Hjólreiðar, dans og jafnvel meira kynlíf getur verið áhrifaríkara en lyf þegar kemur að því að bæta heilsuna samkvæmt nýrri skýrslu frá the Academy of Medical Royal Colleges. Skýrsluhöfundar skora á lækna að benda á mikilvægi reglulegrar hreyfingar.

Scarlett McNally, sérfræðingur í bæklunar­skurðlækningum, sem er aðalhöfundur skýrslunnar, varði tveimur árum í að fara yfir 200 rannsóknir til að greina hversu mikil áhrif regluleg hreyfing gæti haft á lýðheilsu þeirra sem búa á Bretlandseyjum.

„Þetta snýst um að minna lækna og sjúklinga á að regluleg hreyfing getur haft gríðarleg jákvæð áhrif á heilsuna þó  í litlum skömmtum sé. Það getur verið jafn einfalt og að velja tröppur í stað lyftu, að fara í boltaleik með börnum eða barnabörnum. Við þurfum að breyta því hvað við teljum vera normalt því við sjáum það á skurðstofum og spítölum um land allt að ónóg hreyfing er orðin normal. Of margir af sjúklingum mínum gjalda þess með beinbrotum eða langvinnu heilsuleysi sem hefði mátt koma í veg fyrir með aukinni hreyfinu.“

Aðeins 30 mínútur af hóflegri hreyfingu fimm daga vikunnar getur hjálpað þung­lyndissjúklingum, haldið sykursýki í skefjum og snarminnkað líkurnar á að ristilkrabbamein dreifi sér um líkamann.  McNally sagði einnig í viðtali við The Times að hún hefði komist að raun um  að með meiri hreyfingu hefðu margir af eldri sjúklingum hennar getað komið í veg fyrir mjaðmarbrot.

„Hreyfing er jafn gagnleg og mörg lyf en hún hefur ekki verið markaðsett sem slík áður“ sagði hún og bætti við að hreyfing í stuttan tíma en oft hentaði líklega flestum. „Ef þú nærð að setja hreyfingu inn í daglega rútínu  og gera það að venju,  verður þú hraustari og heilbrigðari án sérstakrar fyrirhafnar.“

Prófessor Dame Sue Bailey, formaður the Academy of Medical Royal Colleges sem kostaði skýrsluna sagði:

„Þetta snýst um að almenningur og læknar þeirra hafi trú á því að það sé þess virði að leggja þetta lítilræði á sig. Í raun  blasir töfralækning við okkur, nokkuð sem allt of margir sjúklingar og læknar hafa einfaldlega gleymt.“

Í janúar síðastliðnum sýndi rannsókn sem the University of Cambridge stóð fyrir meðal 334.161 einstaklinga að hreyfingarleysi orsakaði árlega 676.000 dauðsföll meðan offita ætti þátt í um 337.000 dauðföllum. Einnig hefur verið sýnt fram á að hófleg hreyfing dregur úr líkunum á því að þú fáir flensu.

Þýtt úr frétt í road.cc 13. feb. 2015
Cycling: the miracle cure – new report

Þessi frétt staðfestir enn og aftur niður­stöður annarra kannana sem við höfum kynnt í gegnum árin en aldrei er góð vísa of oft kveðin.
Ekki skemmir heldur fyrir að læknirinn mælir með svona ánægulegu athæfi frekar en að banna hitt og þetta.

Páll Guðjónsson

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015