Það er nú ekki á hverjum degi sem maður sest niður til að ausa úr skálum reiði sinnar en nú finnst mér nóg komið af þegjandahætti og aðgerðaleysi af minni hálfu. Það er nú svo að þegar vissum þröskuldi er náð í andlegu jafnvægi, vegna utanaðkomandi áreitis, verður eitthvað undan að láta. Hvað mig persónulega varðar, er það hið margrómaða góðlyndi og "ekkert-stress-bara-hress- syndróm" sem lætur undan. Í staðinn kemur upp lítill púki sem skammast út í alla og vill hafa skoðanir á hlutunum, byggðum á reynslu liðinna ára. Flestir kalla þetta tuð og aðrir kalla þetta öfund út í almenning og árás á samborgarana, en í raun er hér á ferðinni ósköp venjuleg skoðun þess sem fær að kenna á "umferðarmenningunni" í hvert skipti sem hann vogar sér út fyrir hússins dyr. Já, ég er hér að tala um íslenskan raunveruleika og martröð fyrir marga; alla (hina) bílstjórana.

Það skal tekið fram áður en lengra er haldið að ég fer, þrátt fyrir bílprófið, nánast allra minna ferða á reiðhjóli. Þannig að þeir sem ekki þola lífræna umferð á götum borgarinnar, geta hætt að lesa og snúið sér að öðru.

Ég hef margítrekað rekið mig á þá staðreynd að íslenskir bílstjórar eru vel flestir hættulegasta dýrategund sem manni getur órað fyrir. Manni líður oft eins og mús í miðju stóði blindra nashyrninga, sem vaða stefnulaust áfram í kappi við aðra að komast að næstu rauðu ljósum. Þar raða þeir sér svo upp við ráslínuna (oftast þó vel fram fyrir til að ná góðu þjófstarti) og brenna svo af stað flautandi og pústandi í blindri bræði, leitandi að lausri smugu og betra plássi við næstu ráslínu. (Ráslína gengur einnig undir nafninu "stöðvunarlína", en ég hef ekki séð hana virka í raun). Meginmarkmið hjá bílstjórunum er aðeins það að vera EKKI fyrir aftan aðra bílstjóra, og að verða fyrstir að næstu rauðu ljósum. Ef svo brennur við að hjólreiðamaður er að væflast um á hinum háheilaga blikkbeljustíg sem gatan er, líta bílstjórar á það sem verstu móðgun og beita beljunni fyrir sig við að koma þessum aðskotahlut innundir og afturfyrir sig sem allra fyrst.

Í allmörgum tilvikum eru svo bílstjórar þessir malandi með gemsann í annarri, kók í hinni og litla nagaða pulsu með öllu milli lappanna!! Þarna vingsast þeir sumsé um göturnar í keppni um að komast framúr og hver smuga er nýtt til hins ýtrasta. Jafnvel þótt hlutir eins og gangandi eða hjólandi séu á sveimi í stuðarafæri. Mér reiknast svo til að stór meirihluti bílstjóra hér á landi eru gersamlega gersneyddir öllu því sem heitir tillitssemi, kunnátta í umferðarlögum, þekking á notkun stefnuljósa og allri virðingu fyrir umhverfi sínu.

Ég get ekki talið öll þau tilfelli þar sem óvitar í umferðinni ösla áfram án þess að gefa nokkurn tíma stefnuljós og leggja þar með alla í stór hættu. Hins vegar er flautunni óspart beitt, þannig að úr verður eintóna kakófónískur hávaði og leggst þar með ofan á allan annan gauragang sem fylgir þessum heilögu blikkbeljum flestallra íslendinga. Í raun er notkunarleysi stefnuljósanna sér kapítuli í íslenskri umferðarómenningu.

"Palli var einn í heiminum" stendur einhverstaðar, og að sama skapi telur bílstjórinn sig vera einn í umferðinni og hagar sér sem slíkur. Aðrir bílstjórar eru hreinlega ekki til eða í versta falli flækjast þeir fyrir. Engum kemur við hvert bílstjórinn er að fara. Það er hreinlega brot á friðhelgi einkalífsins og aðrir verða bara að fylgjast vel með og halda sig í fjarlægð. Þeir sem hafa fylgst með íslenskri umferð vita að svona virkar þetta ekki til lengdar. Í fyrsta lagi er umferðin svo þétt að varla vatnar á milli stuðara, og þar sem flestir bílstjórar hugsa eins, endar allt á einn veg; árekstrar, öngþveiti og örkuml og stundum dauða. En þetta er kannski svona nútíma útgáfa af "vali náttúrunnar", eða svona "þeir kræfustu lifa". Eitt er þó víst að umferðin hér sem erlendis tekur sinn toll og það stórann, en í nútíma samfélagi virðast menn ekki taka eftir því fyrr en dauðinn knýr dyra hjá þeim sjálfum.

Sagt er að ofbeldis- og klámmyndir í sjónvarpinu hafi slæm áhrif á börn og unglinga. Það má vel vera að óvitar og veikgeðja fólk rugli saman sjónvarpsefni og raunveruleikanum og víst er að sjónvarpsefni eins og Formúla 1 hafi verulega slæm áhrif á bílstjóra. Í huga bílstjórans eru götur Reykjavíkur ekkert annað en keppnisvöllur fyrir þá og koltvísýringskýrnar þeirra, og keppnin er svona sambland af formúlu 1 og krónubílakrossi. "Reglur eru til þess að brjóta þær og í versta falli fyrir aðra" er mottó sem er vel þekkt í umferðinni þegar keppnisandinn heltekur bílstjórana.

Mannvirkjagerð og samgöngubætur fyrir hjólafólk hafa verið í örum vexti undanfarin ár, þó enn sé himinn og haf í að gott verði. Öll hönnun og nýsmíði miðast út frá bílaumferðinni og öllum þeim mannvirkjum sem henni fylgir. Eins og vera ber og heyra má er ég mikið á hjóli í umferðinni. Göngustígarnir eru, eins og nafnið gefur til kynna, ekki hjólabrautir. Þeir eru sumir hverjir það illa hannaðir að þeir teljast varla gönguhæfir, hvað þá að gert sé ráð fyrir reiðhjólum á þeim. Örfáir "sérhannaðir" göngu-og hjólastígar eru þó til, en því miður eru þeir ekki að fullu sú samgöngubót sem menn óska sér. Stígar þessir eru ætlaðir bæði gangandi og hjólandi umferð, og þar af fá hjólreiðamenn 1/3 af stígnum, eða um 50 cm lænu.

Þó nokkur krókur er fyrir flesta í þá, en flestir vilja jú fara stystu leið í skóla eða vinnu og heim aftur. Fyrir þá sem líta á hjólið sem samgöngutæki, eru því göturnar einu leiðirnar. Þar bíða svo nashyrningar gatnanna eftir manni og kyrja sinn söng. (Fram fram, aldrei að víkja, fram fram, yfir menn og hjól...). Það er svo sem auðvelt að sitja fyrir framan tölvuskjáinn og heimta úrbætur og aðgerðir í skipulagsmálum til handa "mjúku umferðinni", en er þó kannski skárra en að þegja þunnu hljóði og láta vaða (og keyra) yfir sig. Stórar og kraftmiklar aðgerðir að "franskri fyrirmynd" eru kannski út úr kortinu hér uppá fróni, alla vegna er ekki hefð fyrir þeim, því miður. En alltaf kemur sú hugsun upp í höfuð manns aftur og aftur að núna sé komið nóg.

Ég gæti tuðað og tafsað nokkrar síður í viðbót, en tel að nóg sé komið í bili. Ég vil þó minnast þáttar sem var í sjónvarpinu fyrir nokkru og hét "Lífið milli húsanna" eftir Jan nokkurn Gehl, Danskan umhverfisverkfræðing sem sérhæfir sig í borgarskipulagi og hvernig hægt sé að hanna borgir með þarfir fólksins í huga en ekki bílsins. Í þessum þætti fékk Reykjavík vægast sagt slæma einkum sem borg bílsins, og miðað við nýjustu tölur í þessum efnum; 6000 einkabílar á skrá umfram ökuskírteini, er ekki nema von að manni langi til að kreppa hnefann og berja í borð þeirra sem hér ráða ríkjum í umferðar- og skipulagsmálum.

Og að lokum þetta. Þegar sjálfur "umhverfisráðherrann", sú hálf norska belja Siv Friðleifsdóttir keyrir um milli alþingis og stjórnarráðs og veitir "Gullna stýrið" í einhverskonar fegurðarsamkeppni bílaumboða, verður þess vart langt að bíða að Steingrímur Njálsson verður gerður að umboðsmanni barna á Alþingi.

Jón Örn Bergsson

© ÍFHK 2001