Ef ætlunin er að hjóla allt árið er ekki verra að eiga þokkalegt hjól en aðalatriðið er að kunna að búa það rétt þannig að hægt sé að fara á hjólið án þess að þurfa að klæða sig sérstaklega upp fyrir það,« segir Magnús Bergsson sem hjólar allra sinna ferða, bæði sumur og vetur. »Þegar farið er allra ferða sinna hjólandi er ekki nauðsynlegt að klæða sig meira en þegar maður er akandi á bíl. Þetta eru mistök sem flestir hjólreiðamenn gera, að klæða sig alltof mikið. Um leið og menn eru farnir af stað þá hlýnar þeim enda er það yfirleitt bara rétt þegar fólk fer af stað sem því er kalt. Það skiptir aðallega máli að hlífa höfði og puttum því flestir fara tiltölulega stuttar vegalengdir, kannski um fimm kílómetra og þá þarf ekkert að klæða sig óskaplega vel fyrir það. Góð húfa gerir þannig oft meira gagn en góð úlpa.

 

Magnús BergssonNotar nagladekk undir hjólið


Sjálfur hefur Magnús alltaf hjólað mikið og segist í raun nota hjól eins og aðrir nota bíl. "Það er ekkert mál að hjóla á veturna og þegar það er snjór en þá nota ég nagladekk eða gróf dekk. Vitanlega er það erfiðara á veturna en á sumrin en varla mikið erfiðara en að stunda skíðagöngu. Þetta reynir eitthvað á skrokkinn en það er bara gott mál," segir Magnús sem á nokkur hjól en það er aðallega eitt hjól sem hann notar á veturna. "Ég á eitt hjól sem er með brettum og drullusokki og það eina sem ég geri á veturna er að skipta um dekk og setja nagladekkin undir. Drullusokkurinn hlífir drifbúnaði hjólsins og skóbúnaði en drullusokkurinn er aurblaðka á frambrettinu sem nær tíu sentimetra niður á jörðu. Ef maður notar hjólið allan ársins hring þá veitir ekkert af svona búnaði. Flest bretti sem seld eru hér á landi henta ekki íslenskum aðstæðum því oftast eru þetta smellubretti sem rétt hlífa hluta af grindinni en hlífa knapanum ekki neitt eða sáralítið. Brettin sem ég nota fást stundum hér en mörgum finnst ljótt að vera með þau og að þau þvælist fyrir sem er einmitt ástæðan fyrir því að ég er með sér hjól fyrir þetta."

 

Hjólar alltaf á götunni


Magnús segist lengi hafa verið með hjóladellu en nú sé þetta meira farið að snúast um að komast klakklaust á milli staða og eiga svo gott sem viðhaldsfrí hjól. "Ég er því hættur að safna hjólum en hef eitt tilbúið ferðahjól og annað skemmtilegt til þess að njóta þess að vera á léttu og góðu hjóli. Svo hef ég dottið niður á þríhjól sem er mjög sérstakt. Það er mun þægilegra að hjóla á því en það kemur ekki í staðinn fyrir venjulegt hjól," segir Magnús og bætir við að hann hjóli alltaf úti á götu enda eigi hjólreiðamenn að gera það. "Ég læt bara fyrir mér fara þannig að ökumenn sjái mig og þá er ekki keyrt yfir mann. Ég sem hjólreiðamaður hef engan rétt á að ógna gangandi vegfarendum með því að spana þar um á 30-40 kílómetra hraða. Þar fyrir utan er margfalt hættulegra að vera á gangstétt en að vera úti á götu. Ef við tökum Langholtsveg, sem er bara íbúðargata, sem dæmi þá taldi ég einhvern tímann hvað eru margar inn- og útkeyrslur á gangstéttinni og það eru alls 300. Það er náttúrlega fáránlegt að þvælast þar utan þess að maður þarf að fara yfir margar götur þegar farið er eftir endilöngum Langholtsveginum og þar verða slysin á hjólreiðamönnum, þegar hjólreiðamaður birtist skyndilega úti á götu og við gatnamót."

 

Læra af reynslu annarra


Spurður hvaða ráð hann geti gefið þeim sem ætla sér að hjóla í vetur segir Magnús að sniðugt sé að kynna sér hvað um er að vera í Íslenska fjallahjólaklúbbnum en þar sé hægt að fá mörg góð ráð og leiðbeiningar. "Þar er hægt að tala saman og læra í gegnum reynslu annarra. Svo er bara að byrja og fara út að hjóla. Nagladekkin skipta óskaplega miklu máli því ef fólk ætlar að hjóla allan ársins hring þá lendir það örugglega í að fara yfir gangstéttar þar sem er yfirleitt fljúgandi hálka á gangstéttum og illa rutt og þá veitir ekki af því að vera á negldum dekkjum. Ef fólk hjólar á götunum þá þarf að hlífa bæði fötum og hjóli fyrir salti, tjöru og skít. Með árunum höfum við lært þetta og það er því mikil reynsla og viska uppsöfnuð hjá til dæmis Fjallahjólaklúbbnum."

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu 

Birtist í Morgunblaðinu 23 okt. 2009