Sumir eiga bíla og aka þeim, eins og þeim þóknast um landið. En við getum ekki öll átt bíla. Það er heldur ekki nauðsynlegt. Áætlunarbílar ganga um alla helztu vegi. En auðvitað fer áætlunarbíll aðeins þá leið, sem honum er ætlað að fara. Og ekki er hann að stanza, til að lofa okkur að skoða Dettifoss, Ásbyrgi, Dimmuborgir eða hellana við Ægissíðu. Og enn síður fer hann heim í hlað til allra kunningja, sem okkur langar til að sjá. Hann bíður heldur ekki þar til þokunni léttir, svo við getum séð Herðubreið eða Tindastól.

Mörgum þykir líka kvöl að ferðast með þessum bílum, vegna þess að þar eru alltaf einhverjir farþegar, sem púa yfir okkur eitraðri tóbakssvælu, og skeyta því engu, þó að einhverjum sé óglatt. Reykingamenn hafa oft eyðilagt ánægjuna af langþráðri skemmtiferð. Ég er þeim örsjaldan samferða, því að ég á skemmtilegri farkost en bílinn. Það er Skjóna mín.

Skjóna mín er reiðhjól, og heitir eftir henni Skjónu litlu, sem ég eignaði mér, þegar ég var heima.

Ég hef farið nær alla akvegi landsins á Skjónu minni, og aðalvegina oft. Stundum hef ég verið að fara í kaupavinnu og átt ferðina, hvort eð var.

Flestir halda, að þetta séu erfið ferðalög. En það er misskilningur. Auðvitað hef ég ekki alla búslóð mína í eftirdragi. Ferðalangar verða að venja sig á að hafa lítinn farangur. Og aldrei skal ég setja mótor í hjólið.

Marga fallega staði hef ég séð, og margar minningar á ég um gestrisið fólk. Ég hef líka stundum hitt ágætis börn:

Einu sinni kom ég yfir heiði, svo illfæra, að ég varð að teyma hjólið alla leið. Síðan hélt ég niður dal. Á rann eftir dalnum. Þá komu tvö börn ríðandi og fóru sama veg. Þau spurðu, hvaðan ég kæmi og hvert ég ætlaði. Ég vissi ekki, hve langt ég kæmist. "Komdu heim til okkar," sögðu þau. "Við eigum heima á þessum bæ." Þau bentu út dalinn og yfir ána. Ég hélt að áin væri djúp. Auk þess ætlaði ég að komast sem lengst. Þau kvöddu og hurfu bak við leiti.

Handan við leitið biðu þau. Þar féll þverá í stóru ána, straumhörð, vel í hné. Börnin spurðu, hvort þau gætu ekkert hjálpað mér, svo að ég þyrfti ekki að vaða. Var ekki hægt að reiða hjólið?

Ég þakkaði þeim fyrir, en ekkert var hægt að liðsinna mér. Ég sagðist líka oft þurfa að vaða og hefði bara gaman af því.

Fyrir tveimur árum var ég á ferð norður á Ströndum. Ég bjóst ekki við frosti um miðjan september og var allt of lítið klædd. Ég hjólaði af öllum kröftum, en hélt ekki á mér hita í storminum. Dráttarvél og heytæki fór á undan mér á veginum, og steig ég af baki. Dráttarvélin hægði á sér. Tveir drengir ávörpuðu mig. "Viltu ekki gjöra svo vel og koma heim? Við eigum hérna heima," sögðu þeir. Ég lét ekki segja mér það tvisvar, og fegin varð ég kaffi þá. Nú er ég orðin farkennari í Strandasýslu.

Og ekki gleymdi ég því, þegar ég áði í brekku ofan við túngarð hjá gömlum bæ á Vesturlandi. Lítill stúfur, þriggja-fjögra ára gamall, labbaði með hendur í vösum úti á hlaði. "Komdu heim að Múla!" kallaði hann.

Ég svaraði engu, en hann kom tifandi upp túnið. "Komdu heim að Múla! Komdu heim að Múla!" kallaði hann.

Mig langaði að tala við þennan gestrisna mann. En mér þótti hann helzt til of ungur, til að bjóða heim gestum. Ég veifaði til hans um leið og ég fór.

Ég hygg að unglingar hafi fyrir 20-30 árum ferðast talsvert á reiðhjólum, og voru vegir þá vondir. Nú hefur þetta lagzt niður. Og er það slæmt.

Á götum Reykjavíkur eru reiðhjólin plága og hættuspil, bæði eigendunum sjálfum og vegfarendum. Það er hefndargjöf að gefa Reykjavíkurbarni reiðhjól. Sumir drengir hjóla eftir gangstéttunum, hjóla í ótal hringum kringum fólkið, sem bíður eftir vögnunum. Þeir eru ákaflega hróðugir og halda, að þeir séu miklir garpar að geta gert fólkinu bilt við. Og við skulum ekki minnast á "skellinöðrurnar". Farið þið heldur, drengir mínir, út fyrir bæinn, í góðu veðri, og reynið þið, hvað þið eruð þolnir að hjóla upp brekkur. Og, ef þið eruð stórir og sterkir, getið þið reynt, hvað þið komist langt á klukkutíma.

Í fyrra birtist samtal við tvær ungar stúlkur, sem komu á reiðhjólum frá Akureyri til Reykjavíkur. Þetta þótti svona merkilegt. Telpurnar eiga líka heiður skilið fyrir að skemmta sér á svona heilbrigðan og ódýran hátt. En þetta ættu fleiri að geta.

Fátt er eins gaman og að ferðast. Ferðalög veita líka menntun, sem ekki er hægt að fá af bókum. Marga unglinga heyri ég segja: "Ég hef ekki efni á að ferðast." En aldrei á ævi minni hef ég heyrt nokkra manneskju segja: "Ég hef ekki efni á að reykja." Er það ekki skrítið?

Oddný Guðmundsdóttir.



Þessi grein birtist áður í barnablaðinu Æskunni, sem nú heldur upp á 100 ára afmæli sitt, í apríl 1957. Það er eins og þetta hafi verið skrifað í dag en ekki fyrir 40 árum síðan.

 svona.gif

Kortið sýnir leiðir sem Oddný hafði hjólað 1957.

Páll Guðjónsson