9. október 2000 sýndi Ríkissjónvarpið fróðlegan þátt þar sem danski arkitektinn Jan Gehl fjallaði um skipulag í borgum á Norðurlöndunum og áhrif þess á íbúana. Reykjavík fékk vægast sagt  falleinkunn hjá honum. Í þættinum sagði meðal annars:

"Reykjavík er aftur á móti sniðin eftir þörfum bílsins. Erfitt er að fara um gangandi, fjarlægðir eru svo miklar. Við erum í umhverfi sem er miðað við 50km hraða, hraða bílsins.

Í einbýlis og raðhúsunum er bílskúrinn aðalinngangur húsanna. Við fjölbýlishúsin setja bílastæðin mestan svip á umhverfið. Þegar íbúarnir halda burt, þarf ekki annað en að setjast upp í bíl og aka brott." 


Margar akgreinar fyrir bíla, 
en hvar á fólk að ganga?

"Peter Butenchen, arkitekt frá Noregi, vinnur að verkefni sem ætlað er að skapa lifandi borgir.  Hann starfar með Jan Gehl við að skilgreina og afmarka þörf nútímamannsins til samneytis við aðra. Peter Butenchen telur nauðsyn á því að maðurinn vinni aftur borgirnar af bílnum." 

"Við göngum út frá því að bíllinn eigi sinn eðlislæga rétt til að vera úti um allt í borginni.  Þannig megum við ekki hugsa.  Bílinn eigum við að nota þar sem rými er fyrir hann og þar sem hann er ekki til óþurftar.  Inni í borgarkjörnum á hann ekki heima.  Bílnum má aka inn í borgirnar en menn eiga ekki að vafra um miðborgina í bifreið sinni.  Félagslega borgar það sig ekki, menn hitta engan.  Bíllinn tekur of mikið rými og hann skapar hættu."  

"Í sjálfu sér er ekkert athugavert við bíla, a.m.k. ekki minn bíl.  Öðru máli gegnir um þinn bíl, hann truflar mig.  Við verðum að meta hversu langt við hleypum honum.  Hvar verður hann of krefjandi, hvar tekur hann of mikið pláss?"  

Í þættinum var sýnt hvernig má með góðu skipulagi hanna hverfi til að vera mannvænleg, þar sem fólk hefur næði til að hittast og athafna sig.  Þar sem fólk hrökklast ekki inn úr kuldalegu umhverfi og umferðarhávaða og lokar á eftir sér.  Jafnvel hvernig má með góðri hönnun fjölga góðviðrisdögunum í hverfum.

PG - Mynd úr þættinum