Haukur Eggertsson Hálendið opnaðist óvenju seint sumarið 2011, og þurfti því að leita sér fanga víðar, skyldi stigið á sveif. Snemma júnímánaðar lögðum við frúin því af stað í fjögurra daga ferð um uppsveitir Mýrasýslu, Hnappadal, Heydali, Skógarströnd og Bröttubrekku. Margar þessara leiða sem við fórum finnast ekki á kortum og verandi ekki fjarri Reykjavík, gæti ýmsum þótt ferðasagan og leiðarlýsingin áhugaverð.

Við lögðum af stað eftir vinnu föstudaginn 10. júní, í frekar köldu en stilltu veðri, keyrðum sem leið lá hringveginn upp í Borgarfjörð uns komið var að afleggjara til vinstri merktum Stóra-Fjalli. Inn þann veg keyrðum við nokkur hundruð metra til að koma bílnum í hvarf frá hringvegarumferðinni. Hjólin tekin fram og hlaðin, enda eingöngu gert ráð fyrir að finna vott á leiðinni þrátt fyrir að vera „í byggð“. Fljótlega var komið að vegamótum og þá valin leiðin til vinstri að Valbjarnarvöllum. Vegurinn er nokkuð hefðbundinn malarvegur, en þegar komið er framhjá Valbjarnarvöllum (6 km) og sumarbústaðahverfi verður vegurinn allur grófari.

 

Grenjadalur - Hrossahyrna til hægri

  Grenjadalur - Hrossahyrna til hægri

 

Höfundur á leið yfir Langá til að sækja frúarhjólið

Höfundur á leið yfir Langá til að sækja frúarhjólið

Haldið var austur og svo norður fyrir sumarbústaðahverfið um hæðótt landslag uns komið var að Langá (10 km). Þar er vað yfir ána en þar sem náttstaður var ætlaður í Hraundal héldum við upp með ánni inn Grenjadalinn og yfir betra vað 3 km ofar. Áin náði ekki nema upp í hné en var köld, enda hafði þetta verið kalt vor. Áfram var haldið skamma stund uns hjólunum var lagt, nesti snætt, skotist á fæti upp á Hrossahyrnu í Grímsstaðamúla (sem var eitt af óklifnu fjöllunum í 151 tinda bók ATG og PÞ). Geysifagurt útsýni er af toppnum, og hjólatúrnum svo haldið áfram eftir þennan hálfs annars tíma útúrdúr. Leiðin gerðist nú allhæðótt uns halla fór á ný ofan í Hraundalinn. Gerðum við stuttan stans til að kíkja ofan í Hraundalshellana sem eru djúpir strompar, en sérhæfðan sigbúnað þarf til að komast niður (og ekki síður upp) þannig að látið var nægja að horfa ofan í svört gímöldin. Upp úr miðnætti, eftir um 18 km hjólatúr, með áðurnefndum útúrdúrum á fæti komum, við í gangnamannaskálann undir Lambafelli sem er hið vistlegasta og snyrtilegasta hús, með vatnssalerni og alles. Fengum okkur lítinn kvöldskatt og síðan í háttinn.

 

Við einn Hraundalshella
Við einn Hraundalshella
 
Í skálanum í Hraundal
Í skálanum í Hraundal

 

Morguninn eftir snæddum við morgunverð í sól og skjóli við suðurvegg skálans og héldum síðan tæpan km til baka leiðina sem við komum, og tókum þar afleggjara til hægri handan gígs nokkurs. Leiðin, sjálf nokkuð ógreinileg á köflum, liggur um grösugar og fagrar eyrar og mýrarfláka uns komið er að tjörn nokkurri, farið var norður fyrir tjörnina og hjólin síðan leidd upp brattan háls handan hennar og svo niður af hálsinum ofan í Hraundalinn. Slóðin verður nú aftur greinileg en nokkuð gróf á köflum, fjölmargir lækir sem alla er hægt að hjóla eða stikla.

 

Hraundal
Hraundal

 

Vorum við með meðvind, sól skein og kynjamyndir hraunsins og fegurð dalsins glöddu augað. Eftir um 10 km er komið að girðingu og handan hennar að sumarbústöðum og eyðibýlinu Ytri Hraundal. Þegar komið var upp á heimreiðina, fylgdum við henni yfir brú á Melá en beygðum svo þar strax aftur til hægri eftir vegarslóða sem liggur inn í Hítardal. Þurftum við von bráðar að fara yfir sömu á á (hjólanlegu) vaði sem við höfðum skömmu áður farið yfir á brú, og þegar yfir var komið, vorum við komin steinsnar frá bæjarhúsunum í Ytri Hraundal á ný og sáum meira að segja slóð liggja aftur að húsunum. Þarna hefðum við því geta sparað okkur krók, brú og vað. En strax var komið að næsta vaði (Borgardalsá?) en áin var það straumhörð að með herkjum tókst að stikla hana með hjólin. Vegurinn þarna er þokkalegur undir Svarfhólsmúlanum, en frekar laus í sér. Eftir um 14 km greinist leiðin og völdum við leiðina til hægri að Svarfhóli og komum þangað eftir tæpan km. Frá Svarfhóli heldur vegaslóð áfram til norðausturs inn Grjótárdal, en við fylgdum henni bara út fyrir bæjargarðinn, því þaðan liggur reiðgata til vinstri (norðvestur) og fylgdum við henni. Markað hafði fyrir henni á loftmyndum, en ég var óviss hvort hægt væri að hjóla hana. Eftir hálfan hjólanlegan km var komið í hraunið og reyndist þar oft þurfa að leiða hjólið næsta kílómetrann. Eftir það skánaði gatan og fljótlega var komið á Hítardalsveginn við brúna yfir Grjótá. Beygðum við til vinstri suður dalinn, en ekki lengra en um 100 m því að þá beygðum við aftur til hægri í VNV þráðbeinan og heldur leiðinlegan 2 km vegarspotta í átt að Tálma. Tálminn var upp á mitt læri í dýpsta ál, en straumlítill.

 

Gatan milli Tálma og Hítarár
Gatan milli Tálma og Hítarár

 

Tók nú við hraungata, að mestu óhjólanleg yfir Hagahraunið rúmlega 1 km leið uns komið var að Hítará undir bröttum bakka. Enn fengum við að sulla í ánni, hún var breiðari en Tálminn, en grynnri og á betri botni. Var nú haldið beint áfram en einnig er vegarslóði upp með Hítaránni. Eftir nokkur hundruð metra greinist slóðin til suður en tæpari slóð heldur áfram í vesturátt meðfram múlunum. Hér lögðum við hjólunum og gengum upp í Grettisbæli sem blasir við á hægri hönd.

 

Á leið yfir Hítará _ Grettisbæli gnæfir yfir
Á leið yfir Hítará _ Grettisbæli gnæfir yfir

 

 

Berggangar í Grettisbæli - Höfndur heldur smár til vinstri
Berggangar í Grettisbæli - Höfndur heldur smár til vinstri
 
Frúin við hengiflugið norður af Grettisbæli
Frúin við hengiflugið norður af Grettisbæli
 

 

Gengið er upp í skarðið þar sem Grettir hafðist við í skjóli Björns Hítdælakappa, og rændi ferðamenn sem leið áttu eftir þjóðgötunni sem við nú fylgdum. Ekki sat Grettir fyrir okkur í þetta sinn og engar mannvistarleyfar fundum við uppi í bælinu, en bæði er útsýnið frítt og klettamyndanir stórkostlegar. Var nú misglöggvum götum fylgt í um 5 km undir hlíðum Fagraskógarfjalls uns komið var í Kaldárdal. Var Kaldá nú fylgt til byggða. Skv. loftmyndum mátti sjá móta fyrir reiðgötu þvert yfir dalinn og meðfram Kolbeinsstaðafjalli og áfram að Kolbeinsstöðum, en við létum þarna gott heita. Fyrirfram hafði ég verið óviss hvað væri hjólanlegt af þessari leið, en það reyndist meira og minna allt. Komum á veg við bæinn Hraunsmúla og honum fylgt niður á malbik. Héldum við þaðan í norðurátt í hvínandi mótvindi ca. 6 km leið uns komið var að afleggjara til hægri, merktum Stóra-Hrauni (ef ég man rétt). Honum var svo fylgt tæpa 2 km og um 150 m eftir að komið er framhjá eyðibýlinu Landbroti var ógreinileg slóð til vinstri tekin. Henni fylgdum við til suðurs nokkur hundruð metra uns komið var að lítilli og grunnri tjörn. Þarna voru vaðskórnir enn teknir fram, vaðið yfir tjörnina (á steinum) og handan hennar er sú ágæta Landbrotslaug. Þar mega e.t.v. 3-4 mjög sáttir sitja í heitu vatninu, þannig að sæmilega rúmt var um okkur skötuhjúin. Kalt var hins vegar og hvasst af norðri, þannig að lítið langaði okkur upp úr lauginni. Eftir dágott bað létum við okkur þó hafa það, fundum tjaldstæði nokkra tugi metra til suðurs í góðu skjóli í lægð á bak við hraunvegg en án góðs vatnsbóls. Snæddum kvöldverð og fórum í háttinn eftir nokkuð strembinn dag, mikið vatnasull en bara tæpa 40 km á hjólinu. Aðeins hafði ýrað á okkur öðru hverju, en þó aldrei þannig að þegar skjólfatnaðurinn hafði verið tekinn upp, þá var úrkomunni sjálfhætt.

 

Í tjaldstað við Landbrotslaug

Í tjaldstað við Landbrotslaug

 

Sunnudagurinn tók á móti okkur bjartur og fagur en hávaðarok af norðri, og var það miður þar sem fyrri hluti dags skyldi vera í hánorður. Fórum við til baka upp á Stóra-Hraunsveginn en beygðum þá í vesturátt og fylgdum honum skamma stund uns á hægri hönd var komið að gamalli brú yfir Haffjarðará, sem vart telst bílhæf, en hjólin komust yfir og var þá örskammt upp á þjóðveg. Haldið var beint yfir þjóðveginn eftir afleggjara með strengdri keðju (sem stöðvar seint reiðhjól) og liggur meðfram vesturbakka Haffjarðarár. Þarna er feyki fagurt og í hraungerði nokkru við sveig í ánni snæddum við dagverð og lögðum okkur. Eftir góða hvíld beið okkar þó mótvindurinn enn handan gerðisins og fylgdum við slóðanum uns komið var að eyðibýlinu Höfða, handan ár nokkurrar. Var grunn áin vaðin skammt áður en hún fellur út í Höfðaá og verður að Haffjarðará. Var nú farið upp hjá eyðibýlinu og slóða fylgt til hægri í norðvestur. Hér var grófur bílslóði fyrst í stað, sem eftir að komið var upp á hæðirnar greindist í reiðgötu til vinstri (N) á meðan slóðinn hélt áfram til vesturs. Var nú reiðgötunni fylgt. Var hún all óglögg á köflum, og máttum við á stundum leita að hennar. Mest mátti hjóla þó þyrfti að leiða hjólin um stöku brekkur og drullupytti. Eftir um 5 km leið frá Höfða máttum við vaða Arná og var þá örskammt yfir á þjóðveg skammt norður af Oddastaðavatni þar sem vegurinn sveigir aftur til norðurs. Var nú mestu vegleysum lokið en kaldur mótvindurinn tók við. Börðumst við nú norður á bóginn í hávaðaroki og kulda og fötum bætt á uns fátt var eftir fatakyns í töskunum. Ástandið skánaði ögn eftir að komið var á Skógarstrandarveginn, en samt var eins og vindurinn kæmi enn á móti. Það er ósköp lýjandi að hjóla svona á móti vindi. En eftir um 24 km á Skógarströndinni beygðum við til hægri í átt að Snóksdal og fljótlega fór vindurinn frekar með okkur en á móti.Héldum við inn með Miðá að vestanverðu og fundum okkur loks tjaldstað skammt sunnan Bæjar í nokkru skjóli. Dagurinn var ekki langur, tæpir 50 km.

 

Brúin yfir Haffjarðará
Brúin yfir Haffjarðará

 

Á mánudagsmorgni var norðanáttin hins vegar orðin góður vinur okkar. Þungskýjað var og varla þurrkur. Héldum við nú áfram suður, framhjá Hundadal uns komið var á malbik. Þar pumpuðum við í dekkin áður en lagt var af stað suður á bóginn. Áður en lagt var upp á Bröttubrekku var nesti snætt, bíll stöðvaður og hann fenginn til að kippa farangrinum (sem þó var farinn að léttast) upp á heiðartopp. Farangursteygjan var svo tengd í frúarhjólið og rösklega stigið upp brekkuna. Þar var farangurinn settur á hjólin á ný og svo látið gossa ofan í Borgarfjörðinn. Þegar komið var á Hringveginn var beygt til hægri (SV) í tæpa 5 km uns skammt er eftir í Hreðavatnsskála. Þá var tekinn afleggjari til vinstri yfir á Grjóthálsinn. Eftir að yfir Norðurá var komið var veginum fylgt til hægri að Svartagili. Þar snarversnar vegurinn en áfram héldum við, framhjá útrásarhöll nokkurri, og áfram suður uns komið var að Hóli. Þar greinist vegaslóði til hægri og var honum fylgt að Varmalandi, en þar komumst við á malbiki að þjóðvegasjoppunni Baulu, þar sem hesthúsað var nokkrum pylsum, kóki og ís. Þaðan voru tæpir 5 km eftir í bílinn eftir hringveginum. Þó að dagleiðin væri sú lengsta eða um 55 km, tók hún skamman tíma í meðvindi, og að stærstum hluta á malbiki.

Þar sem farinn var hringur, og spáð vaxandi NNV átt þegar leið á ferðatímann, varð ekki hjá því komist að lenda í nokkrum mótvindi, þó svo hann hvessti fyrr en vænta mátti. Annars reynir maður auðvitað að haga ferðum þannig að aldrei sé hjólað langar vegalengdir í mótvindi. Sunnudagurinn var því nokkuð lýjandi dagur, en á heildina litið var þetta ágæt ferð.

Vert er að benda á að stytta hefði mátt ferðina með því að fara Sópandaskarð, en þar sem ég hafði hjólað það tveimur sumrum áður, valdi ég aðrar leiðir yfir Snæfellsnesið, þrátt fyrir fegurð Langavatnsdals. Einnig hefði mátt skoða að fara reiðgötur um Svínabjúg upp úr Hítardal, en það bíður betri tíma.

Leggja þarf í nokkra rannsóknarvinnu áður en farið er af stað í svona ferðir, til þess að átta sig á landslagi og hvort að marki fyrir hinum fornu þjóðleiðum í landinu enn þann dag í dag.

Sjá má móta fyrir öllum þessum slóðum t.d. á örnefnasjá Landmælinga:
atlas.lmi.is/ornefnasja/ Einnig er gott að nota Fasteignamatsvefinn fyrir loftmyndir.


 


 

Hjólhesturinn, mars 2012