Umhverfismálastofa Landverndar og Umhverfisstofnunar HÍ héldu málstofu í Ráðhúsi Reykjavíkur, 11. október 2001 og þar sem þessi mál voru rædd og margt athyglisvert var sagt. Að sjálfsögðu barst talið oft að einkabílnum og vandamál sem honum fylgir og þörfinni á að leita annarra lausna. Hér má sjá valin ummæli og tengingu á vef Landverndar þar sem lesa má öll erindin.

Meðal annarra talaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri um skipulagsmál og vitnaði í skipulagsmarkmið um að "Efla vistvænar samgöngur; svo sem almenningssamgöngur og hjólreiðar.." og sagði: "Þetta er sú sýn sem við setjum fram en veruleikinn er ennþá dálítið annar. Við búum í samfélagi mikilla mótsagna þar sem við erum öll í orði kveðnu á kafi í umhverfisvernd - sérstaklega þegar hún veldur okkur engum óþægindum - og þykir óskaplega vænt um náttúruna, en erum svo algerlega móralslaus þegar kemur að skipulagi hins manngerða umhverfis sem við ætlum að skila til framtíðar."

Já, það eru orð að sönnu að Aðalskipulagið er sú sýn sem stjórnmálamenn setja fram en veruleikinn er ennþá dálítið annar eins og sést á hjólreiðastígum borgarinnar sem fjallað er um hérá umferðarvefnum okkar.  14/10/2001 PG

   Umhverfi og skipulag í höfuðborg
   Umhverfismálastofa Landverndar og Umhverfisstofnunar HÍ
   Erindi flutt á málstofu í Ráðhúsi Reykjavíkur, 11. október 2001
   Umhverfi og skipulag í höfuðborg

   Umhverfismálastofa Landverndar og Umhverfisstofnunar HÍ héldu málstofu í Ráðhúsi Reykjavíkur, 11. október 2001 og þar sem þessi mál voru rædd og margt athyglisvert var sagt. Pistlana má lesa á vef Landverndar en hér fyrir neðan eru nokkur fleyg orð sem voru látin falla:

   Fríða Björk Ingvarsdóttir blaðamaður:

   ...mannfólkið á erfitt með að sætta sig við daglegt umhverfi sitt í borgum. Ástæðan er ekki síst tengd umferðarþunga, umferðaröngþveiti, mengun, hávaða og streitu, samfara því að komast leiðar sinnar í daglegu lífi. Svo virðist sem þeir er búa í borgum séu farnir að líða ótæpilega fyrir þá skipulagsstefnu flestra borgaryfirvalda að láta stöðugt undan þrýstingi tengdum bílnotkun. Afleiðingin er m.a. sú að Alþjóða rauði krossinn áætlar að árið 2020 muni umferðarslys verða orðin þriðja algengasta dánarorsök í heimi, sem og orsök örkumla með tilheyrandi þjáningum. Bílar taka því óumdeilanlega sinn toll af lífsgæðum okkar og því er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að snúa bílvæðingu nútímans til baka hér á landi sem annars staðar, áður en við lendum sama vanda og við blasir úti í heimi. Veigamikill þáttur í þeirri viðleitni er að haga framtíðarkipulagningu þéttbýlis þannig að einkabíllinn sé ekki skilyrðislaust í hlutverki þarfasta þjónsins.
   Flestir sem láta sig dreyma um streituminna og vistænna borgarsamfélag, eru löngu farnir að hallast að þeirri skoðun að iðnvæddum þjóðum hafi orðið á mistök þegar þær veðjuðu á bílinn sem þann kost er best gæti staðist kröfur um aukinn hreyfanleika í borgarsamfélaginu.
   Erlendis hafa ýmis hagsmunasamtök um betri byggð komist að þeirri niðurstöðu að togstreitan sem hverfist um hagsmuni tengda bílum annars vegar og eðlilega þróun borga hins vegar snúist í raun um umfangsmestu hagsmunaárekstra tuttugustu aldarinnar. Það skýtur því ef til vill skökku við, að hér á landi skulum við á næstu 23 árum ætla okkur að eyða 107 milljörðum, í uppbyggingu vega, eða vel rúmum helmingi þeirra hundrað áttatíu og þriggja milljóna sem ætlaðar eru til að standa straum af stofnkostnaði helstu framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu á skipulagstímabilinu. Til viðmiðunar má geta þess að 10 milljarðar fara í uppbyggingu þjónustu við aldraða sem þó fjölgar mjög mikið hlutfallslega á þessum tíma. Núna eiga 96% allra ferða á höfuðborgarsvæðinu sér stað með einkabílum, sem er gífurlega hátt hlutfall, og mettun bílaeignar er slík að nærri lætur að til sé bíll á hvert einasta útgefið ökuskírteini. 
Erindið allt á vef Landverndar

   Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri:
   "Stadtluft macht frei" (þýskt orðtæki)
   Borgarloftið gerir þig frjálsan ...eða víðsýnan...

...Efla vistvænar samgöngur; svo sem almenningssamgöngur og hjólreiðar og fylgjast með framförum í þróun sporbundinna almenningsfarartækja. Er m.a. hugsanlegt að gert verði ráð fyrir mögulegri þróun sporbundinna almenningsfarartækja í nýju aðalskipulagi. Þá er borgin aðili að Evrópuverkefni sem hefur vetnisvæðingu bíla að markmiði. Munum við m.a. gera tilraun með rekstur þriggja vetnisvættra strætisvagna fyrir Daimler-Chrysler.
   Þetta er sú sýn sem við setjum fram en veruleikinn er ennþá dálítið annar. Við búum í samfélagi mikilla mótsagna þar sem við erum öll í orði kveðnu á kafi í umhverfisvernd - sérstaklega þegar hún veldur okkur engum óþægindum - og þykir óskaplega vænt um náttúruna, en erum svo algerlega móralslaus þegar kemur að skipulagi hins manngerða umhverfis sem við ætlum að skila til framtíðar. Það má færa sterk rök fyrir því að vísasta leiðin til að hrasa sé að ætla sér áfram en horfa sífellt um öxl. Með opinni umræðu og þverfaglegri fagvinnu ætti okkur þó að takast að móta það mannlíf sem við viljum sjá hér á Innesjum á næstu áratugum, því enn er umgjörð borgarinnar frá náttúrunnar hendi falleg og mikið til af vel menntuðu ungu fólki, sem án efa vill helst skila til sinna barna betra borgarumhverfi en því sem þau fengu í arf frá eldri kynslóð höfuðborgarbúa.
Erindið allt á vef Landverndar

   Katrín Fjeldsted, alþingismaður:
   Frjáls félagasamtök eru mikilvæg

   Í lýðræðisríkjum hafa frjáls félagasamtök ( Non Governmental Organisations, NGO´s) gegnt sífellt mikilvægara hlutverki undanfarna áratugi. Á þetta ekki sízt við á sviði umhverfismála. Þau veita stjórnvöldum og atvinnurekendum mikilvægt aðhald og sinna bæði fræðslu- og eftirlitshlutverki. Einkenni frjálsra félagasamtaka er að þau eru óháð ríkisvaldinu, hafa sjálfstæðan fjárhag, eru rekin án gróðasjónarmiða og hafa fagleg vinnubrögð að leiðarljósi. Fleiri og fleiri viðurkenna nauðsyn þess að virkja mannauð og þekkingu frjálsra félagasamtaka. Erindið alltl á vef Landverndar

   Eysteinn Björnsson:
   Ekki með fullri reisn

   Á síðastliðnu ári var föstudagurinn 22. september útnefndur bíllausi dagurinn í Evrópu. Eftir því sem fréttir herma lukkaðist þetta tiltæki víða nokkuð vel. Í mörgum borgum var götum lokað fyrir bílaumferð. Þingmenn gengu og hjóluðu á undan með góðu fordæmi og almenningur tók hressilega við sér.
   En á norðurhjaranum í landi hins tárhreina bláma var annað uppi á teningnum. Þær fréttir bárust þegar líða tók á daginn að varla nokkur maður hefði skilist við bíl sinn um morguninn, ekkert fjölgað í strætó og fáir sést á gangi eða á hjóli. Þó var veður hið fegursta og ákjósanlegt til útivista.
   Íslendingar létu sem sagt þessi tilmæli alþjóðasamfélagsins um að sýna samstöðu og draga úr mengun á þessum drottinsdegi sem vind um eyru þjóta. Oft hef ég verið stoltur af þjóð minni og því að vera Íslendingur en þennan dag skammaðist ég mín fyrir landann.    Erindið allt á vef Landverndar

   Stefán Gíslason MSc Umhverfisstjórnun:
   Úlpa með drifi á öllum

   Getur verið að Íslendingar séu á villigötum varðandi val á yfirhöfnum? Erfitt er að alhæfa um þetta, en að minnsta kosti virðist regnfataeign fullorðinna landsmanna fljótt á litið mun fátæklegri en vænta mætti í svo vindasömu og votviðrasömu landi. Ástæðan fyrir þessu getur þó varla verið almenn fátækt, nema þá í undantekningartilvikum. En hvernig stendur þá á því að almennileg hlífðarföt eru svo sjaldséð í forstofuskápum hérlendis? Jú, ætli skýringin liggi ekki einfaldlega í því að hlífðarföt Íslendinga rúmast ekki í forstofuskápum. Þau eru geymd í bílskúrum og á bílastæðum, standandi á fjórum hjólum - og helst með drifi á þeim öllum. Íslendingar eru einhver mesta bílaþjóð í heimi. Skýringar á því liggja meðal annars í dreifðri byggð með miklum vegalengdum og takmörkuðum almenningssamgöngum. En samt er ekki nauðsynlegt að nota bíla fyrir yfirhafnir á mjög stuttum leiðum. Hvers vegna fer fólk á bílnum í vinnuna, út í búð, á leikskólann með börnin o.s.frv., jafnvel þó að allir þessir staðir séu í tíu mínútna göngufæri frá heimilinu? Hvers vegna er ekki frekar valinn sá kostur að klæðast skjólgóðri yfirhöfn og ganga eða hjóla þennan spotta? Erindið allt á vef Landverndar .

   Jón Helgason formaður Landverndar:
   Virkjum fleiri til umhverfisverndar

   Hver ber raunverulega ábyrgð á að leysa umhverfisvandamál líðandi stundar og framtíðarinnar? Eru það Sameinuðu þjóðirnar? Evrópusambandið? Ríkisstjórnin? Sveitastjórnin? Atvinnulífið? Eða ég og þú?

Páll Guðjónsson
© ÍFHK 14/10/2001