Framkvæmdir eru byrjaðar á stígunum meðfram Miklubrautinni sunnanmegin og að venju eru þær illa merktar og ekki bent á hjáleiðir þar sem stígar eru lokaðir eða hafa reyndar verið fjarlægðir. Frekar en að fjalla um það í löngu máli bendi ég á fyrri dæmi á sama stíg sem hefur verið lokað heilu og hálfu árin undan farin ár.  Þarf nú að fara yfir tvær innanhverfisgöngubrýr til að komast í stórum krók framhjá mislægu gatnamótunum við Réttarholtsveg.  

Heldur hefði ég viljað fá göng undir gatnamótin svo stígurinn sunnan Miklubrautar væri ekki lokaður og að peningurinn sem fór í brýrnar hefði farið í að byggja upp stofnbrautakerfi um borgina sem voru veitt fyrirheit um í Aðalskipulagi frá 1996. Þar stóð "Unnið er að því að bæta göngu- og hjólreiðaleiðir til þess að hjólreiðar og ganga geti orðið öruggur og raunhæfur ferðamáti á styttri leiðum."

Hjólreiðamenn þurfa að fara að vera enn gagnrýnni á hvað er verið að gera í stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðafólk. Mér finnst lítið hafa verið gert fyrir utan flágavæðingu gatnamóta. Göngubrýrnar tvær yfir Miklubrautina og brúin yfir Kringlumýrarbraut hjá Borgartúni eru bara innanhverfisbrýr fyrir fólk sem gengur í skólann eða Hagkaup en eru ekki partur af stofnbrautakerfi. 

Ársgamall stígur við Ánanaust
  
Ársgamall stígur við Ánanaust
   Þarna er ekki byggt til framtíðar og augljóst að þar   sem stígur fer svona á einu ári er ekki um að ræða "göngu- og hjólreiðaleiðir" sem verða " til þess að hjólreiðar og ganga geti orðið öruggur og raunhæfur ferðamáti á styttri leiðum." 

Fyrsta brúin yfir Kringlumýrarbraut og sú sem er undir Gullinbrú eru partur af stofnbrautakerfi. Flestir nýjir stígar meðfram ströndinni eru útsýnis og útivistarstígar, ágætir í góðu verðri en ekki partur af stofnbrautakerfi þegar fer að hvessa og sjórinn gengur yfir þá.  Í raun hefur kannski ekkert verið gert í því að útbúa stofnbrautakerfið sem er búið að vera á Aðalskipulagi í mörg ár. 


Hvernig er leiðin úr Skeifunni í Árbæjarhverfi til dæmis?  Meðfram Bústaðaveg? Meðfram Sæbraut? Meðfram Eiðisgranda er verið að klára nýjan særoks-stíg sem liggur að kaflanum meðfram Ánanaustum.  Það er komin reynsla á svona stíga eins og sést á myndunum.


Páll Guðjónsson 

   Stígurinn meðfram Eiðsgranda sem verið er að leggja núna liggur síðan að stígnum við Austurströnd sem hefur skolað í burtu í særokinu þarna eins og sjá má á þessum myndum sem voru teknar í september 2000.
Ársgamall stígur við Ánanaust