Einn af kostunum við að hjóla á Íslandi er sá að eiga ekki á hættu að vera drepinn og étinn af villidýrum. Það er einna helst að flugur éti hjólreiðamenn en hjólreiðamenn éta örugglega enn meira af flugum. Meira að segja pödduvandamálið er minna hér en í flestum öðrum löndum heims.

Líður hjólreiðafólk um landið í sælukenndri sátt við saklaus dýrin? Ekki er það nú alveg svo, allavega það sem til friðar dýranna heyrir. Meirihluti þjóðarinnar þekkir dýr landsins útum bílrúður. Þegar fólk sem elst upp í bílum fer að hjóla, kemur svolítið merkilegt í ljós. Rólyndis skepnur sem láta sér það lynda að vera í nálægð við hávær, þung, hraðskreið, illþefjandi og stórhættuleg ferlíki sem bílar eru, tapa ró sinni þegar friðsamur, hægfara og hljóðlátur hjólreiðamaður nálgast. Þarna er eitthvað óvenjulegt á ferðinni, kannski í veiðihug, fyrst það fer svona hljóðlega um. Auðvitað eru dýrin jafn misjöfn og tegundirnar eru margar og rúmlega það. Eflaust mætti skrifa lærðar atferlisfræðilegar bækur um upplifanir hinna ýmsu tegunda dýra af hjólreiðafólki. Ég hef ekki vit á því en ætla að lýsa nokkrum upplifunum.

 

Fuglar:

Ég hef aldrei heyrt þess getið að fugl hafi orðið fyrir reiðhjóli. Samt láta þessi kvikindi stundum einsog þau hafi séð andskotann þegar friðsamur hjólreiðamaður nálgast. Þegar heilu skararnir fælast fer maður ósjálfrátt að hugsa um fæðuöflun, orkunotkun og annað sem máli skiptir í viðkvæmu lífi dýranna. Þau hefðu  betur slappað af og sparað orkuna fyrir sig og unga sína. Stundum les maður rómantískar lýsingar hólreiðafólks um friðsæld og fuglasöng. Ég gæti trúað að ef sá söngur yrði þýddur yfir á mannamál, væri meiningin þessi: Varúð, hættulegasta dýr í heimi er á ferðinni og ætlar að læðast að okkur!

 

Hundar:

Þeir mega þó eiga það, greyin, að þeim er uppsigað við bíla. En þeir eru enn leiðinlegri þegar þeir elta hjólreiðafólk. Í bíl er maður a.m.k. lokaður frá þeim.

 

Hestar:

Þeir eru forvitnar skepnur og hafa gaman af hjólreiðafólki. Stundum skokka þeir með  langtímum saman. Þá kann ég vel að meta skurði og girðingar sem skilja okkur að. Ég hef kynnst nokkrum sem hafa gerst of ágengir, ekki síst ef eitthvað gott var í nestistöskunni. En þeir eru líka styggir, margir hverjir. Þegar ég mæti ríðandi manni hef ég tamið mér að breytast í myndastyttu, a.m.k. þegar við notum sama slóða eða stíg.

Kusa að hnusa

Kýr:

Ekki veit ég hvað býr í kýrhausnum. Kýrnar eru ekki síður forvitnar en hross. En þegar þær taka á rás veit ég ekki  hvort um er að ræða kapphlaup, hræðslukast eða leikgleði. Einu sinni kom ég 150 nautgripa hjörð í Landeyjum á þvílíkt skrið að hjörðin hefði endað uppi í Fljótshlíð, hefðu ekki blessaðir skurðirnir og girðingarnar hindrað hana. Í þeirri sömu ferð veitti álíka stórt hrossastóð mér samfylgd. Einhverjir ormar hafa látist í hófa- og klaufatraðki þann daginn.

 

Sauðfé:

Þessir vegbúar Íslands eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Sumum sauðkindum er nokkuð sama þó einhver sé hjólandi í grennd við þær. Þær eiga það til að hlaupa á undan manni nokkra kílómetra áður en þær fá þá snilldar hugmynd að fara út af veginum. Í Dölunum er mikið af styggu sauðfé. Þar hef ég náð að trylla heilan bústofn, vegna þess að ein kind kom auga á mig í tveggja kílómetra fjarlægð og gaf merki um hættuástand. Ætli Dalamenn séu almennt góðir sauðfjárbændur? Það er þvílíkur skapgerðarmunur á sauðfé frá einum bæ til annars. En svo er féð líka misjafnlega vant mannfólki sem ekki er pakkað inn í járn og gler. Í Skutulsfirði væri hægt að klappa vegfénu á kollinn um leið og hjólað er framhjá því. Það er orðið vant skokkandi og hjólandi Ísfirðingum og  húsbændur þess eru yfirvegaðir og rólegir. Í næsta firði, Álftafirði, er allt annað uppi á teningnum. Styggðarskjátur. Enda er algengt að þær láta líf sitt í bílslysum sem er nær óþekkt í Skutulsfirði.

Niðurstaðan af þessari óvísindalegu upplifunargrein er þessi: Verum dugleg að hjóla útum allt. Úr því að dýrunum tókst að venjast bílaumferðinni, með öllum sínum framangreindu ókostum, þá á þeim að takast að venjast okkur hjólreiðafólkinu líka. Staðbundin dæmi sanna það.

*Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2017