Það freistar ekki margra að setjast á reiðhjól núna í skammdeginu, það er myrkur bæði á morgnana þegar við förum til vinnu og á kvöldin þegar við höldum heim, oft er líka rigning og síðan getur rok bæst við þetta allt saman, en við ættum ekki að láta það á okkur fá, við sem erum afkomendur Víkinga!

Ég viðurkenni fúslega að það er þægilegt að geta vaknað klukkutíma seinna en vanalega, klætt sig í þau föt sem maður ætlar að vera í þann daginn, setjast út í bíl og eftir smá stund er maður kominn í vinnuna og þá er bara að finna bílastæði sem næst innganginum, síðan þarf maður aðeins að ganga örfá skref frá bílsætinu og yfir í skrifstofustólinn (ef skrifstofuvinna er ykkar fag). Allt þetta getur maður gert án þess að púlsinn nái að fara yfir 100 slög pr.mín og með stírurnar enn í augunum.

Þeir eru sennilega margir sem þetta á við um og þegar á vinnustaðinn er komið er byrjað á því að fara og ná sér í kaffibolla til þess að geta nú vaknað og í leiðinni er alveg tilvalið að spjalla aðeins við vinnufélagana og síðan má fara að huga að því að gera eitthvað fyrir vinnuveitandann.

Umferðin í Reykjavík á álagstímum hefur þyngst verulega síðastliðin ár og því þurfa bílnotendur að fara að huga að því að leggja nokkuð fyrr af stað til vinnu en þeir hafa verið vanir, því víða myndast tafir í umferðinni og brátt getur færðin farið að spillast, læsingar að frjósa og ekki má gleyma rúðunum sem oft getur tekið drjúgan tíma að skafa. Þegar á vinnustaðinn er komið er ekki sjálfgefið lengur að það sé laust stæði við innganginn og tekur oft langan tíma að finna bílastæði því auðvitað koma allir á sínum einkabíl til vinnu, kannski til þess að geta horft á hann í matar og kaffitímum.

Væri það ekki góð hugmynd ef atvinnurekendur hvettu starfsmenn sína til að nota reiðhjól/strætó til og frá vinnustað, komið væri upp góðri aðstöðu til að geyma hjólin, helst upphituð og einnig væri sett upp bað- og búningsaðstaða á vinnustaðnum. Með þessu myndu sparast fjölmörg bílastæði sem nýttust þá frekar fyrir viðskiptavini fyrirtækisins og starfsfólkið kæmi vel vaknað og hresst til vinnu svo ekki sé nú minnst á bætta heilsu og aukið úthald.

Starfsfólk gæti þá komið með vinnufatnað til vikunnar á mánudegi og farið með hann heim á föstudegi, hægt er að fá mjög góðar vatnsheldar hjólatöskur sem hengjast á bögglabera. Auðvitað eru ekki allir svo heppnir að eiga möguleika á þessu því margir þurfa að hafa með sér mikið af verkfærum og aðrir þurfa að nota bíl við vinnu sína en fyrir stóran hluta vinnandi fólks þá væri þetta leikur einn.

Þeir starfsmenn sem ákvæðu að hjóla til og frá vinnustaðnum fengju styrk frá atvinnurekandanum til hjólakaupa og síðan ákveðna upphæð á ári til viðhalds reiðhjólsins. Margir atvinnurekendur styrkja nú þegar starfsmenn sína til líkamsræktar, einnig hafa lífeyrissjóðirnir styrkt sína sjóðsfélaga til líkamsræktar á viðurkenndum líkamsræktarstöðvum og ættu því alveg eins að geta styrkt þá sem vilja stunda sína líkamsrækt úti við og í leiðinni stuðla að hreinna umhverfi með minni bílaumferð.

Nú segja margir að þetta gangi ekki upp hjá þeim því það þurfi að koma börnunum í leikskólann/skólann en ef t.d. leikskólarnir biðu upp á vaktaðar geymslur fyrir vagna sem hægt er að hengja aftan í hjól þá gæti fólk komið með börnin í vagni, skilið hann eftir á leikskólanum og hjólað til vinnu, síðan sótt barnið og vagninn á leiðinni heim. Eins gætu flest börn hjólað eða gengið í skólann því langflest búa innan 1 km. radíusar frá skólanum, þau sem búa lengra frá geta í dag fengið afhenta strætómiða í skólunum og mesta hættan í kringum skólana er sú að allir eru að keyra börnin sín í skólann á síðustu stundu með tilheyrandi stressi og oft í slæmu skyggni. Hjólageymslurnar í skólunum yrðu að vera vaktaðar t.d. með myndavél. Allt þetta miðast þó við að borgaryfirvöld geri ráð fyrir aukningu gangandi og hjólandi umferðar og bæti allt samgöngukerfið fyrir þessa umferð og einnig yrði að stórbæta snjómokstur og þrif á stígum almennt.

Gaman væri ef hægt væri að setjast á hjólið og leggja af stað á vel merktri hjólaakrein eða hjólastíg sem væri með snjóbræðslulögnum í brekkum og á fjölförnum gatnamótum þar sem ekki væru undirgöng eða brýr fyrir hjólandi og gangandi umferð og bið á rauðu ljósi gæti orðið löng þar væru yfirbyggð skýli úr gagnsæju trefjaplasti (einskonar göng) sem veittu skjól fyrir vindi, úrkomu og drulluúðanum frá umferðinni því það er sannarlega ömurlegt að bíða á rauðu ljósi í rigningu þegar stórir bílar æða framhjá.

Að hjóla í vinnuna tekur ekki meiri tíma en 10-20 mín fyrir flesta og þeim sem finnst það of stutt eftir að hafa klætt sig upp og eru rétt að verða heitir þegar á vinnustaðinn er komið geta þá bætt við sig og farið aðeins lengri leið. Nýleg rannsókn sem vitnað var í í fréttatíma fyrir stuttu benti einmitt til þess að rösk hreyfing tvisvar eða oftar á dag í stuttan tíma gæfi betri árangur en ein löng og erfið æfing.

Jói Leós.

© ÍFHK Okt.2000