Háttvirti þingforseti, ágætu þingmenn og konur. Mér varð hugsað til þess á leiðinni hingað að ég var einhverju sinni í menntaskóla að taka próf í mannkynssögu hjá ágætum kennara. Það var klukkustundar langt próf og fyrsta spurningin gilti 10% og okkur voru ætlaðar 6 mínútur til að svara henni. Og hún hljóðaði svona; "orsakir og afleiðingar fyrri og seinni heimstyrjaldarinnar. Ræðið"

Ég sé á dagskránni að mér er ætlað að ræða hér framtíðarsýn Reykjavíkurborgar á tímabilinu frá 13:15 til 13:20 og kannski þess vegna sem þessi gamla minning rifjaðist upp en ég mun vitaskuld, eins og þingforseti lagði mér fyrir reyna að takmarka það við þá þætti í framtíðarsýn Reykjavíkurborgar og pólitískri stefnumörkun og hugmyndafræði sem að snýr að hjólreiðum og varðar hjólreiðar. Þar er um sumt og í flestu kannski að ræða almenn þverpólitísk sjónarmið og framtíðarsýn, en ég hygg að þar séu líka þættir sem að um eru í stjórnmálum skiptar skoðanir og hugmyndafræðilegur ágreiningur beinlínis.

Hjólreiðar eru raunar, þegar menn hyggja að því, ákaflega gott dæmi um pólitík, samfélagsleg verkefni og forgangsröðun í stjórnmálum. Ég held það að það megi í rauninni byrja á því að líta til grundvallar sjónarmiðs í stjórnmálum almennt. Það einfalda grundvallar sjónarmið er að meira val sé betra en minna. Að við sköpum frelsi og fjölbreytni í samfélaginu með því að auka valfrelsi almennings, þannig að menn eigi kosta völ á sem flestum sviðum samfélagsins. Það er grundvallar sjónarmið í stjórnmálum sem heilu heimspekikerfin hafa verið reist á. Og verkefni okkar stjórnmálamanna er auðvitað fyrst og fremst að höndla með innviðina í samfélaginu.

Til er hugmyndafræði sem vill halda því fram að frelsi okkar sé þeim meira sem innviðirnir eru rýrari. Ég held hinsvegar að við hér stöndum fremur fyrir hugmyndafræði sem segir eitthvað á þá leið að við eigum að nýta innviðina, við eigum að styrkja og efla innviðina, til þess að auka valfrelsi, skapa raunverulega valkosti og auka þannig á frelsi manna og fjölbreytni í mannlífinu almennt. Um þessháttar verkefni eru hjólreiðar ágætis dæmi. Hjólreiðar eru ekki valkostur í samgöngumálum. Þær geta hinsvegar verið valkostur eftir því hvernig á því er haldið. Þeir sem efla vilja og auka valfrelsi í samfélaginu, þeir verða þá að vinna að því verkefni að gera þennan möguleika í samgöngum að raunverulegum valkosti. Og til að gera hjólreiðar að raunverulegum valkosti, þurfum við einmitt að styrkja og efla innviðina, þær aðstæður og þau almennu skilyrði sem hjólreiðum eru búnar í samfélaginu eða í þessu tilfelli, hér í borginni.

Þetta hygg ég að við höfum leytast við að gera, hér á undanförnum árum með ýmislegum aðgerðum. Þær þekkið þið auðvitað mörg betur heldur en ég, en ég nefni sem dæmi hluti sem kosta í sjálfu sér ekki neitt nema viljann, eins og það að opna almenningsfarartæki borgarinnar fyrir reiðhjólum. Ég nefni gerð göngustíga. Ég nefni göngubrýrnar, sem ríkið hefur að vísu kostað en við höfum þó lánað fyrir einni. Ég nefni Aðalskipulagsáform og vinnu í þróunaráætlun miðborgarinnar, sem að öll miðar að því einmitt að styrkja og efla aðstæður hjólreiðafólks í borginni og vinna að því markmiði að hjólreiðar verði og séu raunverulegur valkostur í samgöngum.

En hjólreiðar tengjast ekki bara þessu grundvallarsjónarmiði. Þær tengjast líka kannski stærstu samfélagslegu verkefnunum sem menn eru að takast á við og munu sér í lagi takast á við á komandi árum í stjórnmálum. Hjólreiðar tengjast auðvitað stærsta verkefni okkar sem eru umhverfismál. Og umhverfismálin eru sannarlega á dagskrá í Reykjavíkurborg, og í öllum stofnunum borgarinnar er ötullega unnið að stefnumörkun, að markmiðasetningu og áætlanagerð hvað varðar stefnu í umhverfismálum og hvernig við viljum bæta og efla þann þátt í borginni. Því að við höfum litið svo á að einmitt umhverfismálin geti verið sérstakur styrkur Reykjavíkurborgar. Við höfum í því sambandi meðal annars litið til þess að við njótum hér umhverfisvænnar orku, nálægðar við náttúruna og margvíslegra þeirra gæða í umhverfismálum sem eru eftirsóknarverð. Og þessa þætti eigum við að rækta og efla og styrkja.

Hjólreiðar tengjast líka öðru stórpólitísku verkefni, því að þær tengjast heilbrigðismálum. Heilbrigðismál eru að verða, eða eru auðvitað löngu orðin, stærsti samfélagslegi málaflokkurinn, fjárfrekasti málflokkurinn og í stjórnmálum hljótum við að leggja áherslu á að skapa almenn skilyrði fyrir fólk til að lifa heilsusamlegu lífi. Og ég held að engum blandist hugur um það að hjólreiðar eru þáttur í því og að við eigum þess vegna af samfélagslegum ástæðum að rækta þær. Við getum nefnt marga aðra þætti í pólitískri hugmyndafræði og í markmiðasetningu Reykjavíkurborgar sem lúta að hjólreiðum. Við getum nefnt fláana hér á gangstéttunum sem hafa verið að koma hér á síðustu árum. Þeir eru ágætt dæmi um það samfélag sem að við viljum skapa. Við viljum skapa samfélag fyrir alla og ég held að þeir sem að komu að hönnun þeirra fláa og þeirri vinnu sem þar var unnin af sérstakri alúð, hafi skynjað einmitt þá hugmyndafræði. Því þar var mikil alúð lögð í að skapa aðstæður og hanna, þessa fláa í því tilfelli, sem að hentuðu öllum. Sem að tækju tillit til þarfa allra. Sem að tækju tillit til hjólreiðamanna, til gangandi vegfarenda, til fólks sem bundið er við hjólastól og þó um leið til fólks sem fara þarf á milli húsa með hvítum staf og þreifa sig eftir því hvar gatan er.

Og auðvitað tengist þetta verkefni líka markmiðum á sviði umferðaröryggis. Við höfum sett okkur markmið um árangur í umferðaröryggi . Að fækka umferðarslysum í borginni. Og með því að bæta og styrkja aðstæður hjólreiðafólks hér erum við að draga úr líkum á umferðaróhöppum og slysum og ná með því þeim markmiðum.

Meðal þess sem að við sjáum fyrir okkur á næstu árum má nefna áframhaldandi vinnu við stígakerfið og eflingu þess. En kannski eitt af því sem að er sérlega spennandi og tengist nú þessum stað, því við erum stödd hér í miðborg Reykjavíkur. Það er að í athugun er, í tengslum við þróunaráætlun miðborgarinnar, að koma fyrir hér í gamla bænum stígakerfi, reinum fyrir hjól, á götunum, hér í gamla bænum. Þannig að við eignumst ekki bara stígakerfi sem tengir saman grænu svæðin í höfuðborginni heldur líka stígakerfi hér í hjarta borgarinnar, í miðborg Reykjavíkur.

Allt eru þetta í sjálfu sér ekki annað en orð. Og það er stundum sagt um stjórnmálamenn að orð séu ódýr. Ameríkaninn á ágætis máltæki, hann segir "put your money where your mouth is", láttu féð í það sem þú fjasar um, gætum við kannski útlagt það og ég held að hvað þessi verkefni varðar, getum við hinsvegar alveg afdráttarlaust sagt að einmitt þetta hefur verið gert. Hér á síðustu árum hafa sérstakar fjárveitingar verið settar í verkefni eins og fláana og framlög aukin til þess að efla hér stígakerfið og ég vona og ég býst við því að þannig munum við halda áfram að vinna.

En hér eru á dagskránni í dag embættismenn Reykjavíkurborgar sem munu fara yfir stöðu þessara mála og það sem að framundan er, og hafa eins og góðir embættismenn það umfram stjórnmálamanninn sem hér stendur að hafa þekkingu á því sem þeir ætla að ræða og ég hygg að ég láti hér staðar numið en þakka kærlega fyrir þetta boð og þetta ágæta framtak að halda þetta þing en mun ræða ástæður og afleiðingar seinni heimstyrjaldarinnar við annað tækifæri. 

Helgi Hjörvar