Fjölnir Björgvinsson Þó að 20. afmælisár Fjallahjólaklúbbsins hafi verið í fyrra og dagskrá klúbbsins verið  fjölbreyttari en nokkru sinni að því tilefni, er samt útlit fyrir að það herrans ár 2010 verði enn stærra og fjölbreyttara. Þar má nefna nokkrar ferskar nýjungar eins og matreiðslunámskeið fyrir ferðalanga á fjöllum (fyrir göngu- og hjólreiðafólk), fyrirlestur um næringu og nesti, ratleiki, gpsnámskeið og ýmiss konar kynningar frá fyrirtækjum eins og ferðaskrifstofum og útivistar- og hjólabúðum. Fastir liðir í dagskránni verða eins og fyrri ár: viðgerðanámskeiðin eftirsóttu í þremur þrepum, teiningarnámskeið, myndakvöld, bíókvöld, ferðaundirbúningsnámskeið o.m.fl.

Árið 2009 var eins og áður sagði mjög gott.  Það sýndi sig líka að félögum klúbbsins fjölgaði mikið og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Ný stjórn tók við í október 2009 og nefndir mótaðar. Endurkjörin voru Fjölnir Björgvinsson formaður, Sesselja Traustadóttir varaformaður, Ásgerður Bergsdóttir gjaldkeri og Magnús Bergsson varamaður. Nýir í stjórninni eru: Örlygur Sigurjónsson ritari og Arnaldur Gylfason meðstjórnandi. Það er sérstaklega ánægjulegt hvað húsnefndin er öflug og starfar af miklum krafti en hana skipa um 20 félagsmenn. Helstu afrek hennar í vetur er að endurinnrétta efri hæð klúbbhússins og gera allsherjartiltekt í húsnæðinu.

Framundan er spennandi ár með ótal tækifærum á skemmtilegum dögum í klúbb­húsinu og á hjólinu í ferðum. Ferðanefndin hefur skipulagt margar ferðir og verða þær auglýstar síðar á vefnum okkar og á póstlistanum með frekar stuttum fyrirvara með tilliti til veðurs og tæknilegra þátta. Fylgist því vel með vefnum okkar þar sem ferðir og fróðlegt efni verður kynnt og skráið ykkur á póstlistann. Svo er alltaf eitthvað merkilegt á spjallinu.

Líkt og fyrri ár bendir allt til að þetta ár verði mikil auking hjólreiðamanna í umferðinni og á stígunum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Sumir ganga meira að segja svo langt að segjast búast við tvöfaldri aukningu frá í fyrra – sem var þó töluverð. Reykjavíkurborg hefur kynnt nýja hjólreiðaáætlun og með svolítilli bjartsýni er auðvelt að sjá að borgin okkar stefni að því að verða orðin ákjósanleg hjólaborg áður en langt um líður.

Það er með öðrum orðum allt að gerast í hjólreiðaheiminum, litlir óformlegir hjólaklúbbar og félög skjóta upp kollinum og grasrótarmenningin blómstrar. Það virðist líka vera almenn vitundarvakning í þjóðfélaginu á því hversu mikilvæg regluleg hreyfing er og sjálfsagður þáttur í heilbrigðum lífsstíl. Því liggur beint við að tvinna saman líkamsræktina, peninga- og tímasparnað með því að hjóla milli staða. Svo er það líka vænt fyrir umhverfið og sálartetrið.


Hjólum heil og til fyrirmyndar.

Fjölnir Björgvinsson,

formaður Fjallahjólaklúbbsins.

Birtist í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK, mars 2010