Ísland er draumastaður náttúruunnandans og á síðari árum hefur sá hópur stækkað sem skoðar þessa paradís hjólandi. Því hafa ferðaskipuleggjendur boðið erlendum ferðamönnum ævintýraferðir á hjólum um Ísland. Tilurð þessarar ferðar okkar félaganna var sú að annar okkar hafði tekið að sér fararstjórn í skipulegum ferðum af þessu tagi. Ferðin átti að vera ánægjuleg, fræðandi og í raun eldskírn okkar í langferðum. Leiðarvalið réðist af áður ákveðinni ferðaáætlun skipuleggjandans.
Hinn takmarkaði undirbúningur ferðarinnar vannst á síðustu stundu. Við bjartsýnismennirnir töldum þetta nú ekki mikið mál. Dæmi um skipulagninguna var að hjól annars okkar var í frumeindum sínum kvöldið fyrir brottför. En með þrotlausri vinnu og harðfylgni handlaginna handverksmanna hafðist þetta. Seint að nóttu litu hjólin sæmilega sannfærandi út, þó síðar hafi komið í ljós að margt mátti betur fara.