Ágæti lesandi,

Hvað er svona frábært við það að þeysast út um allt í sokkabuxum og með einangrunarplast á hausnum ?

Þessa spurningu fékk ég á mig þar sem ég sat fyrir utan Hótel Selfoss og hámaði í mig orkubita, þetta var nú bara ansi góð spurning, ég "fullorðinn" maðurinn á reiðhjóli útí sveit klæddur einsog maðurinn sagði, en svarið er jú bara að þetta er einsog einhverstaðar stendur, alveg einstök tilfinning.

Reyndar ætlaði ég í upphafi að kaupa mér ódýrt hjól til þess að hjóla í vinnuna sem er aðeins í 3 km. fjarlægð frá heimili mínu og mér fannst það taka of langan tíma að ganga þangað en vera of stutt til að vera að biðja konuna að taka á sig krók og skutla mér á bílnum og sækja mig síðan aftur eftir vinnu, því að þó vegalengdin sé stutt í km þá getur á miklum annatíma í umferðinni tekið langan tíma að komast þó ekki lengri vegalengd en þetta.

Ég hóf því leitina að ódýru hjóli en endaði með þrisvar sinnum dýrara hjól en ég ætlaði mér að kaupa og sé ekki eftir því í dag því ég hefði sjálfsagt hætt hjólreiðum ef hjólhesturinn hefði reynst gallagripur sem alltaf hefði verið að bila, samanber félaga minn sem keypti sér hjól í ónefndum stórmarkaði.

Núna tæpum 6 árum síðar eru hjólin orðin tvö, því ég fór að ráðum reyndari hjólara og útbjó annað sem slydduhjól en hitt er bara eins og Trek * skapaði það. Það er alveg frábært þegar maður er búinn að vera vikum saman að böðlast í slabbi, hálku og allskonar veðrum á sínu gamla þunga hjóli sem maður er alltof lélegur við að þrífa þegar síðan kemur þurr bjartur dagur og "fína" hjólið er dregið út og þeyst af stað eins og belja að vori.

Hjólreiðafólki fer ört fjölgandi í borginni enda er þetta bráð smitandi. Sem dæmi um það er að á mínum vinnustað eru 17 starfsmenn og fyrir 6 árum hjólaði enginn, en í dag hjóla 8 yfir sumartímann og 4 hjóla allan ársins hring. Til að byrja með fékk maður á sig ýmis skot frá samstarfsfélögunum en í dag þykir þetta orðið nokkuð eðlilegt og hef ég heyrt af fleiri vinnustöðum þar sem þetta hefur gerst og eru nú matar og kaffitímar undirlagðir af tali um hjólreiðar, mótvindinn í morgunn sem verður örugglega líka á leiðinni heim og meðalhraðann sem sífellt hækkar, ofl.

Við hjólreiðarfólk eigum víst að nota gangstéttirnar í sátt og samlyndi með gangandi fólki og fór ég einu sinni í leiðangur og ætlaði að hjóla um bæinn aðeins á gangstéttunum. Í stuttu máli þá gekk þessi ferð mín ekki mjög vel því gangbrautar og stígakerfi borgarinnar er eins og hjólafólk veit, mjög götótt og það vantar að búa til gott net stíga sem tengir saman hverfi borgarinnar. Einnig væri gott að hafa kort af stígum borgarinnar á stígamótum, á þessum kortum væru gefnar upp helstu vegalengdir á milli staða eftir t.d Ægissíða - Mjódd eða Mjódd - Rauðavatn. Þetta myndi hvetja fólk til dáða því mörgum finnst óhemju langt frá Breiðholti og vestur í bæ þó að það séu ekki svo margir kílómetrar.

Í þessari ferð tók ég líka eftir því að víða er búið að laga fláa á stígum við gatnamót en það er kannski bara öðru megin og þó fláinn sé kominn þá er kannski enginn stígur í framhaldi af honum. Það eru líka til gangstéttir sem enda bara eins og botngötur og síðan tekur við moldartroðningur sem fólk hefur troðið til að komast leiðar sinnar og þegar rignir verður troðningurinn eitt forarsvað. Svo eru aðrar gangstéttir sem eru svo sprungnar að ég treysti mér ekki til að sitja hjólið þar því ég hafði nú hugsað mér að fjölga mannkyninu eitthvað í framtíðinni.

Undanfarið hefur þónokkuð verið unnið í lagningu stíga og göngubrýr reistar og er það hið besta mál en ég vona þó að gatnamálastjóri gleymi því ekki að ekki er nóg að leggja stígana heldur þarf líka að halda þeim opnum yfir vetrartímann.

Hjólum heil. Jóhann Leóson

* skýring fyrir Cannondale klúbbinn, Trek er hjólategund.