Síðasta skipulagða hjólreiðaferð Í.F.H.K. 1993, var farin helgina 24 - 26. september. Á dagskránni var að hjóla frá Landmannalaugum til Eldgjár á laugardeginum og síðan áleiðis í bæinn á sunnudeginum. Átta náttúruunnendur af báðum kynjum fóru í ferðina og birtist ferðasaga eins þeirra hér á eftir.
Veðurspáin fyrir helgina var ekki glæsileg, til að byrja með átti að vera rigning og rok en síðan átti að frysta og snjóa, en þar sem þetta var síðasta ferð ársins ákvað ég að skella mér með. Þær upplýsingar um leiðina sem ég hafði fengið frá þeim sem áður höfðu farið þessa leið stönguðust mjög á. Sagt var að árnar sem þyrfti að vaða skiptu tugum, þær væru djúpar og jökulkaldar, brekka tæki við af brekku og allar væru þær mjög brattar. Þetta gat komið heim og saman við það sem í leiðarlýsingu stóð að ferðin reyndi mjög á getu þátttakenda og hluti leiðarinnar væri eins og "brattur stigi".