Um landið og borgina hafa verið lagðir vegir þar sem öll umferð landsmanna á að fara um. Víða eru síðan gangstéttir og stígar fyrir gangandi þar sem hjólreiðafólk má fara um sem gestir, að því tilskyldu að þeir trufli ekki umferð gangandi.  Umferðin á götum borgarinnar getur verið hættuleg og illa er búið að umferð hjólandi þar sem götur eru oft þröngar og hraði mikill.  Þar til  hjólabrautir hafa verið lagðar verða ökumenn samt að deila götunum með hjólreiðafólki.

Það virðist stundum skorta skilning á þessu og stundum þar sem síst skildi eins og t.d. hjá Lögreglunni í Reykjavík eins og skjalfest er og lesa má um hér.  Þetta er saga Sigurðar M. Grétarssonar sem var á heimleið dag einn, úr vinnu sinni þegar hann var stöðvaður af lögreglunni og síðar sent sektarboð fyrir það að hjóla á götunni og neita að hlýða tilmælum lögreglu um að fara af götunni.  Vegfarendur eiga að hlýða tilmælum lögreglu í umferðinni en lögreglan verður líka að hafa gildar ástæður þegar hún gefur tilmæli til fólks um að breyta út frá umferðarlögum. Svo var ekki í þetta skipti sem sannast af því að þetta mál var látið niður falla eftir að Sigurður fundaði hjá lögreglustjóraembættinu með tveim fulltrúum frá Íslenska Fjallahjólaklúbbnum sér til aðstoðar.

Lesið alla söguna. PG

   Árekstur við yfirvöld

   Hér fer á eftir saga Sigurðar M. Grétarssonar á heimleið dag einn, úr vinnu sinni.  Samkvæmt lögregluskýrslu hljóðar sagan svo:

 

Urðum við vör við Sigurð þar sem hann var að hjóla suður Snorrabraut á akbrautinni. Þá urðum við vör við að það ók bifreið í veg fyrir hann. Ókum við að honum og báðum við hann um að hjóla á gangstéttinni sökum mikillar umferðar. Sigurður var ekki ánægður með þessa athugasemd tilkynnti okkur að hann ætlaði að hjóla á akbrautinni þrátt fyrir tilmæli lögreglu. Að því loknu hjólaði hann á brott.

Fylgdum við honum vestur Hringbraut og tókum eftir að bifreiðar sem voru á þeirri akrein þurftu að víkja yfir á hina til að aka ekki á hann.

Höfðum við aftur tal af honum þar sem hann var á ljósum á Hringbraut og Njarðargötu.  Sigurður var ekki ánægður með afskipti lögreglu og taldi það fullan rétt sinn að hjóla á akbrautinni. Ekki rengdi ég það en benti honum á að sökum hættu væri hann beðinn um að hjóla á gangstéttinni. Brást hann hinn versti við og fór að vitna í hinar og þessar reglugerðir. Einnig kvað hann ekki gott að hjóla upp á  þá kanta sem voru á gangstéttinni og meiri tafir hlytust af að hjóla þar. Aftur benti ég honum á að hjóla á gangstéttinni sökum mikillar umferðar og hættu sem stafaði af honum í umferðinni.

Eftir að hafa rætt um stund við Sigurð og ég var komin inn í lögreglubifreiðina, hjólaði hann beina leið út á akbrautina aftur.

 

 

   Þetta er orðrétt skýrsla lögreglunnar um atburðinn.  Svo fékk Sigurður sektarboð vegna brota á 5 gr. Umferðarlaga um leiðbeiningar fyrir umferð. Sem rituð er svo:

 

Vegfarandi skal fara eftir leiðbeiningum um umferð, sem gefnar eru með umferðarmerkjum, umferðarljósum eða hljóðmerkjum eða öðrum merkjum á eða við veg, sbr. 84 gr.  Leiðbeiningar þessar gilda framar almennum umferðarreglum.

Leiðbeiningar gefnar með umferðarljósum gilda framar leiðbeiningum um biðskyldu og stöðvunarskyldu samkvæmt umferðarmerki.

Vegfarandi skal fara eftir leiðbeiningum um umferð, sem lögreglumaður eða sá annar, sem dómsmálaráðherra hefur heimilað að stjórna umferð, gefur. Þær leiðbeiningar gilda framar leiðbeiningum,sem gefnar eru á annan hátt.

 

   Ekki vildi Sigurður sæta þessu og fékk tvo fulltrúa  frá Íslenska Fjallahjólaklúbbnum með sér á fund lögreglustjóraembættisins. Var málið rætt og síðan ákvað Sigurður að kæra kæruna. Lyktir málsins urðu þær að 28. ágúst 2000 var Sigurði tilkynnt að málið væri látið niður falla.

   Allt vekur þetta mann til hugsunar um  beitingu slíkra ákvæða við svo einfaldar aðstæður sem í þessu tilviki og svo hvers vegna var til dæmis bifreiðin sem lýst er í skýrslunni að hafi beygt fyrir Sigurð, ekki stöðvuð. Allt þetta mál sýnir okkur að lagaflækjur geta leitt til þess að saklausir borgarar sem eru í sínum réttmæta tilgangi, á lögmætum stað, við lögmæta iðju, geta auðveldlega verið að brjóta af sér.

   Til fróðleiks vil ég birta orðrétt bréf frá Lögreglustjóraembættinu í Reykjavík  Til Borgarinnar og samtaka kaupmanna við Laugaveginn frá 17. nóvember 1995 undritað af Yfirlögfræðingi Sturlu Þórðarsyni.

  Í  4. málsgrein 39.gr. umferðarlaganna nr. 50/1987 segir að heimilt sé að hjóla á gangstéttum, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu og óþægindum.

Skv. þessu er það mat á aðstæðum hvort hjólreiðar valdi hættu og óþægindum, og fer það eftir staðháttum og fjölda gangandi vegfarenda. Hverjum ber að meta þessar aðstæður? Því er ekki svarað í nefndri grein. Er það hjólreiðamaðurinn sjálfur, lögreglan, borgaryfirvöld eða lögreglan og borgaryfirvöld í sameiningu?

Hætt er við að mat hjólreiðamannanna verði nokkuð mismunandi og stjórnist oft fremur af þörf þeirra eða löngun til þess að hjóla ákveðna leið, fremur en tilliti til gangandi vegfaranda.

Mat lögreglumanna á þessum aðstæðum getur einnig verið mismunandi og nokkuð öruggt að í mörgum tilvikum er það ekki í samræmi við álit hjólreiðamanna hverju sinni, slík tilhögun mundi bjóða upp á stöðugan ágreining milli lögreglumanna og hjólreiðamanna varðandi þetta atriði.

Markvissasta leiðin er að lögregla og  borgaryfirvöld meti í sameiningu hvort gangandi vegfarendum stafi hætta af hjólreiðum, þar sem slíkt samrýmist ekki öryggi gangandi vegfarenda.

 

   Bæði þessi nefndu mál knýja á um það að stígar þeir og stéttir sem ætlaðar eru hjólandi umferð verði sérstaklega merktir og að hjólareinar verði lagðar og merktar á götum og þjóðvegum. Því hlýtur að vera knýjandi nauðsyn að samgönguyfirvöld ríkis og bæjarfélaga taki sig til og geri lagalegar betrumbætur og framkvæmi  svo jafn og þétt eftir því sem fram vindur merkingum og stígagerð. 

   Björn Finnsson

Bót á stígum betra líf
Bílum fjarri vera,
Líkams hreysti í líf mitt dríf
Létt má hjólið bera.

 


Ein af fjölmörgum athugasemdum um þetta mál á umræðusíðunni okkar: 

Athyglisvert var að lesa um útistöður Sigurðar M. Grétarssonar við lögreglu á Miklubrautinni í Reykjavík. Þegar ég fór til Reykjavíkur í skóla 1988 notaði ég Miklubrautina mikið til hjólreiða og þótti ekki tiltökumál. Á þeim tæpu tíu árum sem ég var meira og minna í höfuðborginni jókst umferð svo mjög að ég var löngu hættur að þora að hjóla á Miklubrautinni. Mér fannst það beinlínis hættulegt og í raun var mér farið að finnast að reiðhjól ættu þar alls ekki heima. Auðvitað er maður ekki sáttur við að ekki skuli liggja viðunandi hjólabrautir með fram samgönguæðum eins og Miklubraut en ég verð að segja að ég hef ekki mikla samúð með hjólreiðamönnum sem leggja sig í þá lífshættu að hjóla á Miklubrautinni og sambærilegum götum.

Ég er ekki viss um að það þjóni hagsmunum hjólreiðamanna að þeir þráist við að hjóla innan um bíla á götum eins og Miklubraut. Við hjólreiðamenn megum ekki koma á okkur því óorði að við séum sérvitringar sem berjist við bílana eins og Don Kíkóti barðist við vindmyllurnar forðum. Við eigum ekki að vera þekkt fyrir að setja okkur sjálf og aðra í hættu. Þvert á móti eigum við að vera áberandi á þeim stígum sem fyrir eru og berjast svo málefnalegri baráttu fyrir einhverju betra. Þeim mun fleiri hjól sem sjást á ferli þeim mun betri auglýsingu fáum við fyrir málstað okkar. Barátta samtaka hjólreiðamanna er raunar mjög málefnaleg, margir liðsmenn góðir, og baráttunni þarf að halda áfram.

Ég skil vel reiði Sigurðar en ég skil ekki síður vel afstöðu lögreglu. Það er ekki nóg með að hjólastígana vanti með Miklubrautinni heldur er gatan í raun allt of mjó fyrir þá bílaumferð sem um hana fer. Það sést ef borið er saman við stofnbrautir í útlendum borgum.

Hjólreiðamenn! Stöndum saman, hjólum sem mest, fáum fleiri til að hjóla, þrýstum á að lagðir verði hjólastígar en látum vera að stilla okkur upp sem furðulegum og fráhrindandi sértrúarsöfnuði.

Bílar eru og verða á sínum stað í gatnakerfinu en við viljum fá að vera þar líka - á okkar stað.

Bestu kveðjur.

Pétur Halldórsson á Akureyri