Hefur þú upplifað að bíða eftir grænu ljósi í heila eilífð þegar þú hjólar á götunni og kemur að umferðarljósum?

Í samstarfi við Reykjavíkurborg og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa Landssamtök hjólreiðamanna og Hjólafærni verið með verkefni þar sem hægt er að koma með ábendingar um umferðarljós fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur.

Eins og hjólandi þekkja vel eru mörg umferðarstýrð umferðarljós í götu sem ekki skynja þegar reiðhjól kemur að þeim og fær hinn hjólandi þá ekki grænt ljós eins og önnur umferð. Þá eru mörg gangbrautarljós með ýmsa vankanta. Til dæmis þegar sá sem kemur að þeim hjólandi eða gangandi veit ekki hvort hann eigi að ýta á hnapp til að fá grænan karl. Sum hnappatæki gefa heldur ekki til kynna hvort ýtt hafi verið á takkann og veit notandinn því ekki hvort hann hafi verið numin af tækinu. Í öðrum tilfellum er ljósið sem vegfarandinn fær of stutt til að komast yfir akbrautina jafnvel þótt hann sé hraustur og hvað þá ef hann á erfitt um hreyfingar eða er í hjólastól.

Um 28 ábendingar hafa borist til þessa í verkefninu og hafa allar ábendingar verið skoðaðar og metnar. Búið er að laga þær sem auðvelt var að laga vegna þess að tæki var bilað eða stilling ekki rétt. Þar má nefna t.d. gangbrautarljós fyrir gangandi vestan Álfheima við Langholtsveg þar sem búið er að laga að takki fyrir grænan kall virkaði ekki.

 

1. mynd. Gönguljósin yfir Langholtsveg, búið að laga takka til að fá grænan kall.
Aðrar bíða þess að verða lagaðar í sumar á framkvæmdatíma eins og þar sem þarf að endurnýja segulspólu í götu eða endurnýja gamlan búnað. Þar má nefna að spóla í götu verður endurnýjuð sumarið 2019 þar sem hún skynjar ekki hjól þegar umferð kemur af Kapellutorgi inn á Bústaðaveg.

 

2. mynd. Umferðarstýrð ljós á gatnamótum Kapellutorgs og Bústaðavegar skynja ekki reiðhjól en segulspóla verður endurnýjuð til að laga það.
Enn aðrar eru í áframhaldandi skoðun t.d. þar sem engin lausn er sjáanleg nema með mikilli endurbyggingu gatnamóta eða að niðurstaða er málamiðlun sem erfitt er að hnika. Það á t.d. við um gatnamótin Reykjaveg / Suðurlandsbraut þar sem hægri beygja norður Reykjaveg sker hjólandi og gangandi umferð þegar grænt ljós logar beint áfram fyrir þessa vegfarendur. Einnig gönguljósin yfir Sæbraut við Kirkjusand þar sem biðtími getur verið langur fyrir gangandi yfir daginn og grænn kall logar stutt en þar er þó búið að skipta um snertibúnað fyrir gangbrautarljós.

 

3. mynd. Gatnamót Reykjavegar/Suðurlandsbrautar. Hjólandi og gangandi í forgangi eru að þvera Reykjaveg meðan beygjuumferð frá Suðurlandsveg í vestur inná Reykjaveg sker leið þeirra.

 

4. mynd. Gangbraut yfir Sæbraut við Kirkjusand. Búið að laga snertibúnað fyrir gangbrautarljós en biðtími getur verið allt að 70 sek á dagtíma en sjaldnast meir en 22 sek á næturtíma.
Búið er að stinga upp á ýmsum búnaði eins og t.d. niðurtalningarbúnaði sem sýnir hvað er langt þar til kemur grænt ljós og upplýsingagjöf um hver er hámarksbiðtími eftir grænu ljósi. Til stendur að setja upp niðurtalningarbúnað á einum stað í Reykjavík í tilraunaskyni.

Þessum ábendingum er safnað áfram og þeim komið á viðkomandi sveitarfélag til skoðunar og úrbóta. Tengill á insláttarformið: Ábendingar


Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2019.