Þessi spurning vaknaði eftir að ég hafði lesið greinina um lögreglumann á reiðhjóli í Lögreglublaðinu eitt kvöldið í klúbbhúsi Íslenska Fjallahjólaklúbbsins.

Ég hafði aldrei orðið var við hjólalögguna þessi tæpu þrjú ár sem ég hef búið á höfuðborgarsvæðinu. Mundi að vísu eftir að hafa séð henni bregða fyrir í fréttum fyrir löngu síðan, í frásögn af því þegar hjólalögreglumaður gómaði sinubrennuvarg. Svo ég hélt að þessi frábæra hugmynd hefði bara dagað uppi og hjólin kannski verið seld á árlegu uppboði óskiladeildar lögreglunnar. Forvitni mín og áeggjan hjólaklúbbfélaga minna varð til þess að ég fór að athuga málið. Og eftir nokkrar símhringingar tókst mér að finna mann í lögreglunni sem gæti gefið mér upplýsingar um hjólalögguna.

Þannig að ég hjólaði upp í Grafarvog og ræddi við Árna Þór Sigmundsson lögreglumann á Lögreglustöð Grafarvogs. Árni gat gefið mér allar upplýsingar um hjólalögguna og sýnt mér útbúnað hennar, þar sem tvö reiðhjól og fylgibúnaður þeirra er einmitt staðsettur á Lögreglustöðinni í Grafarvogi.

Saga reiðhjólalögreglunnar á Íslandi er í stuttu máli þannig að árið 1994 keypti Lögreglan í Reykjavík 4 reiðhjól í tilraunaskyni og voru tvö staðsett á lögregluvarðstofunni við Hverfisgötu og tvö á lögreglustöðinni í Grafarvogi. Um reynsluna af þessum reiðhjólum og notkun þeirra má lesa nánar í greininni um hjólalögguna á öðrum stað í þessu eintaki Hjólhestsins. En í stuttu máli má segja að þau hafi gefist vel eftir að ákveðnir byrjunarerfiðleikar varðandi útbúnað, sérstaklega klæðnað, lögreglumannsins voru leystir.

Sem helstu kostir reiðhjólalöggunar í þéttbýli hér á Íslandi má nefna að hún hentar vel við ákveðnar aðstæður þar sem erfitt eða illmögulegt er að komast að á öðrum farartækjum lögreglunnar og of seinlegt er að vera fótgangandi. Þetta á til dæmis við í mikilli og þungri bílaumferð á afmörkuðum svæðum. Við stærri útiskemmtanir og uppákomur, þegar þörf er á afar hreyfanlegri löggæslu, eins og til dæmis á 17. júní, og aðrar stærri samkomur og mannfagnaði eða fjölskylduskemmtanir, íþróttaviðburði og þess háttar, þar hentar hjólalöggan vel. Einnig á svæðum þar sem vélknúnum farartækjum er óheimil eða erfið umferð, t.d. í stærri almenningsgörðum og eftir göngustígum

Aðrir kostir reiðhjólalöggunar eru t.d. að lögreglumaðurinn er í mun nánari sambandi við hinn almenna borgara en ef hann sæti innilokaður í bíl. Stofn- og rekstrarkostnaður við útbúnað reiðhjólalögreglumanns er líka mun lægri en við þá sem sinna löggæslu á lögreglubíl.

Hjólandi lögreglumaður fer hraðar yfir en gangandi og kemst yfir mun stærra svæði á skemmri tíma auk þess sem hann hefur betri yfirsýn yfir það svæði sem hann fer um en ef farið væri í bíl.

Eins og flest annað þá hefur notkun reiðhjóls við löggæslu líka ákveðna ókosti. Þar má helst nefna að veðurfar á Íslandi getur af og til verið afar óhagstætt til hjólreiða, en það eru nú ekki margir dagar á ári á stór-Reykjavíkursvæðinu sem það er óhjólandi ef maður hefur réttan útbúnað.

Það hve byggð er dreifð, það finnast varla neinar þéttbyggðar stórborgir ennþá eða ógnarlegar umferðarteppur hérlendis ennþá, a.m.k. ekki miðað við hvernig ástandið er víða erlendis, því er reiðhjólalöggan kannski ekki eins stór plús við löggæslu og annars væri. Reiðhjólalöggan hentar líka frekar illa í almenn útköll, þegar bregðast þarf við í skyndi og um einhverja vegalengd er að fara. Þá hentar bifreið oft betur svo framarlega sem leiðin sé greið. Þá er einnig nokkuð erfitt að flytja handtekna menn á reiðhjóli.

En þó að reiðhjólalöggann hafi vissar takmarkanir, þá á hún fyllilega rétt á sér og með réttu skipulagi, réttri þjálfun og góðum búnaði þá verður hún áfram en mætti bara vera enn virkari og sýnilegri.

Að lokum má nefna að í stórborgum erlendis er reiðhjólalöggan í sókn ef eitthvað er. Hluti af þeim lögreglumönnum í París sem áður ferðuðust um á léttum bifhjólum, hafa nú skipt yfir í fjallahjól. Þannig komast þeir betur áfram í umferðinni og eru í betra sambandi við almenning. Og í New York og Washington DC hafa nokkrir sjúkraliðar (paramedics) verið gerðir út með tilheyrandi búnað á fjallahjólum ákveðna daga á sumrin, tveir og tveir saman, þegar mannmergðin er hvað mest á vissum stöðum. Í þættinum 911 á Stöð 2 mátti í fyrra sjá hvernig slíkt teymi bjargaði mannslífi á meðan beðið var eftir að sjúkrabíllinn kæmist í gegnum umferðarteppu og mannmergð. Líklegast er þess langt að bíða að við sjáum eitthvað slíkt hérlendis. Og þó, mikil breyting þótti þegar lögð var fjögurra greina akbraut um Ártúnsbrekku í Reykjavík og allt að Kringlumýrarbraut. Þá hættu menn að aka Suðurlandsbraut inn í Reykjavík. Eitthvað dugði það skammt, nú vilja menn helst malbika yfir Elliðaárdalinn. Kannski verður reiðhjólalöggann dagleg sjón í öllum hverfum áður en langt um líður.

Heimir H. Karlsson.

©Hjólhesturinn 3. tlb. 6. árg. Október 1997.