Þegar ný stjórn tók við á síðasta aðalfundi var rífandi gangur hjá Íslenska fjallahjólaklúbbnum. Metfjöldi félaga og dagskráin þétt og fjölbreyttari en nokkru sinni. Sú þróun heldur áfram og nú eru klúbbmeðlimir um 800. Árið byrjaði með viðburðum í klúbbhúsinu svo sem hefðbundnum myndakvöldum, viðgerðanámskeiðum, bíókvöldum, skemmtilegum kaffihúsakvöldum að ógleymdum fyrirlestri Beth Mason sérfræðingi í hjólauppsetningu (á ensku: bike fit). Ferðir hafa verið margar og mjög skemmtilegar.

Auk vikulegu ferðanna á sunnudögum og þriðjudögum var farin Nesjavallaferð, Skorradalshringur og óvissuferð í Bláfjöll svo eitthvað sé nefnt. Engin utanlandsferð var á döfinni en talað er um að hafa skipulagða ferð til útlanda annað hvert ár. Erfitt er að segja til um hvort verði farið erlendis á næsta ári en nokkrir spennandi möguleikar á ferðum eru á teikniborðinu. Vetrardagskráin er tekin við með sínum árstíðabundnu verkefnum en þar má nefna að vetrarundirbúnings- og viðgerðanámskeiðin verða á sínum stað, opin hús með ferðasögum og bíókvöldum og aðalfundurinn svo 15. október. Nokkrum viðburðum verður bætt inn í dagskrána en verið er að undirbúa GPS-námskeið/ratleik sem verður auglýst með stuttum fyrirvara. Fylgist því vel með dagskránni á netinu og skráið ykkur á póstlisann okkar.

Nú eru haustlitir á gróðrinum farnir að sjást sem segir okkur að tími sé kominn á að endurskoða og yfirfara ljósabúnaðinn á hjólinu. Hjólreiðaverslanir bjóða endingargóð díóðuljós á góðu verði. Hægt er að fá ljós sem ganga fyrir rafhlöðum eða rafali. Þægilegt er að vera með ljós sem drifið er af rafali á hjólinu; þau þarf ekki að hugsa um að kveikja á eða slökkva og svo verður það aldrei rafmagnslaust – fyrir utan kostnaðinn við að endurnýja rafhlöður. Úrval annars konar blikkljósa er til í ýmsum útfærslum eins og ökklaendurskynsbönd með innbyggðum ljósum, lyklakippuljós sem krækja má á stýri eða hvar sem er á fatnaðinn, ljós sem stungið er inn í stýrisenda og svona mætti lengi telja. Endurskin koma aldrei í staðinn fyrir góð ljós en það má ekki gleyma þeim eða vanmeta. Glitaugu, hvítt að framan, rautt að aftan og gul eða hvít í teinum eru líka skyldubúnaður á hjólum. Endurskinsvestin eru ódýr, einfaldur og hentugur búnaður til að sjást mjög vel á upplýstum svæðum og góð sem viðbót við það sem upp er talið. Enginn ætti að sjást nema með ljós og viðeigandi endurskin á réttum stöðum.

Um aldamótin 1900 voru margir sem trúðu því og héldu því fram að tré yxu ekki á Íslandi. Þeir sem héldu öðru fram voru álitnir skrítnir, sérvitrir og bjartsýnir úr hófi. Í dag efast enginn um skógrækt né gagnsemi og jákvæð áhrif skóganna okkar. Það þykir til dæmis ekkert sjálfsagðara en að pota niður hríslum við sumarbústaðinn. Slík hugarfarsbreyting á sér nú stað með reiðhjólið sem samgöngumáta en því var líka haldið fram að ekki væri mögulegt að hjóla á Íslandi. Veðráttan væri ekki ákjósanleg, brekkur margar og erfiðar og svo væri það svo dj*** dýrt og erfitt. Það vita hins vegar þeir sem reyna að upplifun á veðri fer mikið eftir því hvernig klæðnaðurinn er, vindurinn er stundum með og stundum á móti og má segja það sama um brekkurnar. Til eru borgir þar sem hjólreiðar eru mun útbreiddari en hér sem eru norðar, þar sem brekkur eru brattari og borgin dreifðari. Þetta snýst í raun aðeins um skynsemi. Æ fleiri sjá möguleika og kosti þess að hjóla og við sjáum það best í stóraukinni umferð hjólreiðamanna, bæði á höfuðborgarsvæðinu þar sem hjólreiðamenn þeysast til og frá vinnu, og á landsbyggðinni þar sem ferðalangar, innlendir sem erlendir, taka á sig lengri og skemmri ferðalög til að upplifa umhverfið á nýjan og nánari máta. Yfirvöld eru alltaf að opna augun betur fyrir möguleikunum sem reiðhjólið býður upp á til samgangna og má það glöggt sjá á nýrri reiðhjólaáætlun Reykjavíkurborgar sem kynnt var meðal annars í Fjallahjólaklúbbnum fimmtudaginn 24. september síðastliðinn. En lengi má gott bezna eins og maðurinn sagði og langt er í land þótt byltingin sé hafin í að gera Reykjavík að „fullgildri hjólaborg".

Hjólum heil og til fyrirmyndar.

Fjölnir Björgvinsson,

Formaður Fjallahjólaklúbbsins.