Hjólandi á ferð um íslenskan þjóðveg, þar sem vegaröxlin er 30-40cm breið og því ekki hjólafær, hrekkur í kút þegar bifreið brunar framhjá. Þar sem vindurinn hvín í eyrum hefur hann ekki orðið bílsins var í tíma enda í engan stað að flýja nema niður 1-2 metra háan vegarkantinn. Bílsjóranum datt ekki í hug að vara hjólandann við með kurteisu flauti í hæfilegri fjarlægð. Hjólandinn tekur snöggt viðbragð, beygir og lendir útaf í hækkuninni, endasteypist út í móa og farangurinn tvístrast. Heppni hjólandans var fólgin í mýrinni og hjálmi á höfði. Ekki hvarlaði að bílstjóranum að stöðva og kanna ástand vígvallarins.

Síðar á heimaslóðum og á þeim fræga stíg Seltjarnarnes - Heiðmörk, geysist hjólandi áfram á mikilli ferð. Framundan er hópur hlaupara með tónlist í eyrum sér. Hjólandinn rennir sér á milli þeirra og tvístrar hópnum. Að þessu sinni slasaðist enginn en hjartsláttur ör svo mjög að hlaup gat ekki keppt við það. Hvað ef hjartveikur hefði verið á brautinni? Með bjölluhljómi í góðri fjarlægð hefði mátt komast hjá þessu.

Þetta eru tvö dæmi af mörgum mögu-legum, um tillitsleysi í umgengni við aðra. Ef við gætum varúðar og erum tillitssöm verðum við vel liðin og menn fylgja frekar okkar málum.

Eitt er það mál sem skal taka sérstaklega, en það eru samskipti hjólenda og hestamanna (ríðanda), þar sem ríðendur sitja á lifandi veru sem getur hvenær sem vill, tekið ákvarðanir um hvað gera skuli, auk þess eru sumir hestar afar hræddir við hið ókunna svo sem hjól.

Við hjólendur stjórnum hinsvegar fákum vorum að öllu leiti, því ber okkur að víkja eða stöðva er við mætum hesti. Gott er líka að heilsa knapa því hesturinn skynjar þá eitthvað sem hann þekkir, frá hjólandanum.

Góðir hjólendur, KURTEISI og TILLITSSEMI eru verk sem við ættum öll að temja okkur svo við verðum marktæk og skoðanir okkar virtar.

Björn Finnsson