Laugardagsmorguninn 20. maí rann upp með sólskini og hlýju veðri. Um klukkan 9:00 voru fjórir herramenn mættir galvaskir til ferðar frá Árbæjarsafni í fyrstu af 5 dagferðum klúbbssins í sumar.

Þegar útséð var um að fleiri djarfir hjólakappar myndu hafa tök á að vera með að þessu sinni, lögðum við leið okkar um Gullinbrú og Grafarvogshverfin að brú yfir Korpu rétt við Korpúlfsstaði. Þaðan héldum við ótrauðir í Mosfellsbæ sem beið okkar handan árinnar. Var þá skilið við göngu og hjólastíga því þeir voru ekki meir á okkar leið. Þess í stað fylgdum við hestaslóðum og -stígum, fyrst með ströndinni þar sem er gljúp sandfjara varð á leið okkar og síðan um hesthúsahverfi hestamannafél. Harðar.

Næst var haldið með Köldukvísl, um túnfótinn hjá Leirvogtungu og upp með Leirvogsá , en hún skiptir löndum með Kjalneskum Reykvíkingum og Mosfellsbæ. Við Esjumela vorum við sumsé aftur í okkar ástkæra bæjarfélagi. Milli Esju og Mosfells liggur vegur upp í Þverárdal og þangað fórum við.

Er við áðum þar við Þverá sem menn ýmist hjóluðu yfir eða óðu, þykknaði í lofti.  Sluppum við þó án vætu til byggða. Milli Þverárdals og Hrafnhóla eru nokkrir sumarbústaðir og innar er skátaskálinn Þristur í eigu skátafélagssins Kópa Kópavogi.  Litum við þar inn dalinn og ræddum lítið eitt um hina gömlu þjóðleið Svínaskarð sem þar er ofar og tengir saman Kjós og Kjalarnes. Haldið var áfram í snjósköflum í túnfæti Hrafnhóla, yfir Leirvogsá að Skeggjastöðum í Mosfellsbæ og hestagötu þaðan að prestsetrinu Mosfelli, kirkjan þar er skemmtileg en smá, er hún gerð af þrístrendum flötum eingöngu.

Var nú haldið í Skammadal þar sem er kartöfluparadís Reykvíkinga, var farið að blása á okkur og það mótbyr. Er komið var ofan Reykjalundar tókum við rangan troðning enda ekki augljóst hver sá rétti var, því var það að við litum á austustu hverfin í bænum um leið og farið var í átt að Hafravatnsvegi hinum nyrðri. Lá leið okkar þaðan í áfangastað.