Innihald þessa Hjólhests endurspeglar þá öflugu starfsemi sem unnin er bæði innan Fjallahjólaklúbbsins og Landssamtaka hjólreiðamanna sem ÍFHK er aðili að og annarra aðildarfélaga LHM eins og Hjólafærni á Íslandi. Undir hatti LHM eru líka félög með öfluga starfsemi í hjólasportinu.

Klúbburinn hefur í yfir tvo áratugi staðið fyrir léttum byrjendavænum hjólaferðum um borgina og nágrenni á þriðjudagskvöldum, opnar öllum. LHM og Hjólafærni hafa gripið boltann og skipulagt svipaðar ferðir yfir vetrarmánuðina oft með tilteknu þema tengdu samgönguhjólreiðum, skipulagi eða menningu, t.d. var í vor var farin ein ferð í mánuði með bókmenntalegu ívafi í samstarfsverkefni með Borgarbókasafninu.

Árið 2021 ákvað ferðanefndin að hafa dagsferð í hverjum mánuði yfir sumartímann.  Fyrsta  dagsferðin var raunar farin í mars þegar eldgos hófst skyndilega í Geldingadölum og sú síðasta í nóvember þegar við hjóluðum um Selfoss og Hellisskóg. Við gefum myndum úr þesssum ferðum gott pláss hér en mikið fleiri myndir úr þessum og öðrum ferðum er að finna á heimasíðu klúbbsins auk myndbanda sem ekki verður miðlað á pappír.

Gríðarleg vinna var unnin á vettvangi LHM um árabil tengd nýjum umferðarlögum, þar sem ýmislegt náðist fram en sumt hvarf svo án skýringa þegar nýjar og nýjar útgáfur frumvarpsins voru lagðar fram í áralöngu ferli málsins. Einn punkturinn sneri að því að löggjafinn kallaði ekki farartæki reiðhjól sem ekki eru reiðhjól, heldur skilgreina þau sér og segja að ákvæði laganna um reiðhjól ættu líka við þau tæki eftir aðstæðum. Nú er nýtt ráðuneyti að skoða afleidd vandamál þessu tengd og enn er LHM að senda inn tillögur eins og lesa má hér. Einnig reynum við að benda á gildi vandaðra rannsókna og reynslu þegar kemur að ákvarðanatöku eins og lauslega er fjallað um hér.

Kosti hjólreiða þekkja þeir sem reynt hafa og fjöldi rannsókna hafa leitt þá í ljós. Fjölda þeirra hef ég safnað saman á vefinn hjolreidar.is ásamt góðum ráðum fyrir þá sem eru að byrja að nota reiðhjólið sem samgöngumáta, s.s. ítarlegri yfirferð um hvernig auka má öryggi sitt með tækni samgönguhjólreiða. Einnig er þar fjöldi mynda sem sýna almenning hjóla um á Íslandi dags daglega og líka í hinni skemmtilegu skrúðreið sem Tweed Ride Reykjavík hefur staðið fyrir vor hvert.

Klúbbhúsið hefur líka þurft ást og umhyggju í gegnum árin að utan sem innan og við búin að koma okkur vel fyrir. Við horfum fram á frjálsari tíma laus undan samkomutakmörkunum og vonandi fáum við að vera þar áfram.

Öll þessi starfsemi byggir á þrotlausri vinnu sjálfboðaliða sem leggja hönd á plóg eftir bestu getu og alltaf er pláss fyrir nýtt fólk og nýjar hugmyndir. Verið því ófeimin við að bjóða fram starfskrafta ykkar og koma til samstarfs við okkur í Fjallahjólaklúbbnum og eða önnur félög, því eins og stundum gerist lendir mikil vinna á fáa duglega einstaklinga sem vel gætu þegið aðstoð og endurnýjun.

En umfram allt komið og takið þátt.

Páll Guðjónsson,
ritstjóri Hjólhestsins.

 

Fylgist með

Við erum með viðburðaalmanak á heimasíðunni þar sem við skráum viðburði í klúbbhúsinu, hjólaferðir á höfuðborgarsvæðinu, lengri ferðalög og einnig áhugaverða viðburði skipulagða af öðrum en okkur.

Við sendum einnig fréttapósta á póstlistann okkar þegar eitthvað er á döfinni, endilega skráið ykkur á hann á forsíðu heimasíðunnar, fjallahjolaklubburinn.is.

Einnig er gott að „líka við“ Facebook síðu klúbbsins fyrir minni tilkynningar og einnig er spjallgrúppa á Facebook með nafni klúbbsins þar sem félagsmenn mega spyrja og spjalla um allt milli himins og jarðar.



Takið þátt í starfinu

Klúbburinn rekur sig ekki sjálfur en þegar margir leggja hönd á plóg verður þetta allt auðveldara og skemmtilegra. Ertu með hugmynd að nýju verkefni eða viltu taka við og leiða hefðbundin verkefni klúbbsins? Saman búum við yfir mikilli reynslu og erum til í að prófa nýja hluti.

Það er enginn starfsmaður á launum til að vinna verkin svo okkur vantar ekki bara hugmyndir heldur líka fólk til að framkvæma þær. Endilega hafið samband ef þið eruð með tillögur eða viljið koma inn í starfið með virkum hætti. Við erum grasrótarsamtök og ekki mikið fyrir að flækja hlutina fyrir okkur.
 

Klúbbhúsið okkar

Á Brekkustíg 2 er ágætis aðstaða fyrir 20-30 manns á efri hæðinni, þar sitjum við í mesta bróðerni, sötrum kaffi, ræðum heimsmálin, hjólamálin og þjóðmálin.  Það verða haldin kompukvöld, myndasýningar,, viðgerðanámskeið og ýmsar óvæntar uppákomur sem við kynnum á póstlistanum okkar eða Facebook síðu klúbbsins.

Á jarðhæð er viðgerðaraðstaða fyrir félagsfólk. Öll áhöld til viðgerða eru til staðar en ætlast er til þess að fólk geri við sjálft og gangi fallega um aðstöðuna.
 

Þriðjudagskvöldferðir

Brottför öll þriðjudagskvöld frá Mjódd, kl. 19:30, frá byrjun maí og út ágúst.  Fyrsta ferðin verður 3. maí, þá verður hjólað út í Klúbbhúsið í vesturbæ og bakaðar vöfflur.  

Stígakerfið vex og dafnar og það er ákaflega gaman að finna nýja silkimjúka malbiksræmu til að þjóta eftir.  

Komdu með okkur eitthvert þriðjudagskvöldið í sumar, jafnvel öll, þá áttu möguleika á að hljóta mætingabikarinn, blóm og konfekt.  Það þarf ekki að vera félagi í ÍFHK til að taka þátt í þriðjudagskvöldferðunum.

 

Ritstjórnarpistill sem birtist fyrst í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK, mars 2022.