Forsagan

Frá því ég keypti CUBE-Fákinn vorið 2012 hefur fólk verið að hvetja mig til að mæta í Bláalónsþrautina. Sumir ætluðust jafnvel til að ég mætti tveimur mánuðum eftir að ég fékk hjólið. Ég var efinst þá en svo viðbeinsbrotnaði ég þannig að ekki þurfti að pæla mikið í því.

Ferðirnar með Fjallahjólaklúbbnum frá Reykjavík að Úlfljótsvatni hafa verið einstaklega góður undirbúningur fyrir Bláalóns keppnina þar sem maður verður að passa að sprengja sig ekki. Það var því ekki spurning um að mæta í keppnina 2013.

 

Undirbúningur hjólsins

Hjólið fór í yfirhalningu í Markinu enda þurftu gírarnir stillingu og demparinn smá pamperingu. Síðan var hjólið þrifið hátt og lágt og allt tekið af því sem ekki var bráðnauðsynlegt fyrir keppnina svo sem bögglaberi, bretti, töskufestingar og ljós. Daginn fyrir keppnina voru keðjan og tannhjól hreinsuð enn betur og hálftíma prufurúntur tekinn. Brúsarnir voru settir í gamla sokka og þeir teipaðir á til þess að þeir myndu ekki hendast af og viðgerðarsettið og vara slangan sett í hnakktösku og á sinn stað. Venjulega hefur þessi taska  verið í Ortlib töskunni. Ég var með 50 psi í dekkjunum sem var helst til mikið fyrir malarvegina.

 

Undirbúningur líkamans

Ég hef fundið það í ferðum með Fjallahjólaklúbbnum að þær hafa verið erfiðar ef maður hefur ekki haft tækifæri til að hvíla dagana fyrir, þannig að núna tók ég þrjá daga í rólegheitum heima fyrir keppni. Var bara heima að dúlla mér við að setja saman húsgögn, raða dóti og þessháttar sem ekki krefst átaka. Einnig tróð ég í mig miklu af kolvetnaríkum mat svo sem brauði og pasta. Ekki má gleyma rauðrófusafanum sem ég drakk í flöskuvís.

 

Fatnaður

Það var alltaf verið að skammast í mér fyrir að vera of mikið klæddur. Ég tók þessum ábendingum vel og var bara í einum buxum og einum ullarbol innan undir hjólajakkanum. Ég var að spá í að vera bara með þunnu hanskana en þegar ég sá rigninguna þá ákvað ég að fara einnig í utanyfirhanskana (sem betur fer).

 

Keppnisdagur

Ég vaknaði um níu leitið, fékk mér venjulegan morgunmat, AB-mjólk, banana og kaffi. Síðan drakk ég  rauðrófusafa og tvö bréf af orkudrykk, annað fyrir hádegi og hitt eftir hádegi. Hafragrautur í hádegismat, hnetur og enn meiri rauðrófusafi.

Svo byrjaði hasarinn. Lagði tímanlega af stað úr Mosó til þess að sækja liðsfélaga inn í Reykjavík. Var að bíða í rólegheitum þegar  annar liðsfélagi hringdi sem var kominn inn að Ásvallalaug en hafði gleymt númerinu og tímatökuflögunni og var ekki á bíl. Hann vildi fá bílinn minn lánaðan til þess að skutlast eftir þessu. Ég hafði samband við þann sem ég var að ná í og var hann þá staddur úti í bæ. Hann skutlaðist af stað og var mættur á slaginu tvö eins og um var talað. Síðan var brennt af stað inn í Hafnarfjörð, allt dótið tekið úr bílnum, félaginn skutlaðist til Reykjavíkur og var kominn til baka þremur mínútum áður en keppendur lögðu af stað frá Ásvallalaug að tímatökulínunni. Það þarf alltaf eitthvað að koma upp á á síðustu stundu.

Ég var í miðjum hóp þegar kom að tímatökulínunni og bara rólegur enda ætlaði ég ekki að vera í miklum hasar í byrjun. Svo lagði hópurinn af stað og allt gekk vel.

Eftir ca 2 km var eitthvað farið að strjúkast við afturdekkið. Ég stoppaði, ferlega fúlt að stoppa og horfa á 100 manns fara framúr manni, og þar lá taskan með viðgerðarsettinu á dekkinu; önnur festingin hafði rifnað út úr töskunni. Ég tók töskuna af og tróð henni í vasann á bakinu og það var ekki gaman að dröslast með þennan hlunk á bakinu alla keppnina.

Þegar á malbikið kom á Krísuvíkurleiðinni fann ég mér stóran hjólreiðamann sem hjólaði á svipuðum hraða og mér fannst þægilegur og draftaði alla leiðina að Djúpavatnsleið. Þar tók mölin við.

Það hafði verið léttur mótvindur og úðaregn alla leiðina þannig að hún var blaut og sumstaðar pollar og drullusvað. Ég hjólaði upp allar brekkur eins og berserkur. Á Djúpavatnsleiðinni stoppaði ég aðeins tvisvar til þess að fá mér að drekka, taka in gel og pissa en ég tel stoppið á drykkjarstöðinni ekki með. Ég lét mig gossa niður brekkurnar og það gekk bara vel til að byrja með. Það var full hart í dekkjunum því að barningurinn á hendurnar var stundum svo mikill að mér fannst eins og  ég hefði ekki fulla stjórn.

 

Fyrsta fall

Á fljúgandi ferð niður eina brekkuna sá ég að við enda hennar var vegurinn  mjög grafinn, mikið drullusvað og endaði í beygju. Ég var á of mikilli ferð  í hægri hjólförum og sá mig tilneyddan að fara yfir hrygginn enda stórt og djúpt drullusvað framundan hægra megin. Ekki tókst betur til en svo  að þegar framhjólið var að fara niður í vinstra hjólfarið lenti ég á hálflausum steini sem skoppaði undan dekkinu, ég missti jafnvægið og fyrsta fallið í Bláalóns varð að veruleika. Ég stóð strax upp, fann að ég var ekki meiddur og sá að hjólið var ekki í klessu (eða mér sýndist svo). Aðvífandi hjólreiðamenn spurðu hvort i allt væri í lagi og ég svaraði að ég væri bara góður en þeir bentu mér á að hjólajakkinn væri blóðrauður á hægri öxlinni. Ég sagði að þetta væri bara rauðrófusafi.

 

Annað fall

Á fljúgandi ferð niður aðra brekku skömmu seinna lenti ég í lausamöl úti í kanti hægra megin og stefndi á stóran stein sem hefði tekið framgjörðina í nefið. Ég bremsaði, sveigði til vinstri og missti jafnvægið og datt í mölina áður en að steininum var komið. Aftur af stað án teljandi meiðsla nema að það kom eitthvað hljóð frá afturgjörðinni sem svo hvarf eftir smá spotta (afturskiptirinn / dropout-ið beyglað). Rásnúmerið hafði losnað við fyrsta fall en datt af við seinna fallið. Það verður að plasthúða númerin næst ef þau eiga að haldast á. Ég sá að minnsta kosti 30 til 40 númer í götunni á leiðinni.

Spenningurinn jókst. Ég stoppaði á drykkjarstöðinni, borðaði orkustykki og banana og kláraði flösku af orkudrykk í nánast einum teyg. Þar voru komnir 38 km og ekki liðinn nema 1 klst. og 45 mín. frá því að tímataka hófst. Ég fylltist mikilli kæti, nú gæti ég náð að klára keppnina á innan við þremur klukkutímum.

 

Afturskiptir brotnaði af – Kári reddar málum

Ég ætlaði að hjóla brekkuna sem tengir leiðina af malarveginum við Suðurstrandaveg  og var rétt byrjaður að taka á því þegar eitthvað gaf sig og ég komst ekki áfram. Ég sá að afturskiptirinn sem venjulega liggur fallega þráðbeinn niður með tannhjóla kassettunni að aftan stóð bísperrtur út í loftið út frá gjörðinni. Ég hugsaði með mér að nú væri öllu lokið, rétt um 40 km búnir og ég með bilað hjól. Þegar upp á Suðurstrandarveg kom hitti ég Kára sem var búinn að sprengja dekk tvisvar sinnum og hann byrjaði strax að hjálpa mér. Hann sagði að við gætum tekið afturskiptirinn af, stytt keðjuna og ég gæti hjólað á einum gír til að klára keppnina. Hann reddaði þessu öllu saman á nokkrum mínútum og ég handstýrði keðjunni upp á miðhjólið að framan og á  fjórða stærsta að aftan. Þar læstist keðjan og ég gat hjólað. Afturskiptirinn ásamt keðjustubb fór í vasann góða með viðgerðartöskunni .

Ísólfsskálabrekkan var tekin með trompi; á einum gír tók ég þessa löngu og aflíðandi brekku með glans. Ég puðaði þetta áfram og hugsaði „Tja, þetta er ekki verra en að taka Hengilinn í lægsta gír“ og kæti mín jókst enn frekar þegar ég tók fram úr nokkrum í brekkunni. Niður brekkuna fór ég á húrrandi ferð ca. 60 km á klst.

 

Á einum gír á jafnsléttu

Nú fór ég að tapa tíma þar sem ég komst ekki hraðar en 20 km á klst. á malbikinu framhjá Grindavik,  ég var ýmist að fara fram úr eða fólk að taka fram úr mér.

 

Miskunnsami samherjinn

Malarvegurinn meðfram Þorbirni var ekki svo slæmur upp á gírinn góða þannig að ferðin sóttist nokkuð vel en ég sá að ég myndi ekki  ná að ljúka keppni undir þremur klukkustundum. Við Þorbjörn var maður stopp að skipa um slöngu. Ég kallaði til hans „vantar eitthvað?“ og hann svaraði „Já, ertu með pumpu?“. Ég  lánaði honum pumpuna mína og beið á meðan hann var að pumpa og koma dekkinu í lag. Hann var að vonum þakklátur.

Svo komst ég á malbikið og  vissi að Bláa lónið var ekki langt undan. Hraðamælirinn var hættur að virka svo ég vissi í raun ekki hversu  langt var eftir. Ég náði ungri konu á CUBE sem var að dúlla sér. Ég spurði hana hvort hún væri búin á því sem hún jánkaði. Við hjóluðum saman í mark, hún úrvinda og ég á einum gír. Hún tók í hendina á mér og óskaði mér til hamingju með þrautseigjuna að klára á einum gír. Ljósmyndari náði af okkur þessari ljómandi góðu mynd í markinu.

Ég náði tímanum 3:15 og endaði í 405. sæti en  um 536 keppendur voru skráðir. Miðað við úrslitin sem liggja fyrir á þessari stundu þá náðu 483  að fá skráðan tíma. Ég er sannfærður um að hefði ég ekki brotið afturskiptirinn þá hefði ég náð rétt um 3 klst. Ég var pínulítið svekktur þegar ég kom í mark því að ég átti nóg eftir  af orku og úthaldi sem ég hafði  sparað til að geta tekið lokasprettinn og klárað.

 

Slappað af í lóninu

Liðið okkar „KomaSo“  kom þar saman og ræddi málin. Það var mál manna að leiðin í ár hefði verið erfiðari en í fyrra vegna bleytunnar.

 

Bakgrunnurinn

Mér finnst einstaklega gaman að hjóla á malarstígum, niður brekkur í röffinu og hamast áfram. Ég held að Hlíðarvegurinn og göturnar á Ísafirði í gamla daga hafi þjálfað mann vel upp í  að hjóla svo ekki sé minnst á hinar frábæru ferðir með Fjallahjólaklúbbnum og þá sérstaklega um Skorradalsvatnið.

 

Drulla upp fyrir haus

Ég hef ekki orðið svona drullugur síðan ég var 4 ára. Það var allt atað í drullu og sandi. Ég var enn að plokka sand úr tönnunum á leiðinni í bæinn. Ég þvoði hjólið og setti fötin í þvottavélina strax við heimkomu.

 

Hvað má betur fara

Ég hefði betur haft lægri loftþrýsting í dekkjunum, sérstaklega þar sem ég ætlaði á fullri ferð niður malarbrekkurnar. Það hefði verið betra að fara  hægar og detta ekki því að dropout-ið  brotnaði í einni byltunni. Ekki  nota óreyndan búnað eða lélegt drasl úr Europris í keppni.

 

Mynd: Kjartan Þór Kjartansson

Með á mynd: Erla Þórdís Traustadóttir