Morten LangeÞegar bent er á hjólreiðar sem lausn í samgöngumálum koma margir með mótbárur á þá leið að ekki sé raunhæft að „allir hjóli“.  Ef hins vegar er horft til hreyfingarleysis Íslendinga og lausna í samgöngumálum má spyrja hvort þessu sé ekki einmitt öfugt farið, að ekki sé raunhæft að "allir" séu á bíl.  Yfirvöld gera samt ráð fyrir því. En lausnin er í raun aldrei einn og einfaldur, heldur samansafn af leiðum. Þetta snýst allt um áherslur.
Sérstaða hjólreiða til samgangna er að þær eru jákvæðar á svo marga vegu og leysa mörg af vandamálum samtímans.  Margt bendir einnig til þess að hjólreiðar hefðu verið miklu vinsælli til samgangna ef áherslurnar hefðu verið aðrar eins og t.d. í Danmörku og Hollandi.

Nokkur vandamál sem hjólreiðar til samgangna geta leyst

Hjólreiðar geta, í ein vetfangi, leyst mörg erfið vandmál. Með því að nota hjólið til samgangna slær fólk ekki tvær flugur heldur fimm flugur í einu höggi – ja, eða 10 eða fleiri allt eftir því hvernig talið er. Það augljósasta er minni mengun, meiri hreyfing og sparnaður fyrir heimili og samfélagið í heild sinni. Umferðarmengun er ekki aðeins það sem kemur út úr púströrunum heldur einnig svifryk og hljóðmengun. Meðal lausna sem kynntar hafa verið til lausnar á umferðarmengun eru t.d. rafmagns- og metanbílar. Þeim fylgir mun minni mengun og eru því ágæt lausn gegn mengun lífríkis og hlýnun jarðar.  Vissulega væri það mikil framför ef stór hluti bílaflotans yrði skipt út fyrir rafmagns- og metanbíla en önnur vandamál leysast þó ekki. Eftir standa umferðarteppur, erfitt aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda, minni notkun almenningssamgangna og andlát einnar milljónar manna í umferðinni á heimsvísu á ári, að mestu vegna bíla sem fara of hratt miðað við aðstæður.  Þessi tala er há, svo há að meira að segja alþjóða bíla- og hraðakstursklúbburinn FIA, sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda á aðild að, blása nú til sóknar gegn umferðarslysum og kalla þau yfirvofandi faraldur.  En tölur yfir fjölda manna sem látast í umferðarslysum eru lágar borið saman við fjölda þeirra sem látast fyrir aldur fram vegna hreyfingarleysis, sérstaklega í hinum vestræna heimi. 
Einnig mætti skoða orkuna sem fer í ferðalag eins manns í bíl – með eitt tonn af stáli meðferðis. Við þetta bætist orkan sem fer í að vinna, endurvinna eða farga bílunum. Einnig bendir margt til þess að skortur verði á hráefnum til bílaframleiðslu og eldsneyti til að knýja bílana.
Auk þessa væri hægt að taka fyrir landrýmið sem þessi samgöngumáti krefst, hvernig hann breytir borgarskipulagi og skipulagi þéttbýlis á þannig að borgin verður aðeins fær þeim sem ferðast um á bílum. 
Ýmsar rannsóknir benda til þess að ýmis heilbrigðisvandamál, ekki síst sálræn vandamál, tengist því að samfélag miðar allt út frá bílum og bílanotkun. Að hvetja til þess að ganga eða hjóla í stað þess að nota bílinn getur unnið á móti þessari þróun. Lýðheilsustöð og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur til dæmis bent á að hjólreiðar, mögulega meira en önnur líkamsrækt, geti unnið gegn þunglyndi.

Jafnræði og sannmæli er málið

Fólk segir að bíllin sé kominn til að vera.  Það er eflaust rétt sé litið til næstu ára en vonandi breytist það með breyttum áherslum í samgöngumálum. Nú gætir ekki jafnræðis á milli samgöngumátanna, á það hafa hjólreiðamenn oft bent og benda á þau vandamál sem ofnotkun bíla skapa. Fólk er stöðugt hvatt til að ferðast um á bíl af hálfu fjársterkra aðila, í gegnum dægurmenningu og orðræðu stjórnmálamanna, vegagerð sem snýst fyrst og fremst um bíla og með ýmsum tegundum að beinum og óbeinum styrkjum.  Mikilvægt er að jafnræði og sannmælis gæti í umfjöllun um alla samgöngumáta.