Mikið hefur verið fjallað um breikkun Reykjanesbrautar og þar hefur komið fram það sjónarmið samgönguráðherra að banna jafnvel hjólreiðar á brautinni. Flestir eru sammála um að ekki sé hægt að hjóla í allri þeirri miklu og hröðu umferð sem líklega verður á Reykjanesbrautinni. Í hvassviðri er mjög erfitt að hjóla þegar rútur og aðrir stórir bílar þjóta fram hjá, rétt við hlið hjólreiðamannsins...

Lesið allan pistil Öldu Jóns sem birtist í MBL 26/5/2001 hér:

Reiðhjólafólk og Reykjanesbraut

Mikið hefur verið fjallað um breikkun Reykjanesbrautar og þar hefur komið fram það sjónarmið samgönguráðherra að banna jafnvel hjólreiðar á brautinni. Flestir eru sammála um að ekki sé hægt að hjóla í allri þeirri miklu og hröðu umferð sem líklega verður á Reykjanesbrautinni. Í hvassviðri er mjög erfitt að hjóla þegar rútur og aðrir stórir bílar þjóta fram hjá, rétt við hlið hjólreiðamannsins. Samt sem áður er það svo að hjólreiðafólk á samkvæmt umferðalögum að hjóla á götunum og telst því hluti af þeirri umferð sem samgöngukerfið þarf að bera. Ef banna á hjólreiðar eftir Reykjanesbrautinni verður að leggja hjólavegi með fram brautinni enda leysir slíkt bann engan vanda. Hefur komið fram að við hönnun brautarinnar að er gert ráð fyrir fimm metra öryggissvæði beggja vegna vegarins. Við brún þessa öryggissvæðis er kjörið að leggja hjólaveg án þess að auka þurfi það jarðrask sem verður við vegagerðina hvort sem er. Draumalausnin væri reyndar sú að leggja sérstakan hjólaveg í hrauninu og velja honum stystu og sléttustu leiðina og helst sem lengst frá hávaða-, sjón- og loftmengun bílaumferðarinnar.

Í norsku ferðablaði voru teknar saman tölur um fjölda hjólandi ferðamanna í Noregi og öðrum Evrópulöndum. Með þessu vildu Norðmenn glöggva sig betur á hinum stækkandi hópi hjólandi ferðafólks sem verður æ meira áberandi í ferðaþjónustunni. Sýndu tölur frá ýmsum löndum að hjólandi ferðamenn eru frá 2% allra ferðamanna þar sem þeir eru fæstir en í Austurríki og Danmörku var tala þeirra 12%. Athyglisvert var að þessir hjólandi ferðamenn voru ekki félausir stúdentar heldur var mikill meirihluti þeirra háskólamenntað fólk á miðjum aldri, í góðum stöðum og með tekjur yfir meðallagi. Þetta var fólk sem vildi vera úti í náttúrunni og njóta þeirrar kyrrðar og fegurðar sem hægt er að upplifa þar. Ef til vill er þetta nokkuð sem við á Íslandi gætum haft áhuga á að efla. Á síðasta ári komu hingað yfir 300.000 ferðamenn og ef við tökum lægstu hundraðstöluna, 2%, fáum við út 6.000 hjólreiðamenn.

Erfitt verður fyrir hjólandi ferðamenn að koma til Keflavíkur, rekast á bannskilti á aðalveginum og neyðast til að fara Krýsuvíkurleiðina sem er að sjálfsögðu ekki skemmsta leið milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkur. Reiðhjól fást ekki flutt með rútum á þessari leið og erfitt væri að skylda rútufyrirtækin til þess þar sem fjöldi hjólreiðamanna er mjög mismunandi, bæði eftir því hvenær og hvaðan hjólreiðafólkið kemur eða hvenær og hvert það er að fara. Einnig væri mjög góður kostur að geta hjólað á Suðurnesin og í Bláa lónið héðan af höfuðborgarsvæðinu og ekki vafi að margir myndu nýta sér þann möguleika ef aðstaða væri til þess, bæði innlent og útlent hjólafólk. Myndarlegur hjólavegur á skemmtilegum stað myndi fjölga þeim ferðamöguleikum sem við gætum boðið upp á.

Nú hefur heyrst að Vegagerðin hyggist telja hjólandi ferðamenn á Reykjanesbrautinni í sumar. Það er gott og gilt en með slíkum talningum fáum við einungis að vita hversu margir ferðamennirnir eru nú, en ekki hver raunveruleg þörf er fyrir hjólaveg á þessari leið. Hér á höfuðborgarsvæðinu hefur sýnt sig að hjólreiðar hafa aukist gífurlega þar sem göngu- og hjólastígar hafa verið lagðir. Lítið hefði þýtt að telja þessa fáu sem löbbuðu eða hjóluðu eftir Fossvoginum áður en stígarnir voru lagðir og meta þörfina á göngu- og hjólastíg út frá því . Hæpið er að halda því fram að þeir sem syntu í sjónum áður en sundlaugar komu til sögunnar hafi orðið til þess að menn réðust í að reisa sundlaugamannvirki um allt landið.

Það hefur sýnt sig að sú aðstaða sem komið er upp til samgangna og útivistar er vel nýtt. Oft erum við hjólreiðafólk spurð að því hvað margir hjóli á Íslandi og því miður hafa ekki margar talningar farið fram. Þó stóð Umferðarráð fyrir talningum hér í Reykjavík á nokkrum gatnamótum og sýndu þær tölur alltaf aukningu frá ári til árs. Einnig stóðu Landssamtök hjólreiðafólks fyrir talningu seint í september í fyrra og þá kom í ljós að 320 voru hjólandi á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar frá kl. 8 til 19. Þegar flest var voru taldir 50 hjólandi á klukkustund. Líka má nefna að sala á nagladekkjum undir reiðhjól hefur stóraukist. Selst hafa yfir 1.000 nagladekk. Þetta eru dýr dekk og því má reikna með að fólk kaupi þau ekki til annars en að nota þau svo að þetta gefur okkur dálitla hugmynd um þann fjölda fólks sem notar reiðhjólið allt árið.

Allar þær tölur sem hér hafa verið tíundaðar sýna svo ekki verður um villst að þörf er á að skipuleggja og byggja upp gott samgöngunet fyrir hjólafólk. Umhverfisnefnd Alþingis lagði fram þingsályktunartillögu á nýliðnu þingi um skipun nefndar sem skyldi marka stefnu um hönnun og merkingu hjólabrauta. Fögnum við hjólreiðafólk mjög þessari þingsályktun sem því miður náðist ekki að afgreiða fyrir þingslit. Því verðum við hjólafólk að bíða til haustsins eftir að eitthvað gerist í skipulagsmálum okkar sem viljum nota hjólið sem samgöngutæki, hvort sem er að staðaldri eða hluta úr ári.

Alda Jónsdóttir
Höfundur er formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins.

 

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 26. maí 2001.
© ÍFHK 2001