"Umhverfismengun er alheimsvandamál sem lætur engan ósnortinn. Við vitum að gróðurhúsaáhrifin eru staðreynd en ekki hugarórar umhverfisspámanna um endalok jarðar. Barátta mannsins gegn eigin mengun er hafin. Hér á landi erum við farin að verða vör við mengunina og hver og einn hlýtur að spyrja sig: Hvað er hægt að leggja af mörkum til að draga úr þeirri ógn sem mengun er í lífríki jarðar."

Nei, þetta er ekki skrifað af bílahatara sem aldrei stígur af hjóli heldur er þetta fróðleikur úr umhverfisbækling Félags Íslenskra Bifreiðaeigenda sem dreift var í 15000 eintökum. Þar koma meðal annars fram eftirtalin ráð: "Ekki kaupa stærri bíl en þú þarft - stærri bílar eyða meiru. Veldu bíl sem er sparneytinn. Allt sem gert er til að draga úr bensíneyðslu sparar peninga og dregur úr mengun. Gakktu eða hjólaðu styttri vegalengdir. Notaðu strætó ef mögulegt er. Minni mengun fylgir fullnýttum strætisvagni en ferð farþeganna sömu leið í einkabílum." Mikið væri nú gott ef fleiri bifreiðaeigendur færu eftir ráðum FÍB.

Skoðum betur þetta "alheimsvandamál sem engan lætur ósnortinn". Í blaði Neytendasamtakanna mars 1994 var mjög fróðleg grein umhverfis-verkfræðingsins Einars Vals Ingimundarson um hversu mikla mengun einn bíll í Þýskalandi skilur eftir sig á jörðinni og í andrúmsloftinu eftir að hafa verið ekið 13 þúsund kílómetra á ári í 10 ár. Upplýsingarnar eru reiknaðar saman af virtri stofnun sem spáir fyrir um þróun umhverfismála til langs tíma: Umwelt- und Prognose Institute Heidelberg.

Við hráefnisöflun til smíði eins bíls verða til 25 tonn af alls kyns úrgangi og enn fremur mengast 422 milljónir rúmmetra af lofti. Flytja þarf hluta af þessu hráefni til Þýskalands og svo aftur til ýmissa verksmiðja þar innanlands. Við þetta mengast aftur 425 milljónir rúmmetra af lofti. Á meðan framleiðslu bílsins stendur verða til 1500 kíló af úrgangi og 75 milljónir rúmmetrar lofts mengast til viðbótar.

Þegar farið er að reikna út bein áhrif bílsins í akstri er reiknað með að hann sé búinn hvarfakút sem náð hefur besta vinnsluhita til að brenna því eldsneyti sem vélin nær ekki að brenna til fulls. Staðreyndin er hins vegar sú að oft fer helmingur ferðarinnar í að ná þessum vinnsluhita og mengun því mun meiri og meirihluti íslenska bílaflotans er ekki búinn hvarfakútum. Síðan er gert ráð fyrir að bíllinn noti 10 lítra af blýlausu bensíni á hverja 100 kílómetra sem ekið er. Á 10 ára tímabili skilar bíllinn út í andrúmsloftið:

44,3

4,8

46,8

325

36 

Tonn

Kg

Kg

Kg

Kg

Koldíoxíð

Brennisteinsdíoxíð

Níturoxíð

Kolmónoxíð

Kolvetni

Þessi skammtur frá einum bíl dugar til að menga 1016 milljónir rúmmetra lofts. Á Íslandi voru 138 þúsund bílar í ársbyrjun 1996 og ókst innflutningur um 30% síðasta ár í kjölfar lækkunar innflutningsgjalda - (umhverfisstefna ríkistjórnarinnar í hnotskurn?).

Enn eru ónefnd úrgangsefni í föstu formi sem verða til við aksturinn. Þar má nefna 17,5Kg af tjöruafurðum úr yfirborði vegarinns, gúmmíagnir við slit hjólbarða, agnir úr bremsuborðum og fleira. Önnur helstu efni frá bílnum sem menga jarðveg og grunnvatn eru: Ýmis olíuefni, blý, króm, kopar, zink, og kadmium.

Að tíu árum liðnum er bíllinn afskrifaður og hlutaður í sundur og skilar sú útför enn fleiri efnum út í andrúmsloftið. Þar má nefna PCB og olíuleifar. Og enn mengast andrúmsloftið. 102 milljónir rúmmmetra pestast þegar bílnum er eytt. Eftir þessa upptalningu höfum við fengið nokkurt yfirlit yfir auðlindasóunina sem felst í einkabílnum.

 

 einkab.gif

Framlag eins bíls til gróðurhúsaáhrifanna nemur því samtals 59,7 tonnum koldíoxíðs og á ruslahauga heimsins bætast samanlagt 26,5 tonn. Nóg eru nú vandamálin þar fyrir. Þessar gríðarlegu tölur ríma nú kannski ekki alveg við þá ímynd sem bílaframleiðendur hafa verið að reyna að skapa af nýjustu árgerðunum upp á síðkastið. Hinn "græni" og "umhverfisvæni" bíll er nefnilega ekki til og við græðum ekki landið með bensíni eins og eitt olíufélagið auglýsir. Auðlindasóunin þykir sumum léttvæg í samanburði við ýmsan félagslegan kostnað og önnur umhverfisáhrif sem bíllinn veldur. Má þar minna á slysatölur sem við birtum í síðsta Hjólhesti og nýja útreikninga Háskólans sem sýna árlegan kostnað vegna umferðarslysa upp á 16-19 milljarða króna.

Flest hugsum við íslendingar lítið um þessi mengunarmál enda er mest af menguninni einhversstaðar í útlöndum þó oft sjáist greinilega gult mengunarský yfir höfuðborgarsvæðinu. Þegar við horfum á fréttir af fólki sem missir heilsuna og deyr um aldur fram vegna mengunar í erlendum stórborgum eins og Aþenu eða Mexicoborg mættum við leiða hugann að því hvort þetta fólk hafi verið að framleiða eitthvað fyrir okkur. Einhverja vöru sem við viljum ekki framleiða á Íslandi vegna þess að framleiðslunni fylgir of mikil mengun. Er allt í lagi að vörum sem við notum fylgir mengun ef mengunin er einhversstaðar í útlöndum?

Á fundi Félags umhverfisfræðinga frá Garðyrkjuskóla ríkisins 6. mars 1996 kom m.a. fram að miðað við þróunina í dag er áætlað að olíubirgðir jarðarinnar dygðu í um 40-50 ár og gas í 60-70 ár. Það eyðist sem af er tekið.

Við eigum að hugsa hnattrænt og til framtíðarinnar. Við búum öll á reikistjörnunni Jörð og getum öll lagt okkar af mörkum til að bæta búsetuskilyrði á henni - fyrir okkur sjálf og afkomendur okkar.

Páll Guðjónsson

Teikning: Jón Örn Bergsson

© Hjólhesturinn 2.tlb. 5.árg.