð, við megum bara bíða endalaust við rauða ljósið! Þetta er óviðunandi ástand og síst í takt fagurgala stjórnmálamanna á tímabilinu. Kynnið ykkur stefnumálin á vef LHM:  lhm.is .

Mikil vinna hefur líka farið í að vinna í þrígang tillögur og athugasemdir við ný umferðarlög sem eru í undirbúningi. Því miður voru síðustu drög að lögunum með meiri fagurgala um eigið ágæti en raunverulegar úrbætur gagnvart hjólandi eins og lesa má á vef lhm.is. Þó hafa nást inn nokkrir litlir áfangasigrar eins og að lagt er til að afnema bann við því að fólki eldra en 7 ára sé reitt á þannig útbúnum hjólum. Einnig að skilyrðislaust sé skilt að læsa hjóli hvort sem þú ert í litlu þorpi úti á landi eða í miðborginni. Orðalag um vinstri beygju hjólreiðamanna sem oft er misskilið er lagfært.

Ekki virðist hafa unnist tími til að fjalla um margar aðrar veigameiri tillögur frá LHM gagnvart ákvæðum sem eru íþyngjandi og standa í vegi fyrir aukningu hjólreiða. Jafnvel hafa komið inn ný hamlandi ákvæði sem skerða frelsi hjólreiðamanna á ýmsan hátt, s.s. skilyrt bann við hólreiðum eftir stígum sem komu inn að tillögu Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar. Í tillögum þeirra kom skýrt fram afar fjandsamleg afstaða til hjólreiðafólks á götum borgarinnar og var m.a. lagt til víðtækt bann við hjólreiðum eftir  helstu stofnbrautum borgarinnar, götum eins og Suðurlandsbraut og öðrum þar sem hámarkshraði er yfir 50. Undirrituðum er ekki kunnugt um slíkt bann annarsstaðar en frétti þó að þetta var reynt í Bucharest, Rúmenínu 2005 en þar sáu yfirvöld fljótt að sér. Þetta sama svið ber ábyrgð á ástandi þeirra mála sem á undan er lýst, fyrir utan leiðir milli sveitafélaga. Þær eru stundum á kostnað Vegagerðarinnar en skipulagsvaldið er hjá sveitafélögunum sem ekki hafa sinnt því betur en sést á núverandi ástandi.

Ekki vantar að stjórnmálamenn ýti undir væntingar hjá hjólreiðafólki en eitthvað stendur alltaf á framkvæmdinni. Umhverfis- og samgönguráð er pólitíska batteríið í þessum málaflokki innan borgarinnar og það hefur verið að vinna marga góða hluti undanfarið og ber þar hæst Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar þar sem háleit markmið eru sett fram og tekið undir mörg af okkar sjónamiðum. Ef unnið verður í takt við þessa ágætu áætlun er von á góðu og gætu önnur sveitafélög kannski nýtt þessa vinnu við að móta sér stefnu.

Vegagerðin styrkti gerð bæklings: “Stofnbrautir hjólreiða - Rýni áætlana ” sem leggur grunn að áframhaldandi vinnu við gerð áætlunar um stofnbrautakerfi en ekki er undirrituðum kunnugt um framhald þeirrar vinnu.

Hvað skildi mörgum milljörðum hafa verið varið í “útbætur” á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins síðan 1993 og hvað ætli mikill hluti hafi verið varið í “úrbætur” til hjólreiða? Margar af þessum “úrbótum” eru hreinar og klárar hindranir fyrir hjólandi og jafnvel slysagildrur. Í drögum að nýju umferðarlögunum stendur á einum stað að: “Með bættu vegakerfi og auknum hraða hafi alvarlegum slysum og banaslysum fjölgað í umferðinni.” Er ekki ljóst að “úrbæturnar” eru ekki til bóta og tími kominn á nýja hugsun?

Notið tækifærið í komandi kosningum og spyrjið frambjóðendur hvaða hlutfalli af vegafé þeir vilja verja til úrbóta í aðstöðu til hjólreiða og hvort þeir séu tilbúnir að hlusta á óskir þeirra sem nota hjólið sem samgöngutæki þegar kemur að forgangsröðun verkefna. Við kæmumst langt á fáum prósentum.

 

Bílahaf séð úr þinghúsinu í Bucharest

 

Mynd: Bílahaf séð úr  þinghúsinu í Bucharest.
Þarna ætlaði einræðisherran ætlaði að veifa lýðnum sem þá átti ekki svona mikið af bílum.

Birtist í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK, mars 2010.