Góð hjólastæði fyrir gesti, gott aðgengi fyrir starfsmenn, viðgerðaraðstaða, samgöngusamningar og stefnumótun eru á meðal þess sem gefur stig í Hjólavottun vinnustaða; vottun sem varð til upp úr samfélagsverkefninu Hjólum.is þar sem grasrót, stofnanir og fyrirtæki fóru samhent í aðgerðir til að efla hjólreiðamenningu á Íslandi árið 2015.

Í dag eru rétt um 80 vinnustaðir búnir að fara í gegnum gátlistann; efla og bæta á sínum vinnustað. Einhverjir hafa byrjað í brons og hækkað sig síðan upp; gátlistinn er öllum opinn á heimasíðunni hjolavottun.is og hvort sem vinnustaðir ljúka formlegri vottun eða taka bara til sín tilmæli úr listanum; þá erum við öll að græða þegar farið er í slíkar aðgerðir. Þær eru til þess fallnar að skapa betra samfélag og bjartari framtíð.

Hjólafærni á Íslandi sinnir vottuninni. Ferlið er einfalt. Fulltrúi á vinnustaðnum hleður niður gátlistanum. Skoðar hann og metur stöðuna á sínum vinnustað. Í kjölfarið er fundað; oftast á skjánum eftir að Covid tók yfir í samfélaginu en líka nærfundir þegar því er viðkomið. Þetta er um klukkutímafundur þar sem farið er í gegnum gátlistann; ráðgjöf þar sem það á við og unnið að góðum lausnum. Hjólafærni leggur til samgöngukönnun sem hverjum og einum er frjálst að gera að sínum spurningalista. Einnig dæmi um samgöngustefnu sem auðveldar öðrum vinnustöðum eftirleikinn.

Hjólavottun vinnustaða styður Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög, 11. kafli. Hjólavottunin styður fleiri heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, t.d. 7. kaflann um sjálfbæra orku,  3. kaflann um heilsu og vellíðan, 10. kaflann um aukinn jöfnuð, 13. kaflann um aðgerðir í loftslagsmálum,  15. kaflann um líf á landi auk þess að styðja við 17. kaflann – samvinnu um markmiðin.
Samkvæmt gátlista Hjólavottunar vinnustaða er hægt að útskrifast með Platínum (91 – 100 stig), Gull (75 – 90 stig), Silfur (50 – 74 stig) og Brons (25 – 49 stig) vottun.

Platínum vottun er fyrir þá bestu. Þegar starfsmenn og stjórn fyrirtækisins hafa unnið saman að því að gera vinnustaðinn svo útbúinn að allir sjá að þangað er best að koma á hjóli, gangandi eða í strætó hvort heldur er fyrir gesti eða starfsmenn.

Gull hjólavottun vinnustaða er skýr sögn um metnaðarfull skref fyrirtækja, sem vilja hlúa að góðri reiðhjólamenningu. Þar er öllu jafna góð aðstaða fyrir starfsmenn og viðskiptavini fyrirtækisins. Þar er hugað að samgöngustefnu og gjarna boðnir samningar um samgöngugreiðslur til starfsmanna.  

Silfur hjólavottun vinnustaða er til merkis um nokkuð skýran vilja innan fyrirtækisins til að vilja hlúa að góðri hjólreiðamenningu en vantar herslumuninn á að ná gullvottun. Með ráðgjöfinni sem fylgir hjólavottuninni er yfirleitt hægt að ná í gullvottun án mjög kostnaðarsamra  aðgerða.

Brons hjólavottun vinnustaða segir til um að allmörgu sé enn ábótavant, áður en vinnustaðurinn teljist mjög hjólavænn – en það besta er að búið er að sækja um hjólavottunina, sem eru skýr skilaboð um að fyrirtækið vilji gera betur. Ráðgjöfin sem fylgir vottuninni, verður vonandi til þess að á næstu misserum fer fyrirtækið úr Brons og vonandi alla leið í Gull vottun.

Hjólavottaður ferðamannastaður er þróunarverkefni sem var unnið í samvinnu við Farfugla – HiHostel og Hjólafærni á Íslandi. Gátlistar hafa verið reyndir og lógóið sem fylgir þessum flokki hjólavottunar er grænn. Tvö tjaldsvæði á landinu hafa náð þessari vottun. Tjaldsvæðið í Laugardal í Reykjavík og Tjaldsvæðið í Grindavík.

Hjólafærni hefur einnig unnið að hjólavænum grunn- og leikskólum og hefur þegar hannað fjólublátt lógó hjólavottunar fyrir það verkefni. Grunnskólar á Akranesi og í Grindavík hafa stefnt að því að ná að verða Hjólavænir grunnskólar en hafa enn ekki náð þeim árangri sem þarf.

Hjólavottun var búin til af Hjólum.is, sem er samfélagslegt samstarfsverkefni Hjólafærni á Íslandi, Landsbankans, Vínbúðarinnar, Varðar, Rio Tinto, Landsvirkjunar, Reykjavíkurborgar og TRI.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur styrkt Hjólavottun vinnustaða og Umhverfisstofnun hefur kveðið á um að stofnanir í ríkisrekstri sem eru í Grænum skrefum, eigi að framfylgja viðmiðum vottunarinnar.



Myndir: Vorið 2021 voru fjórar starfsstöðvar Eflu vottaðar (efsta mynd). HA útskrifaðist sumarið 2020 (mið mynd). Hafró útskrifaðist með gull núna í febrúar (mynd fyrir ofan).

Sesselja Traustadóttir Hjólafærni á Íslandi

© Birtist fyrist í Hjólhestinum mars 2022.