Það verður að teljast til stórtíðinda fyrir hjólreiðafólk að nú lyggur fyrir Alþingi tillaga um að hjólreiðastígar komist inn á vegalög, sjá nánar hér.  Einnig liggur fyrir tilllaga til þingsályktunar um skipan nefndar um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta, sjá nánar hér fyrir neðan.

Í greinargerðunum segir meðal annars:

"Löngu tímabært er að gefa meiri gaum að umferð hjólreiðafólks og gangandi vegfarenda í samgöngumálum á Íslandi. Sú umferð er hluti af eðlilegri útivist og íþróttaiðkun, veitir holla hreyfingu og fellur afar vel að nútímaviðhorfum til umhverfismála enda fylgir henni hvorki hávaði né mengun af öðrum toga. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að betri þjónusta við þessa tegund umferðar leiði til þess að landsmenn tileinki sér hana í auknum mæli.

Frumvarp þetta er lagt fram til að veita mikilvægum göngu- og hjólreiðastígum eðlilegan sess í vegakerfi landsins."

Það verður spennandi að fylgjast með framvindu þessarra mála á næstunni og virkilega spennandi að sjá þennan velvilja í okkar garð og af orðalagi greinargerðanna að dæma, erum við sem höfum beitt okkur fyrir málefnalegri umræðu og öflugri kynningarstarfsemi að uppskera árangur af mikilli vinnu undanfarinna ára.

Páll Guðjónsson

Hér fyrir neðan er frumvarp til laga um breytingu á vegalögum, nr. 45/1994, með síðari breytingum eins og hún var á vef Alþingis 7. apríl 2000 á slóðanum: http://www.althingi.is/altext/125/s/0760.html 
Páll Guðjónsson

 


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 760  —  480. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á vegalögum, nr. 45/1994, með síðari breytingum.

Flm.: Þuríður Backman, Jón Kristjánsson. 

1. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tengistígar eru göngu- og hjólreiðastígar milli þéttbýlisstaða, þar sem börn og unglingar fara daglega á milli til að sækja skóla, íþrótta- og tómstundastarf eða nauðsynlega þjónustu af öðrum toga, og eru kostaðir af opinberum aðilum.

2. gr.

    Fyrri málsliður 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Ráðherra getur að fengnum tillögum vegamálastjóra heimilað eignarnám lands til lagningar tiltekinna almennra vega, einkavega og tengistíga, enda komi fullar bætur fyrir.

3. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Almennir vegir, einkavegir og tengistígar.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2000.

        

Greinargerð.


    Löngu tímabært er að gefa meiri gaum að umferð hjólreiðafólks og gangandi vegfarenda í samgöngumálum á Íslandi. Sú umferð er hluti af eðlilegri útivist og íþróttaiðkun, veitir holla hreyfingu og fellur afar vel að nútímaviðhorfum til umhverfismála enda fylgir henni hvorki hávaði né mengun af öðrum toga. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að betri þjónusta við þessa tegund umferðar leiði til þess að landsmenn tileinki sér hana í auknum mæli.
    Frumvarp þetta er lagt fram til að veita mikilvægum göngu- og hjólreiðastígum eðlilegan sess í vegakerfi landsins. Sums staðar háttar þannig til, m.a. í tengslum við samvinnu og/eða sameiningu sveitarfélaga, að börn og unglingar þurfa daglega að fara á milli þéttbýliskjarna til að sækja skóla, taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi eða sækja ýmsa nauðsynlega þjónustu án þess að það kalli á akstur milli staða. Þar af leiðandi fara börn og unglingar þessara ferða ýmist gangandi eða hjólandi og sú umferð kallar á að lagðir séu fullnægjandi stígar fyrir göngu- og hjólreiðafólk. Öllum má vera ljós sú hætta sem stafar af því að beina þessari umferð inn á vegi fyrir vélknúin ökutæki.
    Hingað til hefur uppbygging slíkra stíga einkum strandað á óvissu um hverjum bæri að annast lagningu þeirra, umsjón og viðhald. Með þeirri lagabreytingu sem lögð er til í þessu frumvarpi eru slíkir stígar settir í umsjá opinberra aðila. Stígunum er valið heitið tengistígar þar sem þeim er ætlað að tengja saman þéttbýliskjarna með fyrrgreindum hætti.


 
Hér fyrir neðan er tilllaga til þingsályktunar um skipan nefndar um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta eins og hún var á vef Alþingis 7. apríl 2000 á slóðanum: http://www.althingi.is/altext/125/s/0829.html 
Páll Guðjónsson


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 829  —  528. mál.

Tillaga til þingsályktunarum skipan nefndar um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason, Katrín Fjeldsted, Össur Skarphéðinsson,

 

Ólafur Örn Haraldsson, Ásta Möller, Þórunn Sveinbjarnardóttir,

 

Kristján Pálsson, Katrín Andrésdóttir, Gunnar Birgisson.    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til að marka stefnu um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta í þéttbýli og dreifbýli. Tekið verði tillit til hjólreiðamanna við hönnun nýrra mannvirkja og stefnt að því að hjólreiðar verði raunhæfur kostur í samgöngumálum á Íslandi.
    Nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. janúar 2001.

Greinargerð.


    Markmiðið með tillögunni er að vekja athygli á hjólreiðamönnum í umferðinni, en einnig að fækka slysum og auka öryggi þeirra.
    Hjólreiðar eru vinsæl afþreying á Íslandi, sem og annars staðar, og hefur hjólreiðafólki fjölgað mjög á Íslandi á síðustu áratugum. Hjólreiðar eru ódýr, skemmtilegur og heilsusamlegur ferðamáti og vinsæl fjölskylduíþrótt. Fjölmörg dæmi eru um að fólk í þéttbýli noti reiðhjól til þess að ferðast milli áfangastaða.
    Hjólreiðar eru holl og góð íþróttagrein og er hluti af daglegri líkamsrækt hjá mörgum. Þær eru einnig afar vinsæll ferðamáti barna og unglinga og er tími til kominn að mótuð verði opinber stefna í þessum málum. Einnig hefur það mjög færst í vöxt að bæði Íslendingar og útlendir ferðamenn ferðist um landið á reiðhjólum. Þannig er á sumrum mikil umferð erlendra ferðamanna frá Leifsstöð og einnig frá Seyðisfirði. Aðstaða hjólreiðafólks á Íslandi er afar slæm og í mörgum tilfellum er hættulegt að ferðast um á reiðhjólum þar sem lítið tillit er tekið til hjólreiðafólks.
    Hin fjölfarna þjóðleið frá Hafnarfirði um Garðabæ, Kópavog, Reykjavík og Mosfellsbæ er stórhættuleg hjólreiðafólki, sem og gangandi vegfarendum. Talið er að um 16.000 reiðhjól hafi verið flutt inn til landsins árlega á síðustu 11 árum sem þýðir um 176.000 reiðhjól auk þeirra sem til voru áður. Því er talið að um 66% þjóðarinnar eða tveir af hverjum þremur landsmönnum eigi reiðhjól.
    Of sjaldgæft er að fyrirtæki og stofnanir hafi sérstakar reiðhjólagrindur við fyrirtæki sín þó að það hafi batnað nokkuð á síðustu árum en betur má ef duga skal.
    Nauðsynlegt er að gera ráð fyrir þessum ferðamáta við hönnum nýrra mannvirkja, enda eru hjólreiðar hluti af nútímaafþreyingu og sumarleyfisferðum.
    Æskilegt væri að í nefndinni sem skipuð yrði væru t.d. fulltrúar Vegagerðarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landssambands hjólreiðamanna, Fjallahjólaklúbbs Íslands og Hjólreiðafélags Reykjavíkur.
    Í Reykjavík var starfrækt sérstök hjólreiðanefnd sem skilaði ítarlegum tillögum til borgarráðs árið 1994, auk þess sem gengið var í samtökin „Car Free Cities”.
    Athyglisverðar eru hugmyndir bæjarstjórnar Árborgar í þessum efnum þar sem boðið verður upp á leigureiðhjól til þess að auka notkun reiðhjóla í umferðinni á Árborgarsvæðinu. Fleiri bæjarfélög eru að huga að þessum athyglisverða og skemmtilega ferðamáta. Þetta er líkt og er gert í Kaupmannahöfn en aðstaða hjólreiðafólks í Danmörku er til algerrar fyrirmyndar. Þar hafa verið markaðssettar hjólreiðaparadísir, t.d. á Borgundarhólmi, en þar byggist ferðamennska að stærstum hluta á hjólreiðum.
    Það er deginum ljósara að eftir því sem aðstaða hjólreiðamanna batnar hvetur það Íslendinga til að nýta sér þann skemmtilega og holla ferðamáta sem hjólreiðar eru.

 

© ÍFHK