Erindi futt á Umferðarþingi 2000

 

1        Inngangur

Sæl. Ég heiti Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir og er verkfræðingur á Línuhönnun og formaður Landssamtaka hjólreiðamanna.

Á hverju ári eru flutt inn til landsins um 15.000 reiðhjól (1), varlega áætlað. Það er kannski ekkert á við alla bílana í landinu en það er samt nokkuð mikið. Ef ég geri ráð fyrir að endingartími reiðhjóls sé að meðaltali 8 ár, þá eru 120 þúsund reiðhjól í umferð þessa stundina. Trúlega eru þau þó enn fleiri. Til samanburðar þá eru voru 150 þúsund fólksbifreiðar skráðar á landinu 31.desember 1999.

Vissuð þið líka að það eru 110 ár síðan fyrsta reiðhjólið var flutt til landsins. Það var árið 1890, 14 árum áður en fyrsti bíllinn var fluttur inn.
h1920-30.jpg
Fyrir framan Iðnó 1920-1930. Ljósmyndari Magnús Ólafsson. Ljósmyndastofa Reykjavíkur.

Það sem er enn þá merkilegra er að á Íslandi eru enn engir eiginlegir hjólreiðastígar. Hjólreiðamenn hjóla ýmist á gangstígum eða vegum, og eru gestir á báðum stöðum. Á göngustígum, gestir samkvæmt lögum. En í umferðarlögum stendur:

Heimilt er að hjóla á gangstétt og gangstíg, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Hjólreiðamaður á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum. (39.gr. 50/1987)

En á götum hafa þeir stöðu gests vegna þess hve illa er að þeim búið og lítið tillit tekið til þeirra.

2        Öryggi á stígum

Ég ætla að fjalla um öryggi hjólreiðamanna á göngustígum og tala þá um göngustíga sem hjólreiðastíga. Ég hef kosið gera það út frá þremur sjónarhornum:

q       Geómetríu stíga og gatnamóta. 
Hæðarlega, planlega, breidd þverhalli, gatnamót…

q       Umhverfi, viðhaldi, merkjum og búnaði stíga. 
Yfirborð, ljósastaurar, skilti, vegmerkingar, bílar, snjómokstur, götusópun…

q       Hjólreiðamanni og búnaði reiðhjóls. 
Hjól, dekk, ljós, hjálmur, endurskin, sjón…

Af hverju góða hjólreiðastíga?

Öryggi hjólandi 
Öryggi ökumanna 
Öryggi gangandi

slide0006_image012.jpg

Það er ávinningur allra að hafa góða og örugga hjólreiðastíga. Öruggir og góðir hjólreiðastígar hvetja til notkunar á reiðhjólinu sem aftur getur dregið úr umferð bíla. Ekki þarf að ræða ávinninginn af því að fækka bílum á götum höfuðborgarsvæðisins. Góðir stígar draga einnig hjólreiðamenn af vegum og götum. En það er ljóst að vegir og götur eru engan veginn öruggir fyrir hjólreiðamenn. Hraðamunur farartækjanna er mikill og ekkert rými ætlað hjólreiðamönnum. Góðir stígar auka líka öryggi gangandi því oftast fer það saman að það sem eykur öryggi hjólreiðamanna gerir það líka fyrir gangandi vegfarendur þó svo að það megi deila um hversu mikið eigi að blanda gangandi og hjólandi vegfarendum saman.

Skilgreindar (2) hafa verið fjórar megin þarfir hjólreiðamannsins. Þær eru:

  • Rými.  Lóðrétt og lárétt
  • Slétt yfirborð.
  • Aðstæður til að halda jöfnum hraða.
  • Tengsl og samfelldni leiða.


Fyrir blandaða stíga er mælt með: 
Breidd 3,0-4,0 m og 1 m á hvorri hlið fyrir     snjóruðning. 
Minnsti beygjuradíus 15 m. 
Stöðvunarsjónlengd á flötum vegi 20 m.

(Statens vegvesen, 1992. Veg- og gateutforming. Noregur)


Einnig er vel skilgreint í erlendum stöðlum hverjar kröfurnar eru til stíga. Það sem við sjáum hér á glærunni er tekið úr norska staðlinum. Þar er talað um að breidd stíga eigi að vera 3-4 m í þéttbýli en 2,5-3 m í dreifbýli miðað við blandaða umferð gangandi og hjólandi.

Hallinn þarf svo að sjálfsögðu að vera í samræmi við umferðina sem verið er að hanna fyrir.

Kíkjum nú aðeins aftur á þessar þrjár hliðar öryggis hjólreiðamanna. Ég ætla að sýna nokkrar myndir máli mínu til skýringar. Með þeim er ég ekki að ráðast á einstaka staði eða tilfelli og bið ég því viðstadda að taka þær ekki persónulega. Myndirnar sýna það sem vel er gert í hönnun og byggingu stíga en einnig gildrur og mistök sem hægt er að gera. Myndirnar eru flestar ef ekki allar teknar í Reykjavík en það er bara af því að það eru nærtæk dæmi fyrir mig. Ástæðan er alls ekki að hér sé allt svo gott eða slæmt.

2.1    Geómetría stíga og gatnamóta

Samhengi 
Planlega 
Hæðarlega 
Breidd 
Þverhalli 
Gatnamót 
...

Geómetría stíga er mjög mikilvæg þegar litið er á öryggi hjólreiðamanna. Þeir þurfa að liggja vel í landi. Hjólreiðamenn sem nota reiðhjól til samgangna eru fljótir að færa sig út á götu ef stígurinn liggur í óeðlilegum sveigjum og beygjum. Stígurinn má heldur ekki vera of brattur eða mjór. Breiddin þarf að vera þannig að auðveldlega sé hægt að mætast eða taka framúr án þess að skapa hættu.


Reynsla Svía er að 80% af óhöppum hjólreiðamanna verði á gatnamótum. Það er því mikilvægt að búa þannig um gatnamót að auðsætt sé hver eigi réttinn. Hér sjáum við hvernig stígur liggur beint út á götu án nokkurrar viðvörunnar.


Hér er annað dæmi af því sama. Eðlilegt væri að mála stöðvunarlínu á stíginn (eða á götuna) eða gefa með einhverjum öðrum hætti til kynna hver eigi réttinn.


Frágangur á leiðum má ekki útiloka vissa vegfarendur.


Undirgöng eru mjög gagnleg bæði fyrir gangandi og hjólandi. En þau þurfa að vera þannig að aðgangur að þeim sé greiður og vegfarandinn sé „leiddur” inn í göngin án þess að taka þurfi 90° beygju.


Hér sjáum við aðra mynd af undirgöngum. Hér eru engar krappar beygjur og vegfarandinn getur séð hvað býður hans inn í göngunum áður en komið er inn í þau.


2.2    Umhverfi, viðhald, merkingar og búnaður

Yfirborð 
Ljósastaurar 
Skilti 
Vegmerkingar 
Bílar 
Snjómokstur 
Götusópun ...

Það er margt í umhverfinu sem getur haft áhrif á öryggi hjólreiðamanns. Eins og ég sagði fyrr þá er ein af meginþörfum hjólreiðamannsins slétt yfirborð. Hér má sjá dæmi um velheppnaðan stíg. Hjólreiðamönnum er ætlað ákveðið svæði af stígnum og það er merkt. Skilti og staurar í hæfilegri fjarlægð frá stígnum. Nægt pláss er fyrir snjóruðninga og götusópar komast greiðlega um.

Hér aftur á móti er hvorki hægt að ryðja snjó né koma götusópa að með góðu móti. Aðstæður sem þessar eru hjólreiðamönnum einstaklega hættulegar. Hjólið skrikar til í sandinum við minnsta tilefni.

Ljósastaur í miðjum stíg, sem er mjór getur varla talist til fyrirmyndar, allra síst í brekku þar sem minna þarf til hjólreiðamaður missi stjórn á reiðskjótanum.


Oft þarf ekki mikið til að bæta öryggið. Hér myndi muna öllu ef skiltin snéru í báðar áttir eða ef það væri endurskinsborði á bakhliðinni. Hægt er að sjá hjólför ef vel er að gáð.


Eins og flestir vita er bílastæðavandinn í þéttbýlinu mikill en það er samt alveg ótækt að göngustígar skuli vera notaðir sem bílastæði 


og jafnvel akbrautir.Vegrið eru ágætt öryggistæki en miklu máli skiptir hvernig gengið er frá því. Á vinstri myndinni er frágangurinn þannig að hvergi eru horn eða boltar út í loftið sem geta krækst í vegfarandann. Á þeirri hægri aftur á móti eru hvassar brúnir og boltar út í loftið. Þar fyrir utan er mun þrengra þannig að meiri hætta er á að rekast utan í vegriðið.

Merkingar stíga með skiltum auðvelda hjólreiðamönnum að komast leiðar sinnar. Hér hefur einföldu viðbótarskilti verið bætt við.

Og hér er skilti sem vísar á göngu og hjólreiða leið. Ef leiðin er ekki ljós er mjög freistandi að fara út á götu, þá leið þekkir maður yfirleitt.

Viðhald og framkvæmdir fara oft illa með stíga á meðan á þeim stendur.


Oft standa skurðir opnir í lengri tíma og uppgröfturinn veldur því að fara þarf um torfarnar leiðir utan stígs. Takið líka eftir ljósastaurnum sem er í miðjum stígnum.


Við þessar aðstæður eru alltaf einhverjir sem velja að vera frekar utan stígsins en á honum.FyrirEftir

Og hérna í lokin er ein svona „fyrir/eftir” mynd. Fyrir lagfæringar var stígurinn eins og stöðuvatn við minnstu rigningu en eftir, -ja það þarf ekki að taka fram hversu mikill munurinn er.

2.3    Hjólreiðamaður og útbúnaður reiðhjóls

Síðast en ekki síst hefur hjólreiðamaðurinn sjálfur nokkuð mikið um öryggi sitt að segja. Það gerir hann með því að aka með athygli og miðað við aðstæður líkt og aðrir ökumenn eiga að gera. Hann sér til þess að hjólið sé í lagi með lögbundnum búnaði eins og ljósum og glitaugum, notar hjálm og dekk sem hæfa aðstæðum.

Hemlar 
Fram- og afturljós 
Glitaugu (fram, aftur og teina) 
Hjálmur 
Dekk 
Endurskin 
Ástand hjóls 
Sjón hjólreiðamanns 
Þjálfun og skólun 


Mynd af heimasíðu Umferðarráðs

Veðurfarið þetta haust hefur verið þannig að oft hefur verið ísing yfir götum og stígum. Slík færð er í raun erfiðari og hættulegri hjólreiðamanninum en snjór. Það eru líka sífellt fleiri sem hjóla allt árið, líka á veturna. T.d. má ætla að a.m.k. 1000 nagladekk hafi verið í umferð á síðasta ári, þ.e. 500 reiðhjól með nagladekkjum[3].

Allt of oft sér maður hjólreiðamenn án ljósa eða með léleg ljós, -eða réttara sagt sér maður þá ekki. Með engin glitaugu og í dökkum endurskinslausum fötum. Mjög einfalt, og það þarf ekki að vera dýrt, er að bæta úr þessu. Það er jafnvel hægt að bæta auka endurskini á hjólin. Myrkrið er mikið á Íslandi og hjólreiðamenn ættu ekki að taka þá áhættu að sjást ekki.

3        Lokaorð

Ég hef kannski einblínt um of á öryggi hjólreiða í þéttbýli en öryggi hjólreiðamanna á þjóðvegum landsins er ekki síður mikilvægt. Reiðhjólið er komið til að vera. Ég held að tími sé kominn til að ráðamenn lands og sveitarfélaga geri sér grein fyrir því og gefi hjólinu þann sess í samgöngukerfinu sem samgöngutæki ber.


4        Heimildir

[1]               Bent Thagesen, 1998. Veje og stier. Polyteknisk forlag. Danmörk.

[2]               Borgarskipulag Reykjavíkur, desember 1995. Stofnbrautakerfi hjólreiða I, tillaga.

[3]               CROW, 1998. ASVV. Recommendations for traffic provisions in built-up areas. Holland.

[4]               Heiner Monheim/Rita Monheim-Dandorfer, 1990. Strassen für alle. Analysen und konzepte zum stadtverkehr der zukunft. Rasch og Röhring. Þýskaland.

[5]               Íslenski fjallahjólaklúbburinn, vefsíða www.mmedia.is/~ifhk.

[6]               K.W. Ogden og S.Y. Taylor, 1996. Traffic Engineering and Management. Monash. Ástralía.

[7]               K.W. Ogden, 1996. Safer Roads. A Guide to Road Safety Engineering. Avebury Technical. Ástralía.

[8]               Landssamtök hjólreiðamanna, vefsíða www.islandia.is/lhm.

[9]               Óskar Dýrmundur Ólafsson, 1993. Saga reiðhjólsins á Íslandi á bilinu 1890-1993 með stuttu erlendu baksviði. B.A. ritgerð við Sagnfræðiskor Háskóla Íslands. (http://www.mmedia.is/~ifhk/odo-i.htm).

[10]           Statens vegvesen, 1992. Veg- og gateutforming. Håndbok nr.17. Noregur.

[11]           Umferðarlög. 1987 nr 50. http://www.althingi.is/lagasofn/nuna/1987050.html.

 

Myndir: © Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Magnús Bergsson og Páll Guðjónsson.


Óskar Dýrmundur Ólafsson, Saga reiðhjólsins á Íslandi á bilinu 1890-1993 með stuttu erlendu baksviði.

Austroads, 1993c.

Örninn hf. telur að hann muni selja 250-300 nagladekk á þessu ár og hefur fjöldi þeirra aukist ár frá ári.

 

© ÍFHK