Hjólreiðamenn hafa lengi barist fyrir aukinni og bættri aðstöðu hvort sem er til útivistariðkunar eða til samgangna. Rök eða skýring yfirvalda á því að ekkert eða lítið sé gert, er oftar en ekki að það hjóli svo fáir á Íslandi og þá helst bara útlendingar. Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) ákváðu að gera lauslega athugun á því hversu margir hjóli í raun og veru með því að telja hjólreiðamenn annars vegar á nokkrum gatnamótum milli klukkan 7 og 9 að morgni og hins vegar á einum gatnamótum yfir heilan dag. Stefnt er að því að halda þessari athugun áfram svo nákvæmara mat fáist.

gle11-1.gif

Niðurstöður morguntalningar 27. júní 2000. Milli klukkan 7.00 og 9.00.

Fyrri talningin var þriðjudaginn 27. júní . Veðrið þennan dag var með vesta móti, veðurspáin  klukkan 22.10 kvöldið fyrir talninguna hljóðaði svo „ Suðurland, Faxaflói. Austan 10-15m/s og 18 á stöku stað með rigningu í nótt og á morgun, hvassast sunnantil. Fer að snúast til hægari suðaustanáttar annað kvöld. Hiti 9 - 16 stig.” Niðurstöður talningarinnar voru samt ekki eins slæmar og kannski hefði mátt búast við.

Flestir hjólreiðamenn voru taldir á gatnamótum Hringbrautar og Bústaðavegar, 53 á þeim tveimur klukkustundum sem voru taldar. Það eru að meðaltali 27 hjólreiðamenn á klukkustund en stærsta klukkustundin innan þessara tveggja tíma voru 33 hjólreiðamenn. Á þessum sömu gatnamótum má ætla að séu milli 60 - og 70 þúsund ökutæki á sólarhring.

gle11-2.gif

Niðurstöður talningar 28. september 2000. Milli klukkan
7.00 og 19.00 á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.


Síðari talningin var fimmtudaginn 28. september síðastliðinn. Þá voru taldir hjólreiðamenn á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þann dag var yndislegt haustveður, bjart og stillt, hiti 4 - 13° yfir daginn. Það er styðst frá því að segja að 320 hjólreiðamenn töldust á gatnamótunum yfir daginn, flestir 50 á einni klukkustund, en það gerðist þrisvar síðdegis.

Þetta eru mun hærri tölur en flestir áttu von á. Hafa verður í huga að talningin var gerð seint í september þegar ætla má að margir hafi lagt hjólum sínum fyrir veturinn.

Þessar tvær talningar eru vonandi byrjunin markvissum talningum á hjólreiðamönnum. Því með því að vita hversu margir hjóla, hvert hjólreiðamenn eru að fara og á hvaða tíma þeir hjóla er hægt að færa haldbærari rök fyrir bættri aðstöðu og fá betri hugmynd um hvar og hver þörfin er. Það er því ósk LHM að félagsmenn bregðist vel við þegar leitað er til þeirra um að taka þátt í þessu starfi. Það eru víst einhverjir sem hjóla!

LHM hafa verið að vinna að fleiri málum á undanförnum mánuðum, t.d. voru gerðar formlegar athugasemdir við breikkun Miklubrautar sem nú hefur verið hafin. Á vef LHM eru færðar inn allar nýjustu fréttir af starfinu.

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, formaður LHM.