Árið 2011 varð verkefnið Hjólreiðar.is til í samvinnu Fjallahjólaklúbbsins og Landssamtaka hjólreiðamanna undir stjórn Páls Guðjónssonar. Bæði félögin eiga sér mikla sögu eins og sést á heimasíðum beggja og bæði hafa þau að markmiði að efla hjólreiðar. Hjólreiðar.is snýst um það markmið: að reyna að „selja“ hjólreiðar og taka saman á einn stað hnitmiðaðar upplýsingar fyrir þá sem eru að byrja eða eru bara forvitnir.

Við reynum að fá þá sem ekki hafa prófað hjólið lengi til að taka þátt í Hjólabingó leiknum og leysa 24 verkefni. Eftir það ætti öllum að vera ljóst hversu auðveldur og þægilegur fararmáti það er að hjóla. Þeir sem tileinka sér síðan hjólreiðar gætu uppskorið hreysti, hamingju, æsku og langlífi.

Við höfum gefið út fræðslubæklinga frá 2011 á ýmsu formi og 2016 tókst okkur að gefa út tvo nýja bæklinga  um kosti hjólreiða og tækni samgönguhjólreiða með góðum styrkjum frá Reykjavíkurborg og mikilli vinnu. Þeir verða áfram í dreifingu í ár og meðan byrgðir endast.

Við tókum þetta svo skrefi lengra síðasta sumar og hjóluðum um með þennan sérútbúna kynningarvagn á hverfahátíðir og ýmsa viðburði, dreifðum bæklingum og svöruðum margvíslegum spurningum. Hvarvetna var tekið vel á móti okkur.

Það verður vonandi framhald á þessu í sumar og þá líklega auglýst eftir sjálfboðaliðum til að hjálpa á Facebook eða póstlistanum okkar.

Endilega skráið ykkur á póstlistann og fylgist með á samfélagsmiðlunum.

Við höfum líka látið bæklingana og Hjólhestinn liggja frammi á sundstöðum, kaffihúsum og víðar. Endilega komið við í klúbbhúsinu okkar og takið bæklinga og Hjólhestinn og hjálpumst öll að við að dreifa fróðleiknum og kynna klúbbinn.

*Birtist fyrst sem leiðari í Hjólhestinum mars 2017